Föstudagur 29. mars, 2024
-3.2 C
Reykjavik

„Dolly er mín sjálfshjálparbók“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Dögg Hjaltalín, bókaútgefandi hjá Sölku forlagi, segist yfirleitt vera með nokkrar bækur á náttborðinu til að velja á milli eftir því hvernig hún er stemmd. Mest lesi hún bækur almenns eðlis og sígildan skáldskap, það ráðist svolítið af umhverfinu hverju sinni. Þegar Dögg ferðast finnst henni t.d. tilvalið að lesa bækur um áfangastaðina sem hún heimsækir eða skáldskap eftir þarlenda höfunda. Það sé kjörin leið til að gera ferðina eftirminnilegri. En af þeim bókum sem hún hefur lesið, hverjar skyldu standa upp úr?

„Ég beið við tölvuna eftir að bókin Ég er Malala kæmi út til að geta keypt hana og lesið samdægurs. Saga þessarar stelpu er ótrúlega áhrifarík og viðhorf hennar til menntunar og stöðu ungra stelpna er svo magnað að það er ekki annað hægt en að drekka boðskap hennar í sig. Ég hef lesið hana nokkrum sinnum,“ segir Dögg og bætir við að hún hafi verið svo heppin að geta gefið út þýdda útgáfu af bókinni fyrir fáeinum árum og þ.a.l. sé boðskapur Malölu nú aðgengilegur dætrum hennar á íslensku.

Harmur englanna eftir Jón Kalman.

Harmur englanna eftir Jón Kalman er síðan eftirminnilegasta skáldsagan sem ég hef lesið um ævina,“ heldur hún áfram. „Ég las bókina í snjóbyl á Hólmavík á Ströndum og mér varð hreinlega kalt við tilhugsunina um að fólki hafi þurft að fara milli bæja og yfir heiðar alveg sama hvernig viðraði og í algjörri óvissu um að það næði á áfangastað. Aðstæður Íslendinga fyrr á öldum sitja enn í mér eftir lesturinn.“

Þá segir Dögg að „Þetta breytir öllu“ eftir Naomi Klein sé sú bók sem veki upp mestar tilfinningar hjá henni. „Ég hef lesið hana nokkrum sinnum og í sannleika sagt verð ég alveg brjáluð í hvert sinn,“ viðurkennir hún en bókin fjallar um umhverfismál í víðu samhengi og hvaða öfl stjórna gangi mála í heiminum í dag. „Vonandi lesa bara sem flestir þessa bók,“ segir hún, „og fara að leyfa náttúrunni að njóta vafans.“

Sú bók sem Dögg segist hins vegar alltaf hafa á náttborðinu og glugga reglulega í er Dream more eftir „eina flottustu konu heims“ eins og hún orðar það, Dolly Parton. „Dolly fjallar þarna um viðhorf til lífsins og í bókinni má finna svar við öllum vandamálum heimsins með slatta af húmor, en Dolly er mín sjálfshjálparbók.“

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -