Fimmtudagur 28. mars, 2024
1.8 C
Reykjavik

„Ég sýndi engin merki um að ég yrði þessi gaur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hlynur Kristinn Rúnarsson játaði sig sigraðan eftir áralanga neyslu og sölu stera, fíkniefna og fangelsisdóm, fór í meðferð og nýtir edrúmennskuna og annað tækifæri sitt í lífinu vel. Hann er nýlega orðinn þrítugur og hefur stofnað góðgerðasamtökin Það er von, þar sem hann ætlar að vinna að forvörnum og sýna öðrum að það er alltaf von.

 

Hlynur var alla tíð góður námsmaður og mikið í íþróttum, hann kláraði stúdentsprófið á tveimur árum og ætlaði að læra fjármálaverkfræði. Hann er jafnframt lærður einkaþjálfari en hann byrjaði að æfa og keppa í fitness að undirlagi föður síns. „Ég ætlaði að sýna gamla að ég gæti unnið hann í fitnesskeppni sem ég svo gerði en það var ekki nóg af því ég var ekki nógu sáttur við sætið sem ég lenti í. Gríðarlegt keppnisskap mitt tók við og ég fór að taka stera til að bæta árangurinn. Siðferði mitt breyttist mikið við notkun þeirra en mér finnst ekki næg umræða um hvaða áhrif sterar hafa. Neyslu þeirra fylgir mikið þunglyndi og mikið gervisjálfstraust. Sterar hafa áhrif á hormónastarfsemi og þeir geta valdið ófrjósemi. Þeir hafa mjög neikvæð áhrif sem ég áttaði mig ekki á og vissi ekki af á þessum tíma,“ segir Hlynur.

„Fyrir þennan tíma sýndi ég engin merki um að ég yrði þessi gaur og þeir sem muna eftir mér fyrir 18 ára aldur segja að þeir hefðu aldrei trúað að ég færi þessa leið.“

Til að afla sér tekna hóf Hlynur að selja stera og seinna fíkniefni. „Ég var í allskonar „bissness“. Ég var þessi yfirborðskennda glansmynd með allan pakkann: flottan bíl, dýra fylgihluti og fallega kærustu. Áður en ég vissi af var ég kominn í alls konar viðskipti sem voru bara ömurleg. Þessu fylgdi stöðug paranoja, miklir peningar, gríðarlega mikið rugl og stanslaus ótti um hverjum væri treystandi; verandi umkringdur fólki í neyslu og lögreglu. Þetta var gríðarlega lýjandi.“

„…finnast ég ekki vera nóg, ég hef alltaf glímt við þá tilfinningu.“

Eftir sex ár byrjaði Hlynur sjálfur að nota efnin sem hann hafði hingað til bara selt öðrum. „Mér fannst þetta ekkert mál, ég var búinn að umgangast þau svo lengi. Ég tók mjög meðvitaða ákvörðun, las mér til um efnin og vissi allt um þau, samt fór ég að nota þau, það var ákveðin sjálfseyðingarhvöt sem fylgdi steranotkuninni og að finnast ég ekki vera nóg, ég hef alltaf glímt við þá tilfinningu,“ segir Hlynur og segist hafa verið karlinn sem leit út fyrir að vera fullur sjálfstrausts, en ekkert hafi verið á bak við þá grímu.

Stofnaði góðgerðasamtök eftir meðferð

- Auglýsing -

Hlynur hefur nú verið edrú í rúma þrjá mánuði, vinnur í sjálfum sér á hverjum degi og er nýlega búinn að stofna góðgerðasamtökin Það er von. „Ég stofnaði samtökin af því ég vil gefa fólki von og sýna því að það getur breytt lífi sínu til batnaðar. Ég legg jafnmikið í það í dag að vera edrú eins og ég lagði í það áður að vera í neyslu. Ég hugsa um leiðir til að bæta andlega líðan mína, ég hlusta á Tony Robbins alla daga til að þjálfa hugann í jákvæðri hugsun, ég æfi mig í æðruleysi, en ég þarf að taka ákvörðun daglega um að gera það.“

Hlynur segir meginmarkmið Það er von vera að útrýma fordómum í samfélaginu svo fólk með fíknisjúkdóm þori að leita sér hjálpar. „Og skilji að það er ekki eitt, við erum rosalega mörg,“ segir hann. „Fíkninni fylgir skömm, bæði frá samfélaginu og okkur sjálfum vegna þess sem við höfum gert. Ég er gott dæmi þess að með breyttu viðhorfi er hægt að breytast. Ég á ekki að vera síðri einstaklingur af því að ég tók ranga ákvörðun 19 ára gamall, sem þróaðist út í fíkn og fíknisjúkdóm. Höfnun og ótti okkar við skömmina í augun annarra hamlar okkur í að leita okkur hjálpar og jafnvel í að framkvæma eitthvað þegar við erum orðin edrú.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Áður fannst mér betra að vera deyfður en sýna veikleika, mér finnst hins vegar í dag að það felist styrkur í því að geta sýnt veikleika sína,“ bendir hann á.

- Auglýsing -

„Það er sorglegt að vita til þess að ef ég hefði unnið meira í sjálfum mér og hefði lært að elska sjálfan mig á réttum forsendum, æft til að vera í mínu besta formi í stað þess að sækjast eftir viðurkenningu annarra og einhverju sæti og hvernig aðrir vildu að ég væri, þá hefði ég ekki skaðast svona af fitness. Því fylgdi vöðvafíkn, útlitsdýrkun og yfirborðsmennska, það var ekkert andlegt við þetta. Hjá mér var þetta þannig, ég ætla ekki að segja að það eigi við um alla. Ég keppi í normalisma í dag, ég reyni það, þó að ég hafi keypt mér 180 þúsund króna úlpu fyrir þessa myndatöku þá er ég mjög eðlilegur,“ segir Hlynur og hlær.

„Ég var alltaf að reyna að fylla upp í svartholið hjá sjálfum mér og hélt að mér liði betur með flottan bíl, peninga af sölunni, að vinna mót, líta svona út og svo framvegis. Ég hélt alltaf að veraldlegir hlutir myndu færa mér hamingju, svo skildi ég að hún kemur innan frá. Ég þurfti að fara til Brasilíu til að uppgötva það.“

Lestu viðtalið við Hlyn í heild sinni í nýjasta Mannlífi. 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -