Fimmtudagur 28. mars, 2024
0.8 C
Reykjavik

Ferðalagið breytti viðhorfinu til lífsins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir að hafa lokið námi í ljósmyndun við Tækniskóla Íslands vorið 2018 lagðist ljósmyndarinn Unnur Magna í flakk og ferðaðist ein um Kambódíu og Myanmar í sex vikur með myndavélarnar dinglandi á mjöðminni.

 

„Ég hafði lengi haft augastað á Kambódíu, en saga landsins, þjáningarnar sem fólkið þar þurfti að ganga í gegnum þegar Rauðu kmerarnir, Khmer Rouge, réð ríkjum og upprisan eftir þær hörmungar fannst mér áhugaverð,“ útskýrir Unnur spurð að því hvers vegna þessi lönd hafi orðið fyrir valinu sem áfangastaðir. „Þannig að ég keypti mér miða, sótti um visa og fyrst ég var á annað borð á leið til Kambódíu fannst mér líka þess virði að bæta aðeins við ferðina og fara til Myanmar og skoða menninguna þar ásamt frumbyggjasvæðum sem voru einungis opnuð almenningi árið 2014.“

„Maður verður talsvert nægjusamari en áður, enda þarf maður að læra það að ferðast einungis með nauðsynjar og stilla öllu í hóf á svona bakpokaferðalagi.“

Var það ekkert erfið ákvörðun að fara ein í svona langt ferðalag á framandi slóðir?

„Nei,“ svarar Unnur snöggt. „Það kom ekki annað til greina en að fara ein í ferðalagið einungis með nauðsynjar og myndavélarnar, enda var tilgangurinn að safna myndefni samhliða því að upplifa eitthvað nýtt og hreinlega finna sjálfa mig pínulítið. Til að allt gengi upp hafði ég samband á Instagram við breskan ljósmyndara sem er búsettur í Kambódíu og ferðaðist ég að hluta til með honum, sem var mikilvægt því að það er nauðsynlegt að fá innsýn í lifnaðarhætti heimamanna frá einhverjum sem þekkir vel til. Til að ég fengi dýpri og betri skilning á Kambódíu byrjaði ég á því að fljúga til Phnom Penh og heimsækja Tuol Sleng Genocide Museum og Killing Fields, þar sem maður er leiddur í gegnum hörmungarnar sem áttu sér stað á tímum Rauðu kmeranna rétt um 1980.

Eftir þá heimsókn varð ég klökk og alveg ofboðslega þakklát fyrir að hafa fæðst á Íslandi. Það var erfitt en gott að byrja þar og vita betur hvað hafði gerst í landinu því ég sat með heimamönnum og -konum eftir það, sem ræddu þetta mikið og höfðu ýmist misst aleiguna, foreldra sína, systkini eða börn í þessum hörmungum, sem marka dálítið andrúmsloftið í landinu. Enn í dag þegar rignir mikið skolast upp úr jarðveginum líkamsleifar og klæði þannig að það eitt að horfa niður fyrir sig er átakanlegt. Svo er þar minnisvarði með þúsundum hauskúpa sem hafa mismunandi áverka sem var hræðilegt að stúdera.“

Mynd/Unnur Magna

Ástfangin af innfæddum

- Auglýsing -

Eftir þessa lífsreynslu hélt Unnur ferðinni áfram og sóttist eftir að komast í kynni við almenning í landinu og forðast vinsæla ferðamannastaði. „Ég ferðaðist síðan í þrjár vikur um Kambódíu, frá Phnom Pehn gegnum Kampong Chhanang, Udong, Kampong Thom, Preah Vihear, Battambang og upp til Siem Riep þar sem ég skoðaði Angkor Wat sem er þekktasta og stærsta trúarhof Angor-fornminjagarðsins sem er mikilvægasta fornminjasvæði í Suðaustur-Asíu,“ útskýrir hún.

„Vissulega var áhugavert að skoða það en það heillar mig lítið að vera á sama stað og allir aðrir ferðamenn og það sem stóð upp úr voru til dæmis heimsóknir í földu Búddahofin fjarri almenningi í Udong og Kompong Thom þar sem ég heimsótti munka og nunnur og snæddi með þeim hádegisverð. Svo auðvitað öll litlu stoppin á leiðinni hvort sem það var að heimsækja innfædda í hrörleg híbýli á yfirgefnum lestarteinum eða inn í sveitum þar sem nægjusemin réð ríkjum, skoða markaði og sitja með fólkinu, fara með unglingum að veiða froska, kíkja á kambódíska fimleikasýningu eða einfaldlega bara njóta þess að hlæja með innfæddum og fylgjast með lífi þeirra. Hver einasta manneskja sem ég hitti var ofboðslega hjálpsöm og maður varð mjög fljótt ástfanginn af þessu vinnusama fólki sem flestallt var brosandi og geislaði af einhverju góðu.

Þrátt fyrir fátækt og erfiðleika er fjölskyldusamheldnin samt ofboðslega falleg og þau leggja mikið upp úr góðum tengslum við allt fólkið sitt og hjálpast öll að við að gera lífið bærilegra. Ef ég ætti síðan að nefna eitthvað sem kom mér á óvart í Kambódíu þá var það sýn fólks og trú á æðri anda. Síðan var það umferðin, ég hef aldrei séð annað eins kaos á ævinni. Allt upp í fimm manna fjölskyldur á einni skellinöðru, eða hjón með hálfa búslóð, rúm, skrifborð eða ísskáp á herðunum. Þar sem eiga kannski að vera þrjár akreinar eru sex og að komast fótgangandi yfir götu þarfnast sko hugrekkis því það er hæpið að einhver stoppi. Þannig að maður þarf í raun bara að mjaka sér á milli farartækja, halda niðri í sér andanum og vona það besta. Þetta var orðið ákveðið listform eftir nokkurra daga viðveru, dálítið eins og línudans.“

- Auglýsing -
Mynd/Unnur Magna

Eins og að ferðast aftur í tímann

Svo var komið að því að kveðja Kambódíu og halda á nýjar slóðir. „Eftir dásamlegan tíma í Kambódíu flaug ég yfir til Yangon, höfuðborgar Myanmar,“ heldur Unnur ferðasögunni áfram. „Sú borg kom mér mjög á óvart, þar var allt önnur menning en í Kambódíu, allt mjög vestrænt og vel hægt að greina að borgin hafi seint á 19. öld verið bresk nýlenda. Satt best að segja saknaði ég menningarerilsins sem ég upplifði í Kambódíu um stund þannig ég dreif mig burt eftir að hafa skoðað það helsta í borginni, gylltar pagóður og markaði með indversku ívafi. Ég flaug þá til Kyaing Tong, og hélt leið minni áfram um mjög afskekkt svæði innan Gullna þríhyrningsins þar sem landamæri, Taílands, Laos og Myanmar (áður Búrma) mætast. Það er nauðsynlegt að fá tilskilin leyfi frá yfirvöldum til að fara inn á svæðið, maður þarf að vera farinn burt af svæðinu fyrir myrkur á ákveðnum tíma og það er lífsnauðsynlegt að hafa með sér túlk og leiðsögumann.

Á þessu svæði heimsótti ég ættbálkana Wa, Shan, Akha og Lahu. Í raun kemst maður ekkert á milli þessara ættbálka nema fara fótgangandi í gegnum skóglendi og í hitanum er það út af fyrir sig ákveðin þrekraun en svo vel þess virði því þetta var, held ég bara, eitt það merkilegasta sem ég hef upplifað. Það er stórundarlegt að heimsækja svona ættbálka, í raun eins og að ferðast mörg þúsund ár aftur í tímann. Sumir ættbálkarnir stóla ekki á neitt tímatal, einungis þurrkatíð eða rigningartímabil.

Fólkið þarna veit í raun ekkert hvað gerist fyrir utan þorpið þess, það er engin nútímatækni sjáanleg og í raun ekkert af viti inni í húsunum nema risaeldstó í miðjum kofunum og bambusfleti í hornunum þar sem fólkið sefur. Þau ala villisvín og villihunda sem þau ýmist nota sem gjaldmiðil eða æti. Þetta var nokkurra daga upplifun og mig langaði alls ekkert að halda för minni áfram því þetta var svo stórmerkileg menning þarna í földum fjallaþorpum og gaman að fylgjast með fábrotnu lífinu og hlusta á sögur, hlusta á þau spila á hljóðfæri og sjá þau dansa.“

Mynd/Unnur Magna

Var kölluð draugur

Það var auðvitað ekki í boði að setjast um kyrrt á þessum tíma ferðalagsins og Unnur hélt ferð sinni áfram. „Ég flaug frá Kyaing Tong til Heho og sigldi á Inle Lake og skoðaði ótrúlegt líf fiskimannanna á leið minni til LoiKaw þar sem ég dvaldi með Kayan-ættbálknum, eða hringhálsum,“ heldur hún áfram.

„Það var líka upplifun að hitta þau, konurnar algjörar drottningar heim að sækja þótt þær í raun eigi ekkert, en innileg nærvera þeirra og húmor er ótrúlegur. Það að dvelja í fábrotnum híbýlum þeirra, fylgjast með þeim berfættum í fjallshlíðunum að sækja eldivið og snæða með þeim hádegisverð var eftirminnilegt. Eftir ótrúlega gestrisni langhálsanna hélt ég ferð minni áfram til Bagan, þar sem ég fylgdist með vinnandi fólki brenna rusl við sólarupprás, skoðaði trúarhof og pagóður en einnig ögraði ég lofthræðslu minni og fór í loftbelg og sá sólarupprásina frá öðruvísi sjónarhorni, sem var mjög skemmtileg upplifun.

„Það kom ekki annað til greina en að fara ein í ferðalagið…“

Ferðalagið endaði svo í borginni Mandalay, sem mér fannst ótrúlega gaman að heimsækja þó að hún væri mjög fábrotin og þar væri sennilega skaðleg mengun í loftinu. Þar sá ég einnig hryllilega fátækt, margt fólk býr bara á ströndinni í einhverju sem verður seint kallað tjald og börnin eru hálfsjálfala á götunum, bleyjulaus að betla mat. Þegar ég síðan gekk eftir ströndinni í Mandalay hópuðust stálpuðu börnin að mér og kölluðu alltaf „t hcay s“ sem ég lærði seinna að þýðir draugur á búrmísku, enda er ekki mikið um vestræna ferðamenn þar í samanburði við t.d. Bagan og fólkið ekki vant því að snjóhvít manneskja með tvær stórar myndavélar á mjöðminni stingi nefinu inn í hrörleg híbýli þess og sýni því og fábrotnu, erfiðu lífi þess áhuga.“

Það er ljóst af þessari ferðasögu að ferðalagið hefur haft djúp áhrif á Unni, en hvað fannst henni sitja sterkast eftir í huganum þegar heim  var komið?

„Eftir tæpar sex vikur á ferðalagi verður að segjast að ég fann viðhorf mín til lífsins breytast örlítið eftir dvölina,“ segir hún.

Mynd / Unnur Magna

„Maður verður talsvert nægjusamari en áður, enda þarf maður að læra það að ferðast einungis með nauðsynjar og stilla öllu í hóf á svona bakpokaferðalagi. Í raun var líka dálítið erfitt að koma aftur í þessa hröðu vestrænu menningu okkar þar sem mikið stress og mikil neysluhyggja ræður ríkjum.

En ég er líka full af þakklæti fyrir það að búa á Íslandi í hreinu loftslagi, þakklát fyrir að eiga öruggt skjól yfir höfuðið, geta farið í sturtu án þess að taka tímann og súpa hveljur af kulda ásamt því að eiga greiðan aðgang að ótakmörkuðu hreinu, drykkjarhæfu vatni. Nú þarf ég bara að fara að huga að því, þegar tími gefst til, að gera þúsundum ljósmynda góð skil, velja vel og jafnvel halda sýningu. Hugurinn er samt sem áður farinn að leita í annað ljósmyndaferðalag á fjarlægar slóðir, sem ég vona að verði að veruleika fyrr en seinna.“

Mynd / Unnur Magna
Mynd / Unnur Magna

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -