„Ekkert mál að redda sér því sem maður vill“

Þrátt fyrir að vera aðeins 21 árs gamall á Sigurður Rósant Júlíusson langa neyslusögu að baki og misnotaði meðal annars lyfseðilsskyld lyf um árabil. Hann hefur nú verið edrú í tæp tvö ár en glímir enn við afleiðingar neyslunnar bæði andlega og líkamlega. Siggi er einn af færustu hjólabrettaköppum landsins og finnur meðal annars hugarró þegar hann „skeitar“.

„Ég var 12 ára þegar ég varð fullur í fyrsta sinn og prófaði kannabis tvisvar sinnum,“ segir Siggi en neyslan byrjaði fyrir alvöru þegar hann var í kringum 14 ára aldurinn. Hann ólst fyrstu árin upp hjá móður sinni og stjúpföður og á eina eldri systur og fjóra yngri bræður.

Sigurður Rósant Júlíusson var aðeins 12 ára þegar hann varð fullur í fyrsta sinn.

„Heimilislífið var erfitt, mér fannst öllum vera sama hvað ég gerði og enginn veita mér eftirtekt. Í leit að viðurkenningu og athygli gerði ég alls konar skammarstrik. Ég lærði lítið í skólanum og aldrei heima. Ef einhvers staðar voru reglur reyndi ég að brjóta þær. Mér gekk þó vel í stærðfræði en ekki hinu. Eftir að ég eignaðist hjólabretti langaði mig að einbeita mér að því. Það urðu særindi þegar ég hætti í fótbolta og mér var bannað að vera á brettinu, þau voru meðal annars söguð í sundur.“

Vegna ástandsins heima fyrir flutti Siggi til ömmu sinnar en þá var hann þegar byrjaður í neyslu og hún jókst með hverju árinu sem leið. „Kannabis var alltaf aðalefnið en svo bættust sveppir við annað slagið, ólögleg efni og misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja. Ég var rosalega erfiður við ömmu en hún var, og er, best í heimi. Í dag er hún langbesti vinur minn. Málið var að ég vildi enga hjálp á þessum tíma.“

AUGLÝSING


Keypti lyf af eldra fólki
Siggi segir að ekkert sérstakt hafi orðið til þess að hann byrjaði að misnota lyfseðilsskyld lyf, hann notaði bara það sem að honum var rétt og gat komið honum í breytt ástand. „Einhver lét mig fá töflu og ég tók hana inn, ég man ekkert hvaða lyf þetta var. Þegar ég var yngri var ég hins vegar á rítalíni þar sem ég var greindur með ofvirkni og athyglisbrest. Ég misnotaði rítalínið í um það bil hálft ár en eftir að það komst upp var ég tekin af lyfjunum. Ég leitaði stöðugt í eitthvað til að líða betur. Lyfin sem ég hef misnotað í gegnum tíðina eru til dæmis stesolid, mogadon og contalgin sem ég notaði hvað mest og svo tafil, valíum, oxycontin, fentanyl og rítalín eða bara allt sem ég komst í með rauðum þríhyrningi.

„Lyfin sem ég notaði voru fyrst og fremst komin frá fólki sem fékk lyfin uppáskrifuð af læknum hér á landi. Ég lagði oft mikið á mig til að komast í kynni við fólk sem átti lyf, fór meðal annars til eldra fólks sem var að selja lyfin sín.“

Það er ekkert mál að redda sér því sem maður vill. Í dag eru til dæmis síður á Facebook þar sem dílerar auglýsa efnin og kontaktupplýsingar. Svo þegar maður er orðinn svona djúpt sokkinn eins og ég var þá þekkir maður þennan heim og fólk sem þekkir fólk. Allt efni sem ég notaði varð ég mér úti um á svörtum markaði. Ég fékk ekkert uppáskrifað sjálfur, ekki eftir að ég hætti á rítalíninu. Lyfin sem ég notaði voru fyrst og fremst komin frá fólki sem fékk lyfin uppáskrifuð af læknum hér á landi. Ég lagði oft mikið á mig til að komast í kynni við fólk sem átti lyf, fór meðal annars til eldra fólks sem var að selja lyfin sín.“

„Lyfin sem ég notaði voru fyrst og fremst komin frá fólki sem fékk lyfin uppáskrifuð af læknum hér á landi.“

Fjármagnaði neysluna með innbrotum og sölu
Siggi hefur oft verið hætt kominn vegna ofneyslu og hefur átt marga botna eins og sagt er. „Ég var samt aldrei tilbúinn til að hætta, sama hve slæmt ástandið var. Allt snerist um næsta skammt og ég fjármagnaði neysluna með innbrotum og sölu. Ég var sendur í ótal meðferðir þegar ég var enn undir lögaldri og náði mismunandi edrútíma, mest einum mánuði í einu. En á þessum tíma var viljinn til að vera edrú enginn, ég vildi ekki fara í þessar meðferðir,“ segir Siggi. Eftir að hann varð sjálfráða versnaði neyslan til muna og þegar hann var nítján ára gamall tók hann of stóran skammt. Þá bjó hann í miðbænum með nokkrum neyslufélögum. „Þarna varð dýpsti botninn minn og sá sem fékk mig til að opna augun fyrir ástandinu. Ég óverdósaði eftir langa vöku og mikla inntöku á allskonar efnum, meðal annars ofskynjunarlyfjum. Ég var að reyna að sofna þegar eitthvað klikkaði í maganum og hjartað byrjaði að slá þungt og hratt. Ég fékk dofa í báðar hendur og í allan brjóstkassann og gat varla andað. Ég sagði félögum mínum að ég væri að óverdósa en þeim virtist alveg sama, sögðu mér að hætta þessu bulli og héldu áfram sinni neyslu. Þarna fann ég að þetta voru í raun ekki vinir mínir, heldur neyslufélagar. Á þessu augnabliki rofaði aðeins til í hausnum á mér og ég fékk í fyrsta skipti löngum til að hætta. Ég lagðist í gólfið og grátbað guð um að taka mig ekki. Ég fann fyrir einhverjum æðri mætti sem hjálpaði mér að anda og slaka á í gegnum þetta. Ég komst inn á sjúkrahús nokkrum tímum seinna og var bjargað. Ég var heppinn að halda lífi en ég var mjög veikur í langan tíma, hélt að ég myndi ekki ná mér og þetta væri búið.

„Þessi botn sem ég náði þarna gerði mér kleift að hætta í neyslunni og ég fékk loksins að sjá hvað er mér mikilvægt og hvað lífið getur verið gott. Mig langaði ekki lengur að sóa því í rugl og hef uppskorið fallegt líf í dag.“

Þessi botn sem ég náði þarna gerði mér kleift að hætta í neyslunni og ég fékk loksins að sjá hvað er mér mikilvægt og hvað lífið getur verið gott. Mig langaði ekki lengur að sóa því í rugl og hef uppskorið fallegt líf í dag. Fyrst um sinn var ég, þrátt fyrir allt sem hafði gerst, alltaf með hugann við að fá mér aftur – ég féll alla vega tvisvar. Í fyrsta skipti fór ég í meðferð af því að ég vildi það sjálfur. Fyrst í Krýsuvík en þar var ég erfiður í samskiptum og var rekinn. Í kjölfarið féll ég og endaði á spítala tveimur vikum seinna. Þá fór ég á Vog og Staðarfell og var farinn að þrá að vera edrú. Ég var edrú í sex mánuði en féll á hjólabrettamóti í Danmörku eftir að kappi sem ég leit mikið upp til bauð mér jónu. Síðan þá hef ég verið edrú. Ég strögglaði fyrsta árið en þá breyttist hugarfarið. Ég fór að mæta aftur á fundi og vinna tólf sporin af heiðarleika. Ég er farinn að gera upp fortíðina af fullri alvöru og vinna úr áföllunum sem ég hef orðið fyrir. Á bak við alla þessa neyslu var mjög brotinn strákur sem þurfti að flýja.“

Siggi berst enn við líkamlegar afleiðingar neyslunnar og hann er meðal annars á hjartalyfjum vegna óreglulegs hjartsláttar. „Ég á erfitt með allt sem fær hjartað til að slá hraðar því þá á ég erfitt með andardrátt. Til dæmis getur kvíðakast valdið því að mér finnst ég ekki ná andanum. Einnig er þindin í mér rifin og það veldur mér miklum óþægindum, þar á meðal alvarlegu bakflæði. Ég er á biðlista eftir að komast í vélindisbakflæðisaðgerð. Vegna þessa þarf ég að passa upp á mataræðið, borða eiginlega bara hreinan mat, hvorki kjöt né fisk, ekkert nammi og reyki ekki sígarettur. Mér líður best á veganfæði og kærastan mín eldar einmitt marga góða þannig rétti,“ segir Siggi.

Hann byrjaði með kærustunni fyrir um einu ári síðan en þau höfðu þá þekkst lengi. „Hún á lítinn strák og ég er svo heppinn að fá að taka þátt í lífi hans. Hann er viku hjá okkur og viku hjá pabba sínum og kærustunni hans. Við eigum svo von á barni í september og ég hlakka mjög mikið til,“ segir hann og brosir út að eyrum.

Hann er líka einn af færustu hjólabrettaköppum landsins og stundaði sportið í gegnum alla neysluna. Hann segist stundum ekki skilja hvernig hann fór að því í þessu ástandi.

Róandi lyf í tísku
Siggi er ánægður með lífið og hefur nóg fyrir stafni alla daga. Hann hefur verið að semja tónlist og gefið út nokkur lög. Hann stefnir á að senda frá sér nýja plötu á þessu ári. „Þetta eru sex glæný lög, vinur minn býr til taktana og ég rappa yfir. Ég er núna að vinna að gerð tónlistarmyndbanda við lögin og vona að platan komi út í sumar.“

Hann er líka einn af færustu hjólabrettaköppum landsins og er sponsaður sem slíkur. „Ég byrjaði að skeita þegar ég var tíu ára og í gegnum alla neysluna var ég alltaf að skeita og skil stundum ekki hvernig ég fór að því í þessu ástandi. Ég hef lítið getað verið í fastri vinnu vegna afleiðinga neyslunnar en hef til dæmis aðeins verið að vinna í Hinu húsinu og svo einhverjum íhlaupavinnum. Ég hef svolítið verið að þjálfa á bretti og verið að dæma brettakeppnir hjá krökkum. Núna er Jaðarsport að byggja hjólabrettagarð í Dugguvogi og við höfum aðeins verið að plana með þeim hvernig aðstaðan verður, prófa og svo auðvitað að leika okkur. Á döfinni er svo að fara í forvarnarátak með Magnúsi Stefánssyni, heimsækja skólana og tala við krakka um hvað neysla er ekki kúl. Mér finnst stemningin vera þannig núna að ungir krakkar séu að prófa fíkniefni eins og krakkar fyrir tuttugu árum síðan prófuðu áfengi. Það þarf að snúa þeirri þróun við. Xanex [róandi og kvíðastillandi lyf] virðist til dæmis hreinlega vera í tísku.“

Fíklar deyja oftast úr ofneyslu lyfseðilsskyldra lyfja
Sigga finnst mikilvægt að það komi fram að vandinn liggi ekki í þeim efnum sem fólk neytir heldur líðan þess. „Allir sem ég þekki sem hafa verið mikið í fíkniefnum eru veikir aðilar sem hafa upplifað erfiða æsku. Það sem þarf að gera fyrir ungt fólk í vanda er að finna aðferðir sem skila árangri, leiðir fyrir fólk að vinna í rót vandans. Ekki gefa fólki þríhyrningsmerkt kvíðalyf, það þarf að auka þjónustu á öðrum sviðum til að hjálpa fólki, því ef fíkli er gefið svona róandi lyf finnst honum það svo rosalega gott að hann vill bara meira og meira.

„Margir vinir mínir hafa látið lífið í baráttunni við fíkniefni og nýlega fylgdi ég einum einn til grafar. Fíklar deyja í flestum tilfellum úr ofneyslu þessara lyfseðilsskyldu lyfja, fólk endist í styttri tíma á þeim en í annarri neyslu.“

Margir vinir mínir hafa látið lífið í baráttunni við fíkniefni og nýlega fylgdi ég enn einum til grafar. Fíklar deyja í flestum tilfellum úr ofneyslu þessara lyfseðilsskyldu lyfja, fólk endist í styttri tíma á þeim en í annarri neyslu. Þegar morfínskyld lyf eru tekin byggist upp ákveðið þol smám saman og skammtarnir fara að stækka. Þeir sem hafa dáið úr ofneyslu hafa verið að taka of stóra skammta, stundum án þess að ætla sér það. Stundum er fólk til dæmis búið að vera edrú í einhvern tíma en ætlar svo að fá sér sama skammt og síðast en þá er þolið ekki á sama stað og fólk bara deyr.

En þrátt fyrir að úr mörgu megi bæta í þessum málum eru ýmsar leiðir í boði sem hafa virkað fyrir marga og mæli ég með því að fólk nýti sér alla þá aðstoð sem býðst til að ná bata. Tólfsporasamtök hafa reynst mér best af öllu sem ég hef gert og allir sem vilja öðlast betra líf eru velkomnir þangað.“

Mikil umræða hefur verið að undanförnu um skaðsemi lyfseðilsskyldra lyfja. Dauðsföllum af völdum misnotkunar þeirra hefur fjölgað gríðarlega og grunur um að andlát níu manneskja á þessu ári megi rekja til ofneyslu slíkra lyfja eða fíkniefna. Mannlíf ræddi einnig við í föður stúlku sem lést vegna ofneyslu og Valgerði Rúnarsdóttur, forstjóra SÁÁ, um þann vanda sem samfélagið stendur frammi fyrir.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Myndband / Óskar Sveinsson

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is