Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Fjölskyldulífið hefur setið á hakanum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Smiðjan brugghús er glænýr veitingastaður í Vík í Mýrdal sem bruggar sinn eigin bjór. Þórey Richardt Úlfarsdóttir er stjórnarformaður og rekstaraðili staðarins og einn af fjórum eigendum.

Þórey Richardt Úlfarsdóttir sér um daglegan rekstur veitingastaðarins.

„Við bjóðum þykka og djúsí hamborgara auk meðlætis og fjölbreytt úrval af bjór á krana, erum með tíu dælur. Stefnan er að hafa handverksbjór frá hinum ýmsu brugghúsum á Íslandi og svo auðvitað okkar eigin þegar brugghúsið sjálft verður klárt eftir tæpan mánuð,“ segir Þórey en auk hennar eru eigendur Sveinn Sigurðsson, sambýlismaður Þóreyjar, Vigfús Þór Hróbjartsson og Vigfús Páll Auðbertsson. Þórey og Sveinn annast daglegan rekstur, þau eru með átta starfsmenn og þar af sex í fullu starfi.

Segja má að þau hafi ómeðvitað stefnt að þessum áfanga í mörg ár þar sem draumurinn um eigið brugghús hafi blundað í þeim lengi. „Þegar Svenni var í BS í viðskiptafræði og meistaranámi í vörumerkjastjórnun og markaðssamskiptum þá fjölluðu lokaverkefnin hans um greiningu á neyslu- og kauphegðun handverksbjóra. Áhuginn á bjór og bjórmenningu jókst stöðugt og eldhúsið og allt geymslupláss heima hjá okkur var lagt undir heimabrugg. Þegar Vigfús Þór fékk svo bjórbók í jólagjöf hafði hann samband og spurði hvort við ættum ekki bara að opna brugghús. Við grínuðumst með að Svenni gæti bara þýtt viðskiptaáætlunina á íslensku og látið vaða. En Vigfús var ekkert að grínast og fljótlega voru komnar teikningar af hóteli, veitingastað og brugghúsi. Síðar bættist Vigfús Páll í hópinn en fyrirtækið hans, Auðbert og Vigfús Páll á stórt iðnaðarhúsnæði á Vík í Mýrdal. Hann hafði hugsað sér að opna veitingastað og brugghús í einu og við sameinuðumst því um að hrinda þessu í framkvæmd.“

Sáu að mestu leyti sjálf um vinnuna
Fjórmenningana langar að bæta bjórmenninguna á Íslandi, prófa sig áfram með nokkra bjórstíla og halda sig á amerísku línunni. „Fyrstu tegundirnar okkar verða New England IPA-bjór sem heitir Wet Spot og Porter-bjór sem heitir Dark Side og í framhaldinu verða tegundinar fleiri. Mikið er lagt í handverksbjóra, magnið af humlum er oftast meira sem gerir þá bragðmeiri og eingöngu er notast við úrvals hráefni. Einnig er oft notað hráefni í handverksbjór sem er almennt ekki notuð í almenna bjórgerð, allt frá skyri upp í kókosbollur. En við ætlum að leggja áherslu á að vinna með efni úr heimabyggð eftir bestu getu.“

„Efst í huga er hjálpsemin hjá öllum – heimamenn hafa hjálpað mikið, reddað okkur hinu og þessu og lánað alskonar verkfæri. Svo hafa fjölskylda og vinir hjálpað alveg gríðalega.“

Mikill ferðamannastraumur er til Víkur í Mýrdal og því hentar staðsetningin vel. Húsið hefur haft mörg hlutverk í gegnum tíðina og þar voru upphaflega gömlu Kaupfélagsverksmiðjurnar og þaðan draga þau nafnið. Í húsinu var einnig bílasprautunarverkstæði, smíðastofa grunnskólans og meira að segja var líkgeymsla í húsinu um tíma. „Það er búið að taka um ár að standsetja húsið en við höfum nánast séð um allt sjálf, bara á kvöldin og um helgar, auðvitað með hjálp fjölskyldu og vina. Við sjáum sjálf um fjármögnun á verkefninu og alla hönnun. Vigfús Þór gerði allar teikingar og í sameiningu hönnuðum við uppsetninguna. Ég sá um innanhússhönnunina en auðvitað hjálpuðust allir að í því ferli eins og öllu öðru,“ segir Þórey.

Ferlið hefur verið afar skemmtilegt en auðvitað erfitt á köflum. Að sjá þetta verða að veruleika finnst mér alveg magnað. Efst í huga er hjálpsemin hjá öllum – heimamenn hafa hjálpað mikið, reddað okkur hinu og þessu og lánað alls konar verkfæri. Svo hafa fjölskylda og vinir hjálpað alveg gríðalega. Þetta hefði varla verið hægt án allrar þeirra aðstoðar sem við höfum fengið. Erfiðastar eru líklega allar vinnustundirnar sem hafa farið í þetta – öll kvöld og helgar hafa verið undirlögð í brugghúsið svo að fjölskyldulífið hefur setið svolítið á hakanum. Við Svenni eignuðumst til dæmis okkar annað barn þegar að framkvæmdir voru að byrja þannig að stór hluti fæðingarorlofsins var varið þarna. Svenni og Vigfús Þór vörðu nánast hverju kvöldi í brugghúsinu í marga mánuði meðan ég og hans kona sáum um börnin og heimilið. Annars gengur okkur Svenna vel að vinna saman þótt stundum hafi verið spenna á milli okkar þegar mesta álagið var í framkvæmdum. En við berum virðingu hvort fyrir öðru og erum góð í að nýta kosti hvort annars. Við reynum að skipta þessi á okkur – Svenni sér til dæmis að mestu um brugghúsið og ég um veitingastaðinn. En svo er Svenni líka mjög góður í því að leyfa mér að halda að ég hafi rétt fyrir mér,“ segir hún hlæjandi.

Eigendur Smiðjunnar brugghúss frá vinstri: Vigfús Páll Auðbertsson, Þórey Richardt Úlfarsdóttir, Sveinn Sigurðsson og Vigfús Þór Hróbjartsson.

Vinna matinn frá grunni
Einfaldur matseðill er á veitingastaðnum en þau vildu frekar hafa fáa rétti og gera þá vel en að eiga á hættu að bjóða upp á miðlungsmat. „Við völdum að hafa hamborgara því að okkur finnast þeir einfaldlega góðir – borgari og bjór klikkar ekki. Við bjóðum upp á 180 g hamborgara, pulled pork/rifið svínakjöt og franskar. Við vinnum flest frá grunni eins og sósur, eplahrásalat og handgerða laukhringi. Viðtökurnar hafa verið hreint frábærar, bæði hjá heimafólki og ferðamönnum.“

- Auglýsing -

Fram undan hjá Smiðjunni brugghúsi er að koma allri starfsemi af stað, byrja að brugga og halda áfram í vöruþróun. „Einng að koma vörunni okkar á hótelin og veitngastaðina í kring og auðvitað í Vínbúðina líka. Við höldum svo bara áfram að halda standardnum á veitingastaðum, okkur langar svo í framtíðinni að hafa reikofn og bjóða upp á okkar eigin rif og meiri mat í BBQ-stíl.“

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Eliza Witek

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -