Miðvikudagur 27. mars, 2024
2.8 C
Reykjavik

Gert á skoplegan og ýktan Chaplin-ískan hátt

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þjóðleikhúsið frumsýndi á annan í jólum Einræðisherrann eftir Charlie Chaplin. Sigurður Sigurjónsson verður í aðalhlutverkunum – annars vegar í hlutverki flækingsins og hins vegar í hlutverki Hinkels (Hitlers) en flækingurinn verður einræðisherra fyrir röð mistaka þar sem þeir Hinkel eru svo líkir. Sigurður segir að þótt viðfangsefnið sé um þá skelfilegu hluti sem tengjast síðari heimsstyrjöldinni þá sé þetta gert á skoplegan hátt eins og búast má við í verki eftir Chaplin.

„Þetta er dönsk leikgerð af þessari bíómynd Chaplins, Einræðisherranum, og bárust okkur spurnir af henni en hún var sett upp í Kaupmannahöfn og lukkaðist vel,“ segir Sigurður Sigurjónsson. Um er að ræða leikgerð Nikolajs Cederholms en hún sló í gegn á síðasta leikári hjá Nørrebro-leikhúsinu. Hingað til lands komu þeir sem stóðu að þeirri uppfærslu og er Nikolaj einnig leikstjóri uppfærslunnar í Þjóðleikhúsinu.

„Kvikmyndin, Einræðisherrann, er mjög merkileg. Hún varð gerð árið 1939 og fjallar um síðari heimsstyrjöldina; Hitler, gyðingaofsóknir og alla þessa skelfilegu hluti. Þetta er í rauninni háalvarleg saga sem fjallar um þessa skelfilegu atburði og uppgang nasismans í Þýskalandi en Chaplin gerði það auðvitað á sinn hátt – á skoplegan hátt til að niðurlægja þessi illmenni og eins og búast má við í verki eftir Chaplin. Þetta er gert á skoplegan og ýktan Chaplin-ískan hátt. Það er undirliggjandi dramatík og það gengur mikið á.“

Sigurður verður í aðalhlutverkunum – annars vegar í hlutverki flækingsins og hins vegar í hlutverki Hinkels (Hitlers) en flækingurinn verður einræðisherra fyrir röð mistaka þar sem þeir Hinkel eru svo líkir. „Þeir líta alveg eins út nema að Hinkel er vondur maður á meðan flækingurinn er gegnumgóður.“

Aðrir leikarar í sýningunni eru Ilmur Kristjáns, Pálmi Gests, Ólafía Hrönn, Gói, Þröstur Leó, Hallgrímur Ólafsson, Sigurður Þór og Oddur Júlíusson.

„Við gerum þetta að leikhúsverki með stórum staf. Þetta er mjög sýnilegt leikhús ef ég má orða það þannig og það er margt gert fyrir opnum tjöldum þannig að leikhúsið er svolítið að sýna bakdyramegin. Það finnst mér vera mjög skemmtilegt leikhús. Allir leikarar eru á sviðinu allan tímann þannig að þetta er mjög skemmtilegt að því leytinu til. Þetta er mjög frjálsleg sýning og það er allt leyfilegt. Leikarar framkvæma öll leikhljóð fyrir augum áhorfenda og það er ekkert spilað af segulbandi heldur verður þarna píanóleikari. Tónlistin er í Chaplin-stíl; þetta er þöglumyndar-tónlist.“

- Auglýsing -

Djúpur og réttsýnn

Sigurður segir að fyrstu kynni sín af kvikmyndum Chaplins tengist því þegar hann fór í sal grunnskólans sem hann var í þar sem sýnd var stuttmynd eftir meistarann. „Það voru frjálsir tímar og þá var farið á sal og maður fékk að sjá stuttar Chaplin-myndir. Það er mín fyrsta minning um Chaplin.“

Sigurður viðurkennir að hann líti nú Chaplin öðrum augum en áður. „Maður hefur núna stúderað hann að vissu leyti en ég svo sem vissi ýmislegt um ævi hans og allt það. Þegar ég kynntist þessari sögu þá finnst mér hann hafa verið svo merkilegur vegna þess hvað hann hefur verið djúpvitur og réttsýnn maður. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því núna. Hann var stór listamaður,“ segir Sigurður með áherslu. „Ég held að það hljóti að vera draumur allra leikara að prufa að leika hlutverk Chaplins. Það er þó alltaf erfitt að feta í fótspor snillings en maður reynir.“ Þetta verður ekki í fyrsta skipti sem Sigurður leikur Hitler. „Ég lék hann í sýningu Þjóðleikhússins sem hét „Svejk í seinni heimsstyrjöld“ þannig að ég hef smáreynslu af honum. Það er bara að herma eftir Hitler á ýktan hátt. Það er stíllinn okkar.“

- Auglýsing -

Sigurður segist halda að með þessu verki hafi Chaplin verið að leggja áherslu á að fólk eigi að vera gott hvert við annað. „Það kemur í ljós aftur og aftur að við erum það ekki. Þess vegna þurfum við að hamra svolítið á þessu við okkur sjálf og við hvert annað.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -