Mánudagur 18. mars, 2024
2.8 C
Reykjavik

Óttast ofsóknir

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í umræðum um þátttöku Íslands í Eurovision í Ísrael hafa ýmsir haft tilhneigingu til að setja málið fram eins og átök Ísraela og Palestínumanna séu á ábyrgð allra gyðinga og allra múslima og ekki dregið af sér í fordæmingum á hvorum hópnum fyrir sig. Hvernig finnst almennum gyðingum og múslimum á Íslandi að sitja undir þessum málflutningi?

Mannlíf fékk gyðinginn Jessicu LoMonaco og múslimann Nazimu Kristínu Tamimi til að segja frá upplifun þeirra af umræðunni og hvernig hún kyndir undir ótta minnihlutahlópa um árásir og hatur. Þær eru sammála um að allt of lítið sé gert til að vinna gegn hatursorðræðu á Íslandi.

Skrítið að gera fólk ábyrgt fyrir voðaverkum annarra

Nazima Kristín Tamimi er íslenskur múslimi sem hefur alist upp við það að fjölskylda hennar verði fyrir barðinu á hatursumræðu. Hún óttast að umræðan sé að harðna og að næsta Christchurch-árás gæti þess vegna verið framin af Íslendingi.

Nazima Kristín Tamimi er íslenskur múslimi sem hefur alist upp við það að fjölskylda hennar verði fyrir barðinu á hatursumræðu. Mynd / Hákon Davíð

„Pabbi er frá Palestínu en mamma er íslensk og við erum öll múslimar,“ útskýrir Nazima spurð um bakgrunn sinn. „Ég hef verið múslimi alla ævi og er orðin vön því að heyra fólk segja hræðilega hluti um okkur. Í fyrsta sinn sem ég man eftir því að hatursorðræðu hafi verið beint að okkur var það eftir árásina í Tvíburaturnana í New York 11. september 2001, þegar ég var sex ára. Þá varð bróðir minn fyrir áreiti í skólanum vegna þess að hann er múslimi. Síðan hefur þetta verið fastur þáttur í lífinu.“

Kemur trúarbrögðum ekkert við

Spurð hvað henni finnist um þessa umræðu sem hefur verið í gangi í sambandi við Eurovision í Ísrael, þar sem málinu er stillt upp sem átökum milli allra múslima og allra gyðinga, segir Nazima að það sé auðvitað ekkert vit í þeirri umræðu.

„Þetta ástand í Palestínu kemur trúarbrögðum ekkert við,“ segir hún. „Þetta er mestmegnis pólitískt mál. Það er síonistastefna Ísraelsstjórnar sem er eitthvað athugavert við, ekki gyðingdómur sem slíkur. Það er algjörlega fáránlegt að draga alla gyðinga inn í þá umræðu, hvað þá alla múslima.“

- Auglýsing -

Faðir Nazimu, Salman Tamimi, hefur verið ötull talsmaður múslima á Íslandi í áraraðir og oft verið dreginn persónulega inn í hatursorðræðu um múslima, hvernig hefur verið að alast upp við það?

„Það er mjög skrítin nálgun að gera fólk persónulega ábyrgt fyrir voðaverkum fólks af sömu trú annars staðar í heiminum,“ segir Nazima. „Ég áttaði mig hins vegar fljótt á því að það var í alvörunni til fólk sem var á móti múslimum sem slíkum, án neinnar ástæðu. Sem barni fannst mér mjög fjarlægt að þessu hatri væri beint að mínum hópi og algjörlega óskiljanlegt hvernig fólk fór að því að tengja þessi hryðjuverk við okkar fjölskyldu. Ég skil það ekki ennþá.“

„Það er mjög skrítin nálgun að gera fólk persónulega ábyrgt fyrir voðaverkum fólks af sömu trú annars staðar í heiminum.“

Nazima á föðurfjölskyldu sína í Palestínu og hefur oft dvalið þar og þekkir ástandið af eigin raun. Hún segir engan sem kemur til landsins sem ferðamaður geta dæmt um þau áhrif sem hernámið hafi á íbúana.

- Auglýsing -

„Það er auðvitað miklu erfiðara fyrir mig að vera þarna heldur en þennan venjulega túrista sem ferðast til Ísraels. Um leið og maður ætlar að fara yfir á Vesturbakkann sem Palestínubúi er maður stoppaður og það er leitað á manni og kannski er þér ekki hleypt í gegn. Það er daglegt líf fyrir íbúana þarna.“

Skilur hvað gyðingar eru að ganga í gegnum

Spurð hvort henni finnist umræðan vera orðin hatrammari og grimmari í seinni tíð, segir Nazima að hún sé kannski ekki orðin hatrammari en hún sé miklu meira áberandi í dag.

„Mér finnst fólk vera farið að samþykkja þetta múslimahatur meira,“ segir hún. „Það lætur þessar skoðanir sínar mun meira í ljós og er bara ekkert feimið við það lengur. Tökum umræðuna um flóttafólk á Íslandi sem dæmi. Það er alltaf talað um það sem múslima og fólk leyfir sér að segja ýmislegt sem ég hefði haldið að engin manneskja léti út úr sér. Það skýrist kannski að hluta til af því að núverandi forseti Bandaríkjanna hefur normalíserað þessa ummræðu og í framhaldi af því leyfir fólk sér að ganga lengra. Sem er mjög sorgleg þróun.“

Umræðan um Eurovision hefur leiðst út í það að allir gyðingar eru gerðir ábyrgir fyrir stefnu Ísraelsstjórnar, hvað finnst Nazimu um þá nálgun?

„Mér finnst það bara rosalega sorglegt,“ segir hún. „Ég þekki það af eigin reynslu að fólk kenni mér eða mínu fólki um eitthvað sem gerðist hinum megin á hnettinum þannig að ég skil mjög vel hvað gyðingar eru að ganga í gegnum. Það er auðvitað alls ekki rétt að þetta ástand sé gyðingum að kenna. Mér finnst það bara alls ekki eiga að líðast að níðast á trúarhópum í heild.“

Spurð hvort hún sem Íslendingur hafi einhvern tímann verið hrædd við að segja frá því að hún sé múslimi og hvort hún forðist það, neitar Nazima því.

„Ég forðast það ekki, en ég er alveg viðbúin viðbrögðunum,“ segir hún. „Mér finnst reyndar fólk á mínum aldri vera mun opnara en eldri kynslóðir, en ég er mjög meðvituð um það að það er ekki vinsælt á Íslandi að vera múslimi. Mér finnst einmitt að það sé jákvætt að vera stolt af því og að það sé leiðin til að breyta þeirri ímynd sem fólk hefur af múslimum. Ég ber ekki slæðu, en eina ástæðan fyrir því er að ég ólst ekki upp við það.“

Óttast að umræðan leiði til ofsókna

Nazima segist ekki neita því að það hvað andúðin á múslimum og umræða um hana er orðin almennari og opnari óttist hún að það geti leitt til ofsókna gegn múslimum á Íslandi.

„Við höfum verið að sjá það, eins og til dæmis eftir árásina í Nýja-Sjálandi, að fólk er ekkert að fela hatrið,“ segir hún. „Ég er auðvitað orðin vön því að sjá hvað fólk lætur út úr sér á Netinu en ég hugsaði alltaf að það myndi aldrei ganga svo langt að múslimar hér yrðu ofsóttir. Ummælin við fréttir af árásinni í Christchurch voru hins vegar svo svakaleg að ég fylltist sorg og ótta. Þar sást að við erum í raun og veru komin á þann stað að fólk hér hatar múslima það mikið að það gæti framið svona verknað. Það var hræðilegt að sjá menn fagna þessu ódæði í kommentum við frétt á Vísi og ég hugsaði með mér að einhver af þessum mönnum gæti eftir nokkur ár allt eins orðið eins og maðurinn sem framdi árásina.“

Hefurðu einhvern tímann óttast um eigið líf á Íslandi vegna þess að þú ert múslimi?

„Nei, ég hef reyndar aldrei verið hrædd hérna heima,“ viðurkennir Nazima. „Og ég er mjög þakklát fyrir það. Ég held að hluti af ástæðunni sé að múslimar á Íslandi eru stór hópur, um 2.000 manns, og kannski á uppeldi mitt sinn þátt í því að ég er ekki hrædd. Pabbi hefur alltaf hamrað það inn í okkur að vera stolt af uppruna okkar og trú og þar að auki er ég með gott net í kringum mig þannig að ég hef aldrei óttast það.“

Sniðganga getur virkað

Nazima segir að í hennar huga sé það engin spurning að Íslendingar hefðu átt að sniðganga Eurovision í ár vegna stefnu Ísraelsstjórnar í málefnum Palestínu.

„Sniðganga er sterkasta vopnið, að stíga fram og tilkynna að við ætlum ekki að taka þátt út af því sem er að gerast þarna. Ég skil svo sem alveg hvað framlag Hatara ætlar sér að gera, en þeir eru samt að taka þátt og um leið að normalisera ástandið.“

Þannig að þú ætlar ekki að horfa á Eurovision á laugardaginn?

„Nei, ég hef ekki fylgst neitt með keppninni í ár,“ segir Nazima ákveðin. „Og ég ætla ekki að horfa á útsendinguna frá henni. Ég finn mér bara eitthvað skemmtilegra að gera í þetta sinn,“ segir Nazima, sem hefur hingað til fylgst með Eurovision.

Spurð hvort hún haldi að það myndi hafa einhver áhrif að hunsa keppnina og hvetja aðra til þess, er hún efins um það. „Ég veit ekki hvort það myndi hafa áhrif eitt og sér,“ viðurkennir hún. „En það sendir allavega þau skilaboð að fólk samþykki þetta ekki og kannski myndu stjórnendur Eurovision eitthvað fara að hugsa sinn gang ef áhorfstölur lækkuðu mikið, ég veit það ekki. Sennilega myndi það að sniðganga keppnina ekki hafa bein áhrif á hernámið í Palestínu en það væri einn þáttur í því að mótmæla því og margt smátt gerir eitt stórt.“ Hún hvetur fólk til að taka afstöðu og þrýsta á stjórnvöld að gera eitthvað. „Markmiðið verður að vera að gyðingar, múslimar og kristnir geti lifað í sátt og samlyndi með hag allra hópanna í fyrirrúmi. Og mér finnst maður verða að leggja sitt af mörkum þótt maður sé bara lítið peð í stóra samhenginu. Það er skylda okkar allra.“

Galið að tengja alla gyðinga við Ísrael

Jessica LoMonaco er frá New York og hefur búið á Íslandi undanfarin fimm ár ásamt íslenskum eiginmanni og tveimur börnum þeirra. Móðir Jessicu er gyðingur og faðir hennar kaþólskur og hún segist skilgreina sig menningarlega sem gyðing, þótt hún sé ekki aktíf í trúnni. Henni blöskrar umræðan um ábyrgð gyðinga á stefnu Ísraelsstjórnar og finnst álíka gáfulegt að setja samasemmerki þar á milli eins og að gera brasilískan Lúterstrúarmann ábyrgan fyrir ákvörðunum íslensku ríkisstjórnarinnar á þeim forsendum að hann aðhyllist sömu trú.

Jessica LoMonaco segist skilgreina sig menningarlega sem gyðing og henni blöskrar umræðan um ábyrgð gyðinga á stefnu Ísraelsstjórnar. Mynd / Hákon Davíð

Jessica vill ekki meina að umræðan um gyðinga hafi versnað á þeim árum sem hún hefur búið hér, þótt hún hafi orðið meira áberandi undanfarið vegna skoðana fólks á því að Eurovision-keppnin sé haldin í Ísrael.

„Mér finnst þetta ekki hafa versnað,“ segir hún. „En það sem skelfir mig mest er að fólk yppir bara öxlum og lætur eins og þessi umræða sé eðlileg. Fyrir um það bil tveimur árum fann ég ásamt vinum mínum hakakrossa sem veggjakrotarar höfðu teiknað og við tókum myndir af þeim og birtum á samfélagsmiðlum. Nánast undantekningalaust afgreiddi fólk þetta með því að þetta væru bara einhverjir krakkar sem vissu ekki hvað þeir væru að gera, væru að leika sér. Það fannst mér ógnvekjandi. Ef börn eru nógu gömul til að teikna hakakrossa eru þau líka nógu gömul til þess að þeim sé sagt að þetta sé ekki í lagi.“

„Það sem skelfir mig mest er að fólk yppir bara öxlum og lætur eins og þessi umræða sé eðlileg.“

Eins og að gera Brasilíumann ábyrgan fyrir íslenskum stjórnvöldum

Varðandi umræðuna um Eurovision í Ísrael segir Jessica að hún hafi svo sem enga skoðun á því hvort það sé réttlætanlegt eða ekki að halda hana þar, hins vegar þyki henni óhugnanlegt að allir gyðingar, hvar sem þeir eru í heiminum og hvort sem þeir séu hliðhollir stefnu Ísraelsstjórnar eða ekki, séu gerðir ábyrgir fyrir því sem er að gerast í Palestínu.

„Vandamálið er að fólk um allan heim hefur tilhneigingu til að tengja stjórnvöld í Ísrael við alla gyðinga. Sem er auðvitað galið. Mjög margir gyðingar, þar á meðal ég, hafa engin tengsl við Ísrael og vita ekkert meira um það sem þar er að gerast en aðrir. Ég veit til dæmis bara það sem ég les í fréttum, alveg eins og hver annar, en ég hef séð mjög margar færslur á samfélagsmiðlum undanfarið, bæði á ensku og íslensku, þar sem málið er sett upp þannig að gyðingar séu ábyrgir fyrir stefnunni sem Ísraelsstjórn stundar. Verandi gyðingur frá New York get ég alls ekki skilið hvernig sú stefna tengist mér og mér finnst það mjög hættulegt að setja þetta fram með þessum hætti. Gyðingar hafa dreifst um allan heim og við höfum ekkert með Ísrael að gera. Þetta er eins og að gera Lúterstrúarmann í Brasilíu ábyrgan fyrir stefnu íslensku ríkisstjórnarinnar vegna þess að hann hefur sömu trúarbrögð. Það er engin glóra í þessu. Það að ég sé gyðingur gefur mér ekki eitthvert yfirnáttúrulegt innsæi í málefni Ísraela.“

Ógnvekjandi umræða

Spurð hvort hún óttist ekki þessa umræðu segir Jessica að hún óttist þetta að sumu leyti, sérstaklega hvað það sé lítið tekið á þessu vandamáli.

„Þetta er ógnvekjandi umræða vegna þess að þetta er auðveld leið til þess að finna blóraböggla,“ segir hún. „Það er að vissu leyti saga gyðingdómsins, þetta hefur verið svona síðan sögur hófust. Ég held samt ekki að þetta sé einhver meðvituð stefna sem sé kennd frá kynslóð til kynslóðar. Mér finnst vandamálið fyrst og fremst liggja í því að það er ekki tekið á þessu. Skynsamasta fólk leiðir þessa umræðu bara hjá sér og jafnvel afsakar hana og það hefur valdið hættulegri þróun. Fólk heldur að það geti bara sagt hvað sem er um gyðinga, eða aðra hópa, og það hafi enga afleiðingar. Það hræðir mig.“

Gyðingar og múslimar á Íslandi standa saman

Umræðan á íslenskum samfélagsmiðlum setur málið upp eins og um átök milli gyðinga og múslima sé að ræða, en Jessica segir að málið sé mun flóknara en svo.

„Það er skrítin uppstilling,“ segir hún. „Ég hef aldrei upplifað nein átök á milli þessara hópa, sérstaklega ekki hér á Íslandi. Hér eru bæði gyðingar og múslimar minnihlutahópar sem standa saman og standa oft fyrir sameiginlegum viðburðum. Við hjálpumst að og ég held að það sé sama sagan víðast hvar í heiminum. Það er æsifréttamennska að stilla þessu upp sem gyðingum á móti múslimum. Það er bara ódýr leið til að spila á reiði og tilfinningasemi og gefa fólki tækifæri á að velja á milli þessara hópa og það held ég að sé hættulegt vegna þess að þegar fólk fer að velja sér „lið“ til að halda með er alltaf stutt í það að einhver sé gerður að vonda kallinum og allt sé honum að kenna. Þessi hugsunarháttur er ekki raunveruleiki í mínum heimi og reyndar ekki hjá neinum sem ég þekki. Átökin í Palestínu hafa minnst með trúarbrögð að gera og þessi afstaða gerir bara illt verra.“

Fréttaflutningur hlutdrægur

Jessica fullyrðir að íslenskir fjölmiðlar séu mjög hlutdrægir í þessari umræðu og fréttaflutningur hér sé á allt öðrum nótum en hún er vön frá Bandaríkjunum.

„Ísland er mjög hliðhollt Palestínu og dregur enga dul á það í fréttaflutningi,“ segir hún. „Bandarískir miðlar eru aftur á móti hliðhollir Ísrael svo þeirra áherslur eru allt aðrar. Munurinn á fréttum íslenskra og bandarískra miðla af átökunum í Miðausturlöndum er gríðarlegur og maður veit ekki alveg hvað er í rauninni rétt.“

Svo það er þá erfiðara að vera gyðingur á Íslandi en í Bandaríkjunum?

„Það er engin spurning,“ segir Jessica með áherslu. „Þar sem ég ólst upp í New York er töluvert stórt gyðingasamfélag og mun fjölbreyttara en hér. Það er mjög erfitt að fylgja ekki fjöldanum á Íslandi og marka sér sinn sess. Maður þarf að sleppa stórum hluta af menningararfi sínum sem maður myndi annars rækta og það breytir því hvernig þú nálgast hlutina.“

Hrædd um að einhver sæi bænaboxið

Jessica segist ekki hafa orðið fyrir áreiti persónulega fyrir það að vera gyðingur, en hún hafi þó lent í snörpum umræðum á samfélagsmiðlum vina sinna sem ekki vissu að hún var gyðingur.

„Flestir vita ekki að ég er gyðingur, svo ég hef ekki orðið fyrir neinum leiðindum,“ segir hún. „Ég lít ekki út fyrir að vera gyðingur, veit svo sem ekki hvort það er eitthvert sérstakt gyðinglegt útlit til. Ég leyni því ekkert en ég tilkynni það heldur ekki svo að margir vina minna vita ekki að ég er gyðingur þannig að þegar vinur minn póstaði einhverju um það á samfélagsmiðlum hvað gyðingarnir væru að gera í Ísrael tók ég þátt í þeirri umræðu og lenti í mjög löngum þrætum við alls konar fólk um að það væri ekki í lagi að setja þetta svona fram. Það að setja mig í sama kassa og fólk sem ég tengdist ekki neitt, bara vegna þess að ég er gyðingur væri ógnvekjandi og hættulegt.

„En það var samt óþægilegt að upplifa þessa tilfinningu. Að einhver gæti verið á móti mér bara vegna þess úr hvaða menningarheimi ég kem.“

Það er töluvert rótgróið gyðingahatur hér, þótt fólk vilji kannski ekki kannast við það og maður fer varlega. Við erum til dæmis með bænabox á dyrunum hjá okkur og ég hef stundum verið hrædd um að við lentum í aðkasti út af því, en svo uppgötvaði ég að það veit enginn á Íslandi hvað það merkir svo ég slappaði af og tók það ekki niður. En það var samt óþægilegt að upplifa þessa tilfinningu. Að einhver gæti verið á móti mér bara vegna þess úr hvaða menningarheimi ég kem. Ég held að það þurfi nauðsynlega að auka menntun um þessi efni í íslenska skólakerfinu. Og flest af því fólki sem kemur með svona fordómafullar yfirlýsingar hugsar ekkert út í það hvað það er að segja. Mest af þessum fordómum er bara vanþekking sem er svo mikill óþarfi, því Ísland hefur alla burði til að gefa öllum menningarheimum rými og byggja upp alvörufjölmenningarsamfélag.“

Heldur með Hatara

Þar sem Jessica er frá Bandaríkjunum gengur blaðamaður út frá því að hún hafi ekki einu sinni vitað af tilvist Eurovision áður en hún flutti til Íslands, en það reynist misskilningur.

„Já, já, ég vissi af Eurovision,“ segir Jessica og hlær. „Sem Bandaríkjamaður hefur hún auðvitað ekki skipt mig jafnmiklu máli í gegnum tíðina og Íslendinga en ég hafði oft heyrt talað um keppnina. Síðan ég flutti til Íslands hef ég stundum horft á keppnina, en ég get ekki sagt að ég sé ákafur aðdáandi.“

Ætlarðu að horfa á Eurovision þetta árið?

„Kannski, ég er ekki viss.“

Hvaða skoðun hefurðu á Hatara og atriðinu þeirra? Finnst þér það vera hræsni af þeim að taka þátt með þennan boðskap?

„Mér finnst þetta mjög athyglisverður gjörningur hjá þeim og hvernig þeir nálgast þetta,“ segir Jessica. „Mér finnst mjög jákvætt að þeir haldi þessu til streitu og komi hugmyndum sínum á framfæri. Ég er ekki sammála því að þeir ættu að hætta við, vegna þess að ef þeir gera það þá kemst boðskapurinn ekki til skila, það heyrir hann enginn og þótt Ísland hætti við myndi fólk bara yppa öxlum og gleyma því fljótlega. En með því að taka þátt og segja meiningu sína hafa þeir miklu meiri möguleika á að hafa áhrif og vonandi stuðla að einhverjum breytingum.“

Þannig að þú stendur með þeim í keppninni?

„Algjörlega!“ segir Jessica af sannfæringu. „Mér finnst þeir ekki vera þarna til að tala á móti gyðingum, þeir vilja bara stuðla að friði og skapa umræðu. Ég held þetta séu mjög góðir strákar sem vilja að það sé borin virðing fyrir öllu fólki, þótt það sé kannski ekki sú ímynd sem þeir vilja að fólk sjái. Svo, já, ég stend með þeim þótt mér þyki ansi ólíklegt að þeir sigri, miðað það sem ég veit um Eurovision, en það væri virkilega æðislegt!“

Nazima og Jessica standa saman gegn fordómum.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -