FUR-liðar höguðu sér vel meðan á tökum stóð

Íslenskur ljósmyndanemi myndaði bresku hljómsveitina FUR við gerð nýjasta myndbands sveitarinnar.

Ingimar Þórhallson myndaði bresku sveitina FUR við gerð nýjasta myndbands hennar við lagið What would I do. „Það var gaman að fá tækifæri til að kynnast þeim við þessar kringumstæður,“ segir hann hress. „Þetta eru afskaplega skemmtilegir strákar, kurteisir og hógværir og það auðveldaði vinnuna.“

Verkefnið fékk Ingimar í gegnum tvíburabræður sína Jakob og Jónas Þórhallssyni sem störfuðu með sveitinni síðastliðið haust þegar þeir gerðu myndband við lag hennar, If you know that I‘m lonely. Það var tilnefnt til fjölda verðlauna og átti þátt í því að koma FUR á kortið. Í ljósi ánægju með samstarfið leituðu meðlimirnir aftur til bræðranna með næsta videó og þeir ákváðu að fá Ingimar, sem er á lokaári í ljósmyndanámi við hinn virta háskóla Camberwell College of Arts í London, til að mynda það sem gerðist á bak við tjöldin. Þannig að skyndilega var ljósmyndaneminn staddur í stúdíói í Norður-London fyrir þremur vikum í miðri hitabylgju að mynda eina af heitustu upprennandi rokksveitum Bretlands.

„Þetta eru afskaplega skemmtilegir strákar, kurteisir og hógværir og það auðveldaði vinnuna.“

Ingimar viðurkennir að þetta hafi verið svolítið súrrealísk upplifun. „Ég passaði bara að láta lítið fyrir mér fara og reyndi að ná öllum þessum óvæntu augnablikum sem komu upp í samskiptum sveitarinnar, leikstjórans og fólksins undir hans stjórn,“ rifjar hann upp og segir að tæknilega séð hafi þetta verið örlítið krefjandi verkefni, því hann hafi notast við Leicu M-myndavél og prime-linsur og því sjálfur þurft að stilla allt ljósop, hraða og fókus, auk þess sem hitinn hafi verið hrikalegur. „En sviðsetningin leit vel út frá mínum bæjardyrum séð og þetta gekk allt saman vel að lokum.“

Náttúran og samspil manns og náttúru eru Ingimari hugleikin.

AUGLÝSING


Þetta er ekki fyrsta verkefnið af þessu tagi sem Ingimar hefur fengist við því hann myndaði líka gerð myndbands við Unbroken með Maríu Ólafsdóttur, framlag Íslands til Eurovision-söngvakeppninnar árið 2015. „Það var meðal annars tekið upp í gömlu sementsverksmiðjunni á Akranesi og fjöldi fólks kom að gerð þess til að tryggja að það yrði klárað í tæka tíð fyrir Eurovision,“ segir hann og bætir við að án nokkurs vafa sé gerð þess myndbands stærsta „á bak við tjöldin“-verkefnið sem hann hafi komið að.

Auðheyrilegt er að Ingimar hefur í nógu að snúast. Fyrir utan að vera í fullu námi er hann með nokkur járn í eldinum, meðal annars gerð spilastokks með náttúrumyndum sem hann er að vinna með breskum hönnuði, og ljósmyndabók sem kemur til með að innihalda myndir úr íslenskri náttúru. Þá hefur hann verið í samstarfi við fyrirtækið Sólarfilmu um gerð vara sem eru skreyttar myndum eftir hann og nýverið myndaði hann háhitasvæði á Íslandi, en útkoman, 72 ljósmyndir, prýða veggi nýlegs hótels.

En hvenær kemur myndbandið með FUR út og hvar verður hægt að skoða myndirnar? „Þær eru í höndum leikstjórans sem ræður því hvernig þær verða notaðar,“ svarar hann. „En myndbandið kemur út í júlí, skilst mér, og ég hlakka mikið til að sjá útkomuna því þetta var skemmtilegt verkefni.“

 

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is