Föstudagur 19. apríl, 2024
-0.8 C
Reykjavik

Byrjaði að vinna við Food & Fun átta ára gamall

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Óli Hall hefur, þrátt fyrir ungan aldur, verið þátttakandi í undirbúningi og framkvæmd hátíðarinnar frá upphafi og er núna viðburðastjóri hátíðarinnar.

Food & Fun er að skella á í átjánda sinn og Óli Hall hefur, þrátt fyrir ungan aldur, verið þátttakandi í undirbúningi og framkvæmd hátíðarinnar frá upphafi. Hann segir Food & Fun hafa opnað margar dyr fyrir íslenskum kokkum og ekki síður átt þátt í því að vekja áhuga og hrifningu erlendra kokka á íslensku hráefni og matargerð.

„Ég hef tekið þátt í Food & Fun síðan það byrjaði árið 2001,“ útskýrir Óli. „Pabbi minn, Siggi Hall, byrjaði með hátíðina og þótt ég væri ekki nema átta eða níu ára var ég með frá byrjun. Til að byrja var mitt hlutverk aðallega að halda utan um og passa upp á börn gestakokkanna sem komu og skemmta þeim á meðan fullorðna fólkið fór út að borða. Þannig að það má segja að ég hafi alist upp með hátíðinni og hátíðin með mér.“

Hátíðin í ár er sú átjánda í röðinni og Óli segir alla fjölskylduna vera á kafi í undirbúningnum eins og hún hafi verið frá upphafi. „Pabbi er framkvæmdastjóri Food & Fun og ég hef tekið við stöðu viðburðastjóra hátíðarinnar,“ útskýrir Óli. „Móðir mín hefur síðan yfirumsjón með bókunum og gestum og ferðum og systir mín er yfirhönnuður. Það hefur alltaf verið mjög sterk heild sem hefur rekið hátíðina saman í öll þessi ár. Auðvitað hafa nokkrir komið og farið af þeim sem hafa aðstoðað okkur í gegnum tíðina, en við erum hér enn.“

Off menu nýtt konsept í ár

Spurður hvort hátíðin í ár sé að einhverju leyti frábrugðin fyrri hátíðum segir Óli að þessi hátíð skeri sig úr að einu leyti. „Við erum að byrja með nýtt konsept sem heitir off menu og felst í því að fjórir gastro-pöbbar og street food-staðir munu taka þátt án þess að vera með fullan matseðil eins og hinir staðirnir sem eru með í aðalkeppninni, heldur geta gestir farið á þessa staði og bragðað á einum eða fleiri réttum frá einhverjum af þessum flottu erlendu gestakokkum sem koma til okkar. Svo eru líka meðal gestakokkanna í ár tvær konur sem eiga ættir að rekja til Afríku, sem ætti að verða mjög spennandi að kynnast matargerðinni hjá. Að öðru leyti er þetta bara hefðbundið Food & Fun. Fimmtán af bestu veitingastöðum í Reykjavík taka þátt og fá til sín gestakokk frá miðvikudeginum 27. febrúar til sunnudagsins 3. mars og setja upp Food & Fun-matseðil sem er á sama verði, 8.900 krónur, á öllum stöðunum.“

„Til að byrja var mitt hlutverk aðallega að halda utan um og passa upp á börn gestakokkanna sem komu og skemmta þeim á meðan fullorðna fólkið fór út að borða.“

- Auglýsing -

Óli segir það alltaf mikla upplifun að fara á milli staðanna sem taka þátt í Food & Fun og smakka það sem þessir súpergestakokkar, eins og hann kallar þá, hafa fram að færa.
„Við höfum leitað eftir því að fá unga og upprennandi kokka til okkar, fólk sem er alveg við það að leggja veitingabransa heimsins að fótum sér, en svo höfum við líka alltaf fengið til okkar gamalgróna og reynda kokka sem eru mjög virtir innan veitingageirans og á þessari hátíð eru nokkrir sem hafa komið áður, sumir sem dómarar á fyrri hátíðum en svo hleypur keppnisskapið í þá og þeir vilja ólmir koma og fá að taka þátt í hátíðinni sem kokkar. Reyndar er það þannig í 99% tilfella að kokkarnir sem koma grátbiðja um að fá að koma aftur, finnst þetta æðisleg upplifun og eiga ekki orð yfir það hvað íslenska hráefnið sé gott og íslensk veitingahús rekin af mikilli fagmennsku og metnaði.“

Hefur skapað stórt vináttu- og tengslanet

- Auglýsing -

Óli segir alls kyns tengsl og tækifæri hafa opnast fyrir íslenskum kokkum í tengslum við hátíðina, sem sé eitt af því jákvæða sem hún hafi haft í för með sér. „Margir íslenskir kokkar hafa fengið tækifæri til að fara í stuttan tíma og vinna á veitingahúsunum sem gestakokkarnir okkar koma frá og það hafa skapast góð vinasambönd og stórt tengslanet sem íslenskir kokkar njóta góðs af. Sömuleiðis hefur þetta tengslanet opnað leiðir fyrir okkur sem stöndum að hátíðinni til að geta nálgast kokka út um allan heim og gestakokkarnir sem hafa komið hafa líka verið svo duglegir að dásama hátíðina við kollega sína að margir þeirra hafa haft samband við okkur að fyrra bragði og viljað fá að koma og taka þátt.“

Spurður hvort gestakokkar hátíðarinnar komi þá alls staðar að segir Óli meginhluta þeirra koma frá Evrópu og Ameríku, en það séu þó alltaf einhverjir sem komi lengra að. „Það hafa verið að koma kokkar alls staðar að úr heiminum en yfirleitt eru þetta kokkar frá Evrópu og Ameríku, það er bara hentugast upp á staðsetningu Íslands þannig að kokkarnir okkar þurfi ekki að ferðast mjög langt eða fara margar flugferðir til að komast til okkar. En það hafa komið kokkar frá Ástralíu, Líbanon og Taílandi, þannig að það að við einskorðum okkur ekki við nágrannana.“

Hvað finnst þér persónulega skemmtilegast við þessa fimm daga sem hátíðin stendur yfir?
„Þetta er náttúrlega ótrúlega mikil vinna fyrir okkur sem sjáum um hátíðina,“ segir Óli, „en það er alls ekki leiðinlegt að flakka á milli veitingastaða og borða kannski einn, tvo, þrjá rétti á hverjum stað bara af því að maður stökk inn til að athuga hvernig gengi. Það endar stundum með því að maður er búinn að borða tvo, þrjá fulla matseðla á einu kvöldi þegar maður ætlaði bara að kíkja í heimsókn og segja hæ. Þetta hefur gert mjög mikið fyrir mig persónulega og ég á núna marga mjög góða vini sem eru í þessum bransa á veitingastöðum hér og þar úti í heimi.“

Óvænt uppákoma í New York

Til marks um það hversu víða þeir kokkar sem tekið hafa þátt í Food & fun starfi segir Óli eina skemmtisögu. „Ég og foreldrar mínir vorum að ferðast í Bandaríkjunum. Vorum búin að vera nokkra daga í Washington og þar var alltaf verið að bjóða okkur í mat af einhverjum Food & Fun-kokkum, sem var yndislegt. Svo fórum við til New York og þar var strax það sama upp á teningnum. Í hádeginu annan daginn sem við vorum þar ákváðum við samt að lifa hættulega og fara bara inn á einhvern veitingastað sem við vissum ekkert um og þekktum engan. Við vorum varla komin inn úr dyrunum þegar heyrist æpt úr miðjum salnum „Siggi!“ Og þá var þarna kokkur sem hafði komið á Food & Fun nokkrum árum áður. Þannig að það eru engar ýkjur að Food & Fun teygir anga sína víða.“

Óli fetaði ekki í fótspor föður síns sem kokkur heldur lærði viðskiptafræði sem hann segir reyndar koma sér vel í undirbúningi hátíðarinnar. „Ég reyni að setja kokkana upp í excel,“ segir hann og hlær. „Það getur orðið mjög erfitt og er oft mikið púsl, en við höfum alltaf náð að láta alla bitana úr púslinu falla á rétta staði.“

Fyrirspurnir um matseðla hálfu ári fyrir hátíð

Íslenskir veitingahúsagestir hafa tekið hátíðinni fagnandi og Óli segir mörg dæmi þess að hópar taki sig saman og mæti á hátíðina ár eftir ár. „Það hefur alltaf verið mjög góð aðsókn að Food & Fun,“ segir hann. „Upphaflega var hugmyndin að baki hátíðinni sú að hún yrði átak til þess að fá fólk inn á veitingastaðina á dauðasta tíma ársins. Ég held að sumir veitingastaðirnir sem voru með í byrjun og eru enn starfandi í dag hefðu kannski ekki getað farið í gegnum suma veturna ef ekki hefði verið fyrir Food & Fun þegar staðirnir allt í einu fylltust í þrjá, fjóra daga í febrúar. Með ferðamannasprengingu undanfarinna ára hefur þetta snúist meira um gaman og húllumhæ og er ekki jafnnauðsynlegt fyrir afkomu veitingahúsanna og það var, en þrátt fyrir það fyllast allir staðirnir enn meira en vanalega þessa daga. Það er önnur stemning í kringum þessa daga og það er fullt af matarklúbbum og saumaklúbbum sem við höfum frétt að hafi mætt á hverju einasta ári og bíði eftir hátíðinni í ofvæni. Þeir eru stundum byrjaðir að senda okkur skilaboð hálfu ári fyrr og vilja fá að vita hvenær hægt verði að skoða matseðlana svo þeir geti valið sér staði til að fara á í þetta sinn.“

„Svo eru líka meðal gestakokkanna í ár tvær konur sem eiga ættir að rekja til Afríku, sem ætti að verða mjög spennandi að kynnast matargerðinni hjá.“

Óli segir markmið hátíðarinnar vera að vekja athygli á gæðum íslensks hráefnis og skapa hátíðarstemningu í bænum. „Það hefur tekist mjög vel í öll þessi ár,“ segir hann, „við höfum getið okkur mjög gott orð bæði hér heima og erlendis og hátíðin hefur vaxið með hverju árinu. Auðvitað hefur hún aðlagast og breyst í takt við breytta tíma en hún hefur alltaf haldið í sama kjarnakonseptið sem er að koma með eitthvað skemmtilegt og öðruvísi inn í veitingaflóruna í Reykjavík.“

Eins og áður sagði hefst Food & Fun þann 27. febrúar og stendur til 3. mars og allir staðirnir sem taka þátt í hátíðinni bjóða upp á Food & Fun-matseðla alla þá daga. Nánari upplýsingar um gestakokka og matseðla má nálgast á heimasíðu hátíðarinnar, foodandfun.is.

Svipmyndir frá Food & Fun-hátíðinni í fyrra. Myndir / Antonía Lárusdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -