Föstudagur 19. apríl, 2024
-0.8 C
Reykjavik

Brennum bækur?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir

Eftir að hafa afneitað loftslagsbreytingum af mannavöldum árum, jafnvel áratugum, saman hefur mannkynið nú vaknað við þann vonda draum að við höfum valdið alvarlegum breytingum á náttúru jarðar og veðrakerfum. Hamfarahlýnun er af mannavöldum.

Leiðindafréttum fylgir oft afneitun. En svo tekur skynsemin völdin og við reynum að bregðast við stöðunni og byggjum afstöðu og ákvarðanir á rannsóknum vísindafólks; staðreyndum. Í það minnsta flest okkar. Fyrirtæki sem framleiða og selja jarðefnaeldsneyti hafa augljósa fjárhagslega hagsmuni af því að afneita hamfarahlýnun. Stjórnmálamenn sem sækja aðferðafræði sína til heimsþekktra lýðskrumara hafa hagsmuni af því að segja einungis það sem er líklegt til að afla þeim fylgis en skeyta litlu um innihald og staðreyndir. Stjórnmálamenn lýðskrumsins sækja í mál sem eru sýnileg en tala iðulega gegn „sérfræðingunum að sunnan“. Eitt það fyrsta sem lýðskrumarar gera er því að gera lítið úr þekkingu, menntun og rannsóknum vísindafólks. Það eru bókabrennur nútímans.

Skynsamleg nálgun

Efnahagsleg áhrif þess að afneita hamfarahlýnun og gera ekkert verða meiri en efnahagsleg áhrif þess að bregðast við með skynsamlegum hætti. Tilvera okkar og hagsæld byggir á því að vistkerfið virki, að þurrkar, flóð og fellibylir verði ekki svo tíðir að viðvarandi uppskerubrestur kippi fótunum undan tilveru milljóna manna á stórum landsvæðum. Skynsamleg nálgun á þetta stærsta viðfangsefni samtímans felur í sér meiri stuðning við rannsóknir og tækniþróun þar sem tekist er á við vandann, samstillt átak ríkisstjórna, atvinnulífs, sveitarstjórna og almennings, þar sem allir einsetja sér að gera það sem þeir geta til að hemja losun gróðurhúsalofttegunda.

Það er sannarlega hægt að ná góðum árangri í baráttunni við hamfarahlýnun, en til þess þarf að halda staðreyndum til haga, hlusta á vísindafólk og fjármagna rannsóknir þeirra – og síðast en ekki síst hafa kjark til að grípa til róttækra og skynsamlegra aðgerða.

- Auglýsing -

Lýðræðið í gíslingu

Lýðskrumararnir, einræðisherrar nútímans, þurfa ekki að brenna bækur eða setja íþyngjandi reglur um fjölmiðla til að kæfa raddir þeirra sem eru ósammála þeim, þeir gæta þess bara að halda uppi stöðugu málþófi til þess eins að vera í kastljósi fjölmiðla, taka ræðustóla í gíslingu (allt þó í samræmi við lýðræðislegar venjur og lög þjóðþingsins) og halda að okkur stöðugum hávaða. Með því að öskra svo hátt að raddir skynseminnar drukkna í hávaðanum.

Valdarán einræðisherra nútímans fer ekki fram með vopnaðri uppreisn heldur með notkun  lýðræðislegra stofnana, hvaðan lýðskruminu er dreift af fjölmiðlum og í gegnum samfélagsmiðla, þaðan taka þeir lýðræðið í gíslingu. Lýðskrum þeirra er ekki aðeins hættulegt fyrir lýðræðið heldur er stöðug afbökun staðreynda, sérstaklega hvað varðar loftslagsbreytingar, beinlínis hættuleg fyrir alla tilveru mannkyns.

- Auglýsing -

Höfundur er framkvæmdastjóri Almannaróms – Miðstöðvar um máltækni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -