Fimmtudagur 25. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Grundvöllur mennskunnar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

SKOÐUN eftir Fríðu Björk Ingvarsdóttur.

Listir hafa borið hátt í samfélagsumræðu undanfarinna vikna. Skemmst er að minnast málverka Gunnlaugs Blöndal í Seðlabankanum og verðlaunatillögu Karin Sander í Vogahverfi. Umræðan um þessi listaverk hnitar hringi í kringum pólitískar áherslur samtímans; femínisma, metoo, skipulagsmál, félagsleg úrræði vs menningaruppbyggingu, áherslur í fagurfræði, vistfræði, hlýnun jarðar, innflytjendamál o.s.frv. Um leið sannar umræðan það sem hinir „innvígðu“ í listum vita; að listunum er ekkert óviðkomandi, að þær eru gríðarlegt hreyfiafl og – kannski síðast en ekki síst – að þegar þær ber á góma hafa allir skoðun.

Sem er stórkostlegt. Því það skiptir engu máli hvort fólk hefur áhuga á listum eða ekki. List hefur áhrif á fólk, mótar líf þess, skynjun, afstöðu og umhverfi, burtséð frá því hvort það vill taka þátt í listum eða ekki.

Listirnar hafa lifað með okkur frá örófi alda. Og það hafa þær gert vegna þess að þær eru órofa þáttur í mennskunni. Listirnar, hæfileikinn til að skapa – söngur, sögur, dans, sjónræn tjáning – er meðal þeirra þátta sem í gegnum árþúsundin hafa skapað manninum yfirburðastöðu í sköpunarverkinu. Ástæðan er einföld; listræn tjáning og sú rannsókn sem í sköpunarferlinu býr skapar samstöðu og skilning er nær langt út fyrir það sem hversdagslegt amstur og brýnustu nauðsynjar geta spannað og hefur orðið grundvöllurinn að samfélagsþróun mannskepnunnar umfram aðrar skepnur.

Við gætum hætt að rífast um listamannalaun, fjármagn í Listaháskóla, kostnað við innkaup á myndlist, rekstur leikhúsa, óperu og sinfóníuhljómsveitar með því einfaldlega að leggja þetta allt niður og efla í staðinn heilbrigðiskerfið, tvöfalda þjóðvegi, bora fleiri göng … En um leið yrðum við að spyrja okkur hvað færi í súginn.

Við gætum hætt að rífast um listamannalaun, fjármagn í Listaháskóla, kostnað við innkaup á myndlist, rekstur leikhúsa, óperu og sinfóníuhljómsveitar með því einfaldlega að leggja þetta allt niður og efla í staðinn heilbrigðiskerfið, tvöfalda þjóðvegi, bora fleiri göng. Auðvitað getum við það og margt annað í leiðinni. En um leið yrðum við að spyrja okkur hvað færi í súginn. Hefði Auður Ava Ólafsdóttir fengið bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, Eggert Pétursson unnið Carnegie-myndlistarverðlaunin, Anna Þorvaldsdóttir tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs? Hefðum við orðið í öðru sæti í Evróvisjón, Börn náttúrunnar verið tilnefnd til Óskarsverðlauna, Airwaves slegið í gegn og Hallgrímskirkja komist á stall með þekktustu kennileitum heims? Hugsanlega.

Tökum þá þráðinn enn lengra; myndi gleði okkar minnka og skynjunin grynnka? Gætum við haldið áfram að álíta okkur bókmenntaþjóð? Dytti botninn úr ferðamannaiðnaðinum? Hvers konar orðspor færi af okkur á heimsvísu og hvaða áhrif hefði það á efnahagslíf okkar og stöðu á meðal annarra þjóða? Hvernig þjóð værum við án lista? Svarið er einfalt. Við værum önnur þjóð; ættum enga sögu, sjálfsímynd eða sameiningartákn (þau eru t.d. flestöll af meiði listanna; fáninn, skjaldarmerkið, myntin).

Við skulum því halda áfram að stæla um listir, æsa okkur yfir pálmatrjám, upphengi í Seðlabankanum, atonal-tónlist, þátttökunni í Feneyjatvíæringnum, óþarfa kostnaði við fagurfræðilegar útfærslur á hverfum, byggingum, búnaði og tækjum. Því þannig færum við sönnur á mikilvægi listanna sem gagnrýnandi, greinandi, óbugandi og uppbyggjandi afls er bætir líf okkar allra og færir okkur samfellu í þjóðlíf og (al)þjóðarvitund.

- Auglýsing -

Höfundur er rektor Listaháskóla Íslands.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -