Þriðjudagur 16. apríl, 2024
0.1 C
Reykjavik

Í hjartastopp á fyrsta ári í menntó

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þorvaldur Sigurbjörn Helgason rithöfundur sendi nýlega frá sér ljóðabókina Gangverk sem er eins konar ljóðasaga sem fjallar um tíu ár í lífi hans, frá 2007-2017. Þorvaldur var aðeins 15 ára gamall þegar hann fór í hjartastopp og var endurlífgaður.

Þorvaldur Sigurbjörn Helgason sendi nýlega frá sér ljóðabókina Gangverk sem hann byggir á eigin reynslu.

„Ljóðin eiga það öll sameiginlegt að fjalla um hjartað á einn eða annan hátt, bæði líffærið hjartað sem heldur í okkur lífi og hugmyndafræðilega hjartað sem við tengjum við rómantík og tilfinningar,“ segir Þorvaldur en bókin kom út hjá Máli og menningu 14. febrúar síðastliðinn. „Bókin segir söguna af því þegar ég lenti í hjartastoppi 15 ára gamall, þegar ég var á fyrsta ári mínu í menntaskóla og af upplifunum mínum í kjölfarið. Þó er ekki um hreina og beina ævisögu að ræða heldur er gripið inn í söguna á ýmsum stöðum, með ólíkum aðferðum og sjónarhornum. Ég reyndi að skrifa bæði út frá mínu eigin sjónarhorni og sjónarhorni læknavísindanna en ég var svo heppinn á fá aðgang að ýmsum læknabréfum og skjölum frá hjartalækninum mínum sem ég nýtti mér við skrifin. Innblásturinn að bókinni kemur að mestu leyti út frá minni eigin reynslu og áhuga mínum á hjartanu, þessu magnaða líffæri.“

Endurlífgun í hálftíma

Í september árið 2007 var Þorvaldur busi í Kvennaskólanum í Reykjavík og var að bíða eftir tíma þegar hann fékk skyndilega mjög hraðan hjartslátt. „Ég hafði lent í þessu áður en það hafði alltaf liðið hjá svo ég hafði ekki miklar áhyggjur, settist niður og reyndi að slaka á. Það næsta sem gerðist var að það leið yfir mig og ég datt á öxl einnar bekkjarsystur minnar sem hélt að ég væri bara eitthvað að grínast. Þarna var ég þó kominn í hjartastopp og sem betur fer var fólk í kringum mig sem brást snöggt við og hringdi á sjúkrabíl sem kom innan örfárra mínútna. Við tók um það bil hálftíma löng endurlífgun þar sem ég var stuðaður alls tólf sinnum með hjartastuðtæki til að koma hjartanu í mér aftur í gang. Síðan var ég fluttur á spítala þar sem ég var kældur og mér haldið sofandi í öndunarvél í nokkra daga,“ segir Þorvaldur.

„Auk þess áttaði ég mig alls ekki á því hvað hafði gerst, ég skildi ekkert hvað ég væri að gera á spítala og vildi bara drífa mig heim svo ég kæmist á busaballið sem var eftir nokkra daga.“

Hann var ringlaður þegar hann vaknaði og man lítið eftir fyrstu augnablikunum. „Samkvæmt mömmu minni var ég í þónokkurn tíma að ná áttum og var með ofskynjanir fyrst um sinn þar sem ég sá meðal annars pöddur á veggjunum. Auk þess áttaði ég mig alls ekki á því hvað hafði gerst, ég skildi ekkert hvað ég væri að gera á spítala og vildi bara drífa mig heim svo ég kæmist á busaballið sem var eftir nokkra daga.“

Þar sem engin bein orsök fannst fyrir hjartastoppinu var ígræddur bjargráður í Þorvald. „Ég hef verið með bjargráð síðan þá og allt hefur gengið vel fyrir utan smávegis tæknilega örðugleika með bjargráðinn sem olli því að ég þurfti að fara í tvær aðgerðir í viðbót fyrstu mánuðina sem ég var með hann.“

Dauðinn falinn í samfélaginu

- Auglýsing -

Hann segist fyrst hafa farið að vinna í sjálfum sér vegna atviksins sjö árum síðar. „Ég var þá í námi á sviðshöfundabraut Listaháskólans þar sem nemendur voru gjarnan hvattir til þess að nota sjálfa sig sem efnivið í verkin sín. Ég endaði á því að gera nokkur verk sem fjölluðu bæði um hjartað og dauðann, meðal annars rannsóknarverkefni sem hét Gangverk lífsins þar sem ég fékk að fylgja hjartalækninum mínum, Hirti Oddssyni, í störfum hans á Landspítalanum og fylgdist til dæmis með nokkrum hjartaaðgerðum. Þetta verkefni endaði í sviðslistaverki sem ég vann ásamt vinum mínum, Guðmundi Felixsyni og Evu Halldóru Guðmundsdóttur, og mætti eflaust líta á það sem eins konar forvera að ljóðabókinni Gangverk, þó svo að þetta hafi verið mjög ólík verk,“ segir Þorvaldur.

Hann segir það ákveðna klisju að það að komast svona nærri dauðanum kenni manni að meta lífið betur en fái mann auðvitað til að setja báða hluti í nýtt samhengi. „Ég hef hugsað mjög mikið um þetta, lokaverkefnið mitt frá Listaháskólanum fjallaði til dæmis um dauðann, og ef það er eitthvað sem ég lærði af þeirri vinnu þá er það að öllum er hollt að velta fyrir sér sínum eigin dauðleika. Dauðinn er mjög falinn í okkar samfélagi og jafnvel álitinn tabú en það er nauðsynlegt að hugsa um hann því þetta er ferli sem við munum öll ganga í gegnum einhvern tímann á lífsleiðinni, bæði á hliðarlínunni þegar ástvinir okkar deyja, og að lokum sem þátttakendur þegar við sjálf munum deyja. Það mikilvægasta við að hugsa um dauðann er hins vega að það fær mann óhjákvæmilega til þess að taka afstöðu til lífsins.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -