Miðvikudagur 27. mars, 2024
2.8 C
Reykjavik

„Enginn tími til að hanga á barnum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kári Guðlaugsson er ýmsu vanur þegar kemur að fjallasporti þrátt fyrir að vera aðeins fimm ára gamall. Í sumar hjólaði hann til dæmis niður alvörufjallabrekkur í fríi með foreldrum sínum í frönsku Ölpunum.

Fjölskyldan naut sín vel í Ölpunum í sumar. Hér er Kári ásamt móður sinni og systur.

Foreldrar Kára, sem verður sex ára í nóvember, eru Manuela Magnúsdóttir, tölvunarfræðinemi við Háskóla Íslands, og Guðlaugur Ingi Guðlaugsson, tölvunarfræðingur hjá K3, og eiga auk hans dótturina Sóleyju sem er tveggja ára. Þau hafa alla tíð haft áhuga á útivist og fjallabrölti og þegar þau voru í Hjálparsveit skáta í Reykjavík kynntust þau meðal annars klifri. „Árið 2012 þegar við áttum von á Kára vorum við ákveðin í að gefa þennan lífsstíl ekki upp á bátinn þó að við yrðum foreldrar. Kári fæddist í nóvember og í maí vorum við lögð af stað í tveggja mánaða klifurfrí til Korsíku. Svo segja má að Kári hafi verið í kringum útivist og útivistarfólk nánast frá fæðingu. Sömu sögu er að segja um Sóleyju þar sem hún var dregin með í klifurferð til Sardiníu fimm mánaða gömul og hafði gaman af,“ segir Manuela og bætir við að þau reyni að velja klifurstaði þar sem börn geti athafnað sig. „Flestum börnum finnst gaman að festa sig í línu og klifra smávegis, það gefur þeim sjálfstraust og þau takast á við smávegis lofthræðslu í öruggu umhverfi. En ef þau vilja það ekki er vinsælt að fá að spranga í klettinum, köllum það að fara í klifurrólu.“

Kári hafði engan tíma til að „hanga á barnum“ í sumarfríinu en hér er hann þó í ísstoppi með pabba sínum.

Hjólaði í Ölpunum
Á sumrin ferðast fjölskyldan mikið innanlands og tekur í flestum tilfellum hjólin með. „Við elskum að fara í frí þar sem allir fá smáútrás og njóta sín, sumir hafa spurt hvort við kunnum ekki að slappa af en þetta okkar leið til að gera það. Síðasta sumar fórum við í Alpafjöllin, til Pra-Loup, en þar er alvöruhjólagarður með downhill-braut sem hentar fyrir börn,“ segir Manuela. „Við leigðum fyrir Kára fulldempað hjól og allan þann hlífðarbúnað sem þarf til þess. Hann byrjaði á æfingasvæðinu en fékk svo grænt ljós á að fara í lyfturnar þegar hann var búinn með allar æfingabrautirnar. Hann var pínulítið smeykur þegar hann fór fyrstu ferðina úr um það bil 2000 metra hæð niður í 1600 metra hæð en eftir hana vildi hann ekki gera annað. Lengsta daginn hans hjólaði hann 16,5 kílómetra og um það bil 2000 metra niður sem er alveg rosalega mikið fyrir svona lítinn kropp. Við náðum að brjóta þetta aðeins upp með ís af og til, en Kári hafði engan tíma til að „hanga á barnum“. Það var svo ótrúlega gaman að elta hann niður fjallið og sjá hvernig sjálfstraustið óx og hvernig hann varð betri með hverri bunu.“

Klifrið hefur fylgt Kára nánast frá fæðingu.

Ætlar að hjóla niður Skálafellið
Kári var tveggja ára þegar hann eignaðist sitt fyrsta hjól og aðeins hálfu ári seinna var hann farinn að renna sér niður brattar hjólabrettabrekkur. Áhugi hans á hjólreiðum byrjaði svo fyrir alvöru tveimur árum seinna þegar hann eignaðist pedalahjól sem hann lærði strax á. „Það sama ár prófaði hann að fara í hjólagarð í Frakklandi þar sem voru pumptrack-, beygju- og stökkæfingasvæði, þar var ótrúlegt að fylgjast með honum. Honum fannst þetta svo skemmtilegt og gerði allt rétt, hann skildi hvernig átti að hreyfa sig á hjóli án þess að fá nokkra kennslu,“ segir Manuela.
Í vor bauð Hjólreiðafélag Reykjavíkur upp á æfingar fyrir 4-6 ára, þar fór Kári í fyrsta sinn í alvörukennslu hjá nafna sínum, Kára Halldórssyni. „Við mælum hiklaust með slíkum námskeiðum,“ segir Manuela. Kári blandar sér nú í samtalið. „Mér finnst skemmtilegara að hjóla en að klifra og skemmtilegast er að hjóla í Ölpunum. Hérna á Íslandi finnst mér mjög gaman að æfa mig að hjóla niður tröppur og svo fer ég stundum í Öskjuhlíðina með pabba eða mömmu. Mér finnst allt skemmtilegast á hjóli nema fara upp,“ útskýrir hann. „Að hjóla er góð íþrótt því maður fær stór læri,“ bætir hann svo við og móðir hans brosir í kampinn. „Í framtíðinni langar mig til að fara bara í frí með fjallahjólið mitt í Alpana og með vinum mínum. Og líka hjóla niður Skálafellið,“ segir hann en foreldrar hans hafa sagt að það þurfi að bíða til næsta árs.
Foreldrar Kára ráðleggja fólki eindregið að taka börnin með í svona sport. „Við finnum hvað börnin slappa vel af utandyra og tala nú ekki um ef þau eru að gera eitthvað sem að þeim finnst virkilega spennandi. Það færir okkur öll nær hvert öðru að eiga svona sameiginlegan flöt,“ segir Manuela að lokum en næst á dagskrá er hjólaferð til vinafólks í Bergen og hjóla- eða skíðaferð um næstu jól. Í vetur vonast þau til að vera dugleg á skíðum og kenna Sóleyju á skíði.

Myndir / Úr einkasafni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -