Fimmtudagur 28. mars, 2024
3.8 C
Reykjavik

Hvað eigum við að gera við allt dótið?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari

„Hlutir veita ekki lífshamingju,“ segir Pálmar Ragnarsson í forsíðuviðtali Mannlífs en hann hefur að undanförnu getið sér gott orð sem fyrirlesari um samskipti fólks og notið vinsælda sem körfuboltaþjálfari fyrir yngstu kynslóðina. Þetta er hvorki í fyrsta né annað skipti sem við heyrum þessi orð, sem jafnan fylla okkur góðum ásetningi um að draga úr lífsgæðakapphlaupinu og hlúa í staðinn betur að okkar innra sjálfi.

Svo koma jólin og áður en við vitum af erum við komin í kapphlaup á milli verslana í leit að einhverju sem við höfum ekki hugmynd um hvort fólkið í kringum okkur langar að eignast eða ekki.

Sjálf fáum við svo alls konar gjafir sem við tökum upp með tilhlökkun á aðfangadag og hrúgum upp á stofugólfinu innan um pappírsruslið sem dreifst hefur um allt. Þá er eins og renni upp fyrir okkur ljós – hvað eigum við gera við allt þetta dót? Ekki það að við séum ekki þakklát og hlutirnir ekki fallegir, það er bara svo mikið til. Peningaeyðsluþynnkan hellist yfir, við biðjum guð um hjálp og lofum að fara aðeins hægar í sakirnar um næstu jól.

Nokkrar fjölskyldur sem komið hafa fram að undanförnu hafa farið inn í aðventuna með nýjum hætti. En það er svokallað öfugt jóladagatal. Í stað þess að bæta nýjum hlutum inn á heimilið fyrir jólin eru hlutir teknir út af heimilinu. Einn hlutur þann 1. desember, tveir hlutir þann 2. desember og svo framvegis.

Þetta gerði til dæmis sjö manna fjölskylda á Djúpavogi og þegar jólin koma verða farnir 2.100 gagnslausir hlutir af heimilinu sem margir fá framhaldslíf hjá öðrum sem á þurfa að halda. „Flæðið inn á heimilið verður að minnka,“ sagði móðirin á heimilinu, Ágústa Arnardóttir, í viðtali á RÚV og það sem hún vonar að skili sér til barnanna er að með hverjum hlut sem þau eignast fylgi skuldbinding. Hluti átaksins snúist um að draga úr sóun en líka að bæta fjölskyldulífið.

Lítum á nokkrar tölur. Á heimasíðu Úrvinnslusjóðs kemur fram að hver íbúi á höfuðborgarsvæðinu fleygir að meðaltali um 223 kílóum af úrgangi í tunnuna á ári, það er rúmlega eitt tonn á fimm manna fjölskyldu. Hver Íslendingur kaupir rúmlega 17 kg af vefnaðarvöru árlega, sem er um þrisvar sinnum meira en meðaljarðarbúi. Um 60% af vefnaðarvöru endar í ruslinu.

- Auglýsing -

Fyrrnefndur Pálmar segir það einnig í forsíðuviðtalinu að heimsókn hans til Mexíkó á síðasta ári hafi breytt viðhorfum hans til hluta. Þar hitti hann lífsglatt og skemmtilegt fólk sem var lítið upptekið af því sem það átti ekki. „Við Íslendingar eigum almennt miklu fleiri og flottari hluti en fólkið í Mexíkó en ég gat ekki betur séð en að þar væri jafnvel meiri gleði og hlátur.“

Við erum aðeins einu símtali frá ákvörðun meðal vina og ættingja um að hætta gjafakaupum á milli. Við getum valið fjallgöngu eða kaffihúsaferð fram yfir verslunarferðir og afþakkað alla auglýsingabæklingana til að láta ekki glepjast af hlutum sem við höfðum ekki hugmynd um að okkur vantaði. Því þegar allt kemur til alls þá er það samveran við ástvini sem skiptir mestu máli og veitir okkur lífshamingjuna. Hlúum að okkur og þeim sem við elskum. Gleðileg jól.

 

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -