Fimmtudagur 28. mars, 2024
1.8 C
Reykjavik

Hin guðdómlega Gdansk

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gdansk byggir á gömlum merg en er samt nýtískuleg borg og með öll nútímaþægindi.

Það eru ef til vill öfugmæli að segja ,,þessi litla borg“ Gdansk við Eystrasaltið, þegar íbúafjöldi hennar er meiri en íbúar Íslands til samans, en alls eru íbúar Gdansk 480.000 og það er margt sem kemur á óvart í heimsókn til borgarinnar. Hún er með stærstu borgum Póllands.

Maturinn í Gdansk er á alþjóðlegum mælikvarða, njótið alls hins besta í lúxusmatargerð.

Gdansk, sem er kölluð Danzig á þýsku, er hafnarborg við Eystrasaltið, við mynni árinnar Motlawa, og ein af elstu borgum Póllands, en upphaf hennar má rekja til 7.-10. aldar e. Kr., það er ekki nákvæmt. Saga hennar er þyrnum stráð og hefur hún lotið mörgum herrum og má þar nefna Prússa, Svía og Dani að ógleymdu Þjóðverjum en endrum og eins voru yfirráðin yfir eigin landi í höndum borgarbúa.

Eftir fyrri heimsstyrjöldina varð til fríríkið Danzig, ríki sem var undir verndarvæng Þjóðabandalagsins. Íbúar Gdansk urðu þeir fyrstu til að verða fyrir árásum Þjóðverja í heimsstyrjöldinni síðari þegar Þjóðverjar réðust á Wsterplatte-skagann í Gdansk. Til að gera langa sögu stutta þá rústuðu stríðsherrar í heimsstyrjöldinni síðari, bæði Þjóðverjar og Rússar, Gdansk og fleiri stöðum í Póllandi.

… flestir matsölustaðir bjóða upp á frábæran alþjóðlegan matseðil, þar sem metnaðurinn er ekki bara lagður í gott hráefni, heldur framúrskarandi framreiðslu og smekkvísi.

En Pólverjar voru ákveðnir í að byggja landið sitt stríðshrjáða upp að nýju og það tók allt að 30 ár að stærstum hluta og þeir eru enn að. Þess má sjá merki í fallegum arkitektúr í flæmskum og hollenskum stíl og í stíl sem er jafnvel undir ítölskum og frönskum áhrifum. Húsin í miðbænum eru ekki ólík þeim sem sjá má í Amsterdam en einnig í nýtískulegri mynd utan miðbæjarins. Enn í dag er borgin fyrst og fremst hafnar- og iðnaðarborg, þar sem verslun er einnig áberandi. Öllum þýskum götunöfnum hefur þó verið breytt í pólsk en þrátt fyrir að í gegnum tíðina hafi ýmis þjóðarbrot búið í Póllandi er þessi um 40 milljóna þjóð í dag að stærstum hluta Pólverjar en réttindi minnihlutahópa eru tryggð í stjórnarskrá landsins.

Sólarstrendur og ógleymanlegur matur

En Gdansk á sér margar hliðar, hliðar sem fáir Íslendingar gera sér grein fyrir. Hún byggir á gömlum merg en er samt nýtískuleg og með öll nútímaþægindi. Það er ekki annað að sjá en að íbúar Gdansk séu ágætlega á veg komnir og vel til fara, borgin er hrein og fín og fólkið er afar almennilegt þótt það tali takmarkaða ensku en allt af vilja gert til að hjálpa og aðstoða. Og Gdansk-búar eru sannarlega listamenn, til dæmis þegar um er að ræða skartgripi úr amber-steininum, gul-og grænlituðum steinum sem berast á strendur Gdansk og hafa verið notaðir til lækninga í aldir. Þessir steinar eiga að vera orkujafnandi fyrir líkamann.

- Auglýsing -
Það er yndislegt að sóla sig á sumrin í Gdansk.

Borgin býr einnig yfir sjaldgæfum eiginleika, þar er nefnilega að finna þessa fínu sandströnd, þar sem hægt er að rekast á amber-steina. Hún er eins og besta sólarströnd enda vinsæl hjá bæði íbúum og ferðamönnum yfir sumartímann. Sumrin eru heit, allt að 25-35° C en svali berst frá hafinu.

Veturnir eru kaldari en þó mildir og í októbermánuði er jafnvel hægt að borða úti en mjög margir veitingastaðir bjóða upp á það og eru þá með arineld sem hægt er að hlýja sér við. Það er helst í janúar og febrúar að hitastigið fari niður fyrir frostmark en þá er líka tilvalið að stunda ýmsar vetraríþróttir.

Þá erum við komin að enn einni snilldinni hjá Gdnask-búum en það er að elda mat. Bæði er hægt að smakka pólskan mat og það er mjög skemmtilegt þótt hann sé ekki allra og flestir matsölustaðir bjóða upp á frábæran alþjóðlegan matseðil, þar sem metnaðurinn er ekki bara lagður í gott hráefni, heldur framúrskarandi framreiðslu og smekkvísi – svo maturinn bragðast enn betur fyrir vikið og ekki skemmir fyrir að sælkeramáltíðin kostar Íslendinginn næstum ekki neitt. Sem dæmi má nefna að forréttur á fínum veitingastað og nautasteik eða önd í aðalrétt með glasi af rauðvíni hússins og sódavatni er frá 4.000-5.000 kr.

- Auglýsing -

Göngutúr með fram ánni, þar sem margir af bestu veitingastöðunum setja svo vitanlega punkturinn yfir i-ið, hvort sem um er að ræða rómantíska ferð, árshátíðarferð eða bara ferðalag með vinum eða vinkonum.

Að njóta lífsins í spa

Ertu þreytt/ur? Þarftu að endurnýja lífsorkuna eða bara jafna orkuflæðið? Þá er spa-ið í Gdansk eitthvað fyrir þig! Klassískt nudd, fótanudd, handsnyrting, sána, allt fæst þetta á fjölmörgum hótelum í Gdansk og líka annars staðar fyrir allt að helmingi lægra verð en hér heima (spa á hótelunum er yfirleitt aðeins dýrara en annars staðar staðar í borginni en það er þægilegt að geta brugðið sér í einhverja af þeim fjölmörgum spa-meðferðum sem í boði eru á hótelinu sem eru oft á fjögurra stjarna hótelum en gisting á slíkum hótelum eru einnig á góðu verði í borginni).

Gdansk er borgin til þess að hvíla sig í, slaka á og gera vel við sig í mat og drykk. Það er líka vel þess virði að heimsækja spa-bæinn Sopot sem er ekki langt frá Gdansk. Gdansk-búar, eru yfirvegaðir og rólegir og það er ekki mikill asi á þeim. Áreitið í borginni er lítið en afar gaman er að ganga um í gamla bænum með fallegu húsunum og óreglulegu hellulögnunum. Þar eru

Gdansk-búar eiga sitt ,,London Eye“ þótt það sé aðeins minna í sniðum en í London þá er hægt að fá góða sýn yfir borgina.

margir með sölutjöld og selja flestir amber-steina í margs konar skartgripum. Sölumenn eru ekki ágengir og alltaf kurteisir, svo það er hægt að skoða án þess að fá samviskubit yfir að kaupa ekki. Þar eru líka fallegar gler- og leirlistarverslanir.

Þá er kaffið sem fæst á kaffihúsunum allt um kring mjög sterkt og gott en þar er líka hægt að fá ýmsa drykki og jafnvel kokteila sem kosta frá 300-600 kr. Fyrir þá sem eru að leita að aðeins meira fjöri þá er hægt að þefa uppi gott næturlíf í Gdansk.

Alls konar söfn og skemmtilegheit

Það er svo margt sem hægt er að gera í Gdansk – en allt í rólegheitum. Á sumrin er vinsælt að fara á ströndina og allan ársins hring er hægt að hjóla og hlaupa í fallegu umhverfi borgarinnar. Í haust- eða vetrarferð er hægt að kíkja á listaverkin í The National Museum en þar má m.a. líta pólska og hollenska málara. Það sama á við um Gdansk History Museum, skemmtilegt safn um sögu Gdansk og Old Town Hall. Á kvöldin er hægt að skella sér á tónleika í Shakespeare-leikhúsinu, því ekki er hægt að saka þá Gdansk-búa um að vera snauðir af menningu. Leikhúsið er stolt borgarinnar og ekki síður talið skemmtun fyrir gesti þess. Þá eru ónefndar afskaplega fallegar kirkjur í borginni, fyrir þá sem hafa gaman af að skoða þær og nota tækifærið til að kveikja á kerti fyrir látna ástvini.

Gdansk er borgin til þess að hvíla sig í, slaka á og gera vel við sig í mat og drykk. Það er líka vel þess virði að heimsækja spa-bæinn Sopot sem er ekki langt frá Gdansk.

Ef þú ert á fjölskylduferðalagi eru það vitaskuld strendurnar sem heilla á sumrin en svo margt annað líka. Börnum þykir ferð á Sjóminjasafnið eftirminnileg (National Maritime Museum) sem er einmitt í skipi og hjálpar börnum að skilja leyndardóma sæfarana, sjávarvinda og fleira. Þá er hægt að fara í siglingu með ,,sjóræningjabáti um ána, að ógleymdu ,,auganu“ þeirra Gdansk-búa, sem er líkt og London Eye en aðeins minna. Í því er gott útsýni yfir borgina alla og það sem er að gerast þar.

Börnum finnst ef til vill ekkert sérstaklega gaman að fara í verslunarmiðstöðvar – og þó – þar eru margar spennandi barna- og unglingabúðir og kringlurnar í Gdansk eru stærri en okkar með öllum helstu alþjóðlegu verslunum. Sem dæmi um þá helstu er Baltycka Shopping Center.

Höfundur / Unnur H. Jóhannsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -