Fleiri samkynja pör taka börn í fóstur

Fleiri samkynja pör taka nú börn í fóstur en áður og fleiri gerast fósturforeldrar.

Bryndís S. Guðmundsdóttir, uppeldisfræðingur hjá Barnaverndarstofu, segir að lesbísk pör hafi tekið að sér börn í fóstur um áraraðir og nokkur börn fundið framtíðarheimili á nýjum heimilum. Þeim hafði hins vegar fækkað talsvert þar til sjónvarpsþáttur Sindra Sindrasonar, Fósturbörn, fór í loftið á Stöð 2.

„Eftir að þættirnir voru sýndir sóttu fjögur samkynhneigð pör um að taka að sér fósturbörn, allt karlmenn. Það þýðir að 4-7 börn fundu ný heimili,“ segir Bryndís. Á síðasta ári fóru börn í fóstur á 60 heimilum og eru tæplega 400 börn á Íslandi á fósturheimilum.

Bryndís segir nokkra aðra þætti geta skýrt að fósturforeldrum hafi fækkað þar til þáttur Sindra var sýndur. Hugsanlega geti það skrifast á uppsveiflu í efnahagslífinu en þá hafi fólk meira að gera en í niðursveiflu. Hún bætir við að fólk velti því fyrir sér lengi að gerast fósturforeldrar. Yfirleitt þurfi eitthvað að ýta við því til að stíga skrefið til fulls og sækja um að verða það. „Ég held að sjónvarpsþættirnir hafi vakið áhuga hjá fólki og því sæki fleiri samkynja pör um að taka börn í fóstur,“ segir Bryndís. Lengra viðtal við má finna við hana á vefnum GayIceland.

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is