Fimmtudagur 25. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

„Hér hjálpast allir að“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gamla Samkomuhúsið á Akureyri, leikhús Leikfélags Akureyrar, iðar af lífi þessa dagana. Í húsinu er nú unnið hörðum höndum að uppsetningu á nýju íslensku fjölskylduverki, Galdragáttin og Þjóðsagan sem gleymdist eftir norðlenska leikhópinn Umskiptinga.

Leikhópurinn fékk styrk frá Leiklistarráði Mennta- og menningarmálaráðuneytis fyrir sýningunni sem er unnin í samstarfi við Leikfélag Akureyrar en fjölmargir standa að baki sýningunni. Það sem þó vekur athygli er að konur gegna öllum lykilstöðum framleiðsluteymisins. Agnes Wild er leikstjóri, Auður Ösp Guðmundsdóttir sér um hönnun búninga og leikmyndar, Birna Pétursdóttir er framleiðandi, Katrín Mist Haraldsdóttir er höfundur dans- og sviðshreyfinga og Sesselía Ólafsdóttir er annar tveggja höfunda tónlistar.

„Það er ótrúlega gaman að fá að sjá um dansinn í svona stóru og metnaðarfullu verkefni og það er líka rosa lærdómur í því fyrir mig að vinna með leikurum sem eru flestir ekki með mikinn dansbakgrunn,” segir danshöfundurinn Katrín Mist og bætir því við að það sé mjög gaman að vinna dansspor út frá persónum verksins sem margar hverjar eru langt frá því að vera mennskar. Katrín hefur áður verið danshöfundur í verkum Leikfélags Akureyrar og hlaut meðal annars Grímutilnefningu 2016 fyrir dansinn í sýningunni Píla Pína. Á síðasta leikári var Katrín aðstoðarmaður danshöfundar fyrir Kabarett, en þar vann hún náið með Lee Proud sem er margverðlaunaður danshöfundur og hefur á Íslandi samið fyrir sýningar á borð við Billy Elliot, Mary Poppins og Matthildi. Katrín er lærður leikari en hefur æft dans frá barnsaldri og verið brautryðjandi í danskennslu á Akureyri, rekur Dansstúdíó Alice sem er að hefja sitt sjötta rekstrarár og kemur til með að kenna tæplega 300 akureyrskum börnum dans í vetur.

Ferðast þvert yfir landið og erlendis til að sinna leiklistarástríðunni

Leikstjórinn Agnes Wild tekur við keflinu. „Ég ólst upp í Mosfellsbæ hjá mömmu minni og hún var virk í Leikfélagi Mosfellsbæjar þegar ég var barn. Ég man eftir að hafa oft sofið á gólfinu neðan við sviðið sem lítil skotta og fylgst þess á milli með öllu sem gerðist á sviðinu,” segir Agnes sem hefur vakið athygli fyrir vinnu sína undanfarin ár en hún hefur komið víða við. Agnes er einn stofnenda leikhópsins Miðnættis en hópurinn hlaut tilnefningu til Grímuverðlaunanna 2017 fyrir sýninguna Á eigin fótum sem barnasýning ársins. Nú síðast setti Miðnætti upp sýninguna Djákninn á Myrká, Sagan sem aldrei var sögð og sló eftirminnilega í gegn á síðasta leikári LA og verður sýnd aftur í febrúar. Meðal annarra leikstjórnaverkefna má nefna Fokkað í Fullveldinu á vegum fullveldishátíðar og Þjóðleikhússins árið 2018 og Krúnk krúnk og dirrindí fyrir Menningarfélag Akureyrar sama ár. Árið 2015 var Agnes aðstoðarleikstjóri í sýningunni Í Hjarta Hróa Hattar í Þjóðleikhúsinu.

Agnes lærði leiklist í London en hefur aðallega fengist við leikstjórn frá útskrift. „Ég hef aldrei alveg slitið tengslin við London, en ég stofnaði fyrir nokkrum árum leikhópinn Lost Watch theatre sem starfar í London og ég fer reglulega út og vinn með þeim,” segir Agnes sem býr í miðbæ Reykjavíkur en vílar það ekki fyrir sér að ferðast þvert yfir landið eða erlendis til að sinna ástríðu sinni. „Ég var ekki lengi að svara kallinu játandi þegar Umskiptingar báðu mig um að leikstýra Galdragáttinni, þessi sýning er svo ævintýralega mikil gleðisprengja og ég vona bara að sem flestir Akureyringar og nærsveitamenn taki börnin með sér í leikhúsið og styrki sjálfstæðan og atvinnuleikhóp á landsbyggðinni.“

- Auglýsing -

Ævintýralegt og spennandi viðfangsefni

Auður, leikmyndar- og búningahönnuður, er á fullu að skrúfa saman stuðlaberg fyrir leikmyndina sem er innblásin af íslenskri náttúru. Auður er í grunninn vöruhönnuður frá LHÍ en árið 2018 kom hún heim úr meistaranámi í leikmyndar- og búningahönnun frá Prag. Hún er alin upp í uppsveitum Árnessýslu og er þess vegna fjarri sínum heimahögum á Akureyri.

„Marta Nordal leikhússtjóri LA réði mig til að sjá um leikmynd og búninga í Kabarett í byrjun síðasta leikárs og síðan hef ég eiginlega verið á Akureyri með að minnsta kosti annan fótinn og oft báða,“ segir Auður sem var tilnefnd til Grímunnar 2019 fyrir bæði búninga og leikmynd í Kabarett. „Birna hafði samband við mig og bað mig að hanna leikmynd og búninga fyrir Galdragáttina og um leið og ég frétti hverjir stæðu að sýningunni var ekki aftur snúið, enda draumateymi. Það spillti svo ekki fyrir hvað viðfangsefnið er ævintýralegt og spennandi, þarna er svo mikið af flottum þjóðsagnaverum eins og Nykur, Skoffín og Skuggabaldur sem hafa sjaldan eða aldrei sést áður á sviði,“ segir Auður sem hefur fengið lausan tauminn við hönnunina og hefur hver furðuveran á fætur annari nú litið dagsins ljós í Samkomuhúsinu.

- Auglýsing -

Mikilvægt að allir gangi í öll verk

Birna Pétursdóttir, framleiðandi sýningarinnar, segir að hjá svona litlum leikhópi sé mikilvægt að allir gangi í öll verk. „Hér hafa kvöld og helgar farið í að smíða, líma, skrúfa og mála. Og það er enginn „bara“ að leika eða „bara“ að framleiða í þessari sýningu. Hér hjálpast allir að, sem er hvorutveggja í senn æðislega gaman og ofsalega krefjandi,“ segir Birna aðspurð um hlutverk sitt sem framleiðandi.

Hún bætir við að þetta sé í fyrsta skipti sem hún sinnir stöðu framleiðanda í leikhúsi en Birna er lærður leikari og var á samning hjá LA síðasta leikár og lék þar í Kabarett, Gallsteinum afa Gissa og Djáknanum. Hún hefur, samhliða leiklistinni, unnið töluvert í dagskrárgerð fyrir sjónvarp, meðal annars sem einn umsjónarmanna Landans á RÚV en jafnframt er hún annar tveggja eigenda framleiðslufyrirtækisins Flugu Hugmyndahúss.

„Ég er einn af höfundum verksins, ásamt restinni af leikhópnum Umskiptingum og sá auðvitað fyrir mér að leika í þessu, en svo varð ég svo heppin að verða ólétt og þá bara fékk ég nýtt hlutverk í hópnum, bak við tjöldin,“ segir Birna sem verður gengin 37 vikur á frumsýningardag 5. október.

„Frumsýningin mun hafa alveg extra mikla þýðingu fyrir mig í þetta skipti, það er svo ótrúlega mikil vinna að baki hjá öllum leikhópnum og svo viðurkenni ég að það verður líka dásamlegt að geta loksins sest niður og hafið bið eftir barni og kannski undirbúa komu þess eitthvað pínulítið,“ segir Birna hlæjandi.

Leikið með ólíkar tónlistarstefnur

Sesselía Ólafsdóttir er helmingur norðlenska tónlistardúósins Vandræðaskálda sem semja alla tónlistina fyrir Galdragáttina, en útsetningin er í höndum Kristjáns Edelstein. Vandræðaskáld hafa á undanförnum árum haldið tónleika vítt og breitt um landið og komið víða við sem veislustjórar og skemmtikraftar. Þau Sesselía og Vilhjálmur B. Bragason sem skipar hinn helming dúósins hafa vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum fyrir hárbeitta „sketcha“ og lagatexta en þetta er í fyrsta skipti sem lög eftir þau birtast í barnasöngleik. „Það var ótrúlega skemmtilegt að semja tónlistina fyrir þetta verk en líka flókið á köflum. Þarna eru allskonar verur að segja allskonar misfurðulegar sögur og oft þarf maður líka að passa að einhver ákveðin framvinda í sögunni sé skýr í gegnum texta lagsins,“ segir Sesselía sem lærði leiklist í London og fer líka með hlutverk í sýningunni.

Aðspurð um hvernig tónlist sé í verkinu segir Sesselía: „Við erum að leika okkur með ólíkar tónlistarstefnur í Galdragáttinni og hver vera hefur sinn einstaka stíl. Það er ekki laust við Elton John fíling á köflum, eitt lagið hefur yfir sér sjóræningjabrag og Iggy Pop og Tom Waits veittu okkur líka innblástur.“

Sýningin Galdragáttin og þjóðsagan sem gleymdist fjallar um það þegar fyrir algjöra slysni opnast gátt inn í heim íslenskra þjóðsagna í skólastofu Hringvallaskóla. Saklausum sjöundabekking, Jóni Árnasyni, er í kjölfarið rænt af Húmskollunni skelfilegu svo bekkjarsystkini hans Sóley og Bjartur leggja upp í háskaför honum til bjargar. Við tekur æsispennandi atburðarás þar sem hinar ýmsu kynjaverur íslenskra þjóðsagna koma fyrir, Nykur, Skoffín og Skuggabaldur ásamt fleirum. Verkið er frumsýnt 5.október og miðasala er hafin á mak.is.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -