Gagnrýni á rannsókn lögreglu vísað frá: „Mikil vonbrigði”

Nefnd um eftirlit með lögreglu tók mál Halldóru Baldursdóttur fyrir á mánudaginn, 25. júní, en Halldóra sendi nefndinni erindi þar sem hún gagnrýndi rannsókn á máli dóttur sinnar, Helgu Elínar. Mannlíf hefur fjallað ítarlega um mál Halldóru og Helgu Elínar, en Helga Elín kærði lögreglumann fyrir kynferðisbrot þegar hún var barn. Móðir hennar gagnrýndi rannsókn málsins harðlega í viðtali við Mannlíf.

„Ríkislögreglustjóri brást dóttur minni“

Þegar að Helga steig fram og sagði frá meintu broti höfðu tvær aðrar stúlkur kært lögreglumanninn fyrir kynferðisbrot; fyrrnefnd stjúpdóttir hans, Kiana Sif Limehouse, og Lovísa Sól. Halldóra hefur mikið út á rannsókn málsins að setja og í vetur skrifaði hún bréf til nefndar um eftirlit með lögreglu þar sem hún óskaði eftir því að málsmeðferðin yrði skoðuð og gripið til viðeigandi ráðstafana. Gagnrýndi hún meðal annars að málin hefðu ekki verið rannsökuð saman, að lögreglumanninum hefði ekki verið vikið úr starfi á meðan á rannsókn stóð og að ummæli sakborningsins hefði ekki verið borin undir Helgu Elínu.

Erindi um óvandaða lögreglurannsókn vísað frá

Í niðurstöðum nefndarinnar, sem bárust Halldóru og fjölskyldu hennar á mánudag eins og áður segir, er erindi hennar sem snýr beint að óvandaðri lögreglurannsókn vísað frá. Halldóra gerði einnig athugasemdir við að lögreglumaðurinn hafi haft útkallsskyldu í hverfi fjölskyldunnar og að þar með hafi Helga verið sett í óásættanlega stöðu. Nefndin telur þá ábendingu mikilvæga, eins og kemur fram í niðurstöðum hennar, og hefur ákveðið að taka til athugunar verklag og verkferla er varða ákvarðanir innan lögreglunnar um störf og starfsskyldur þeirra starfsmanna lögreglunnar sem sakaðir eru um refsiverð brot. Hins vegar hafa slíkar ábendingar þegar komið fram til dómsmálaráðuneytis, til að mynda árið 2016 þegar samráðshópur sendi tillögur um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins til ráðuneytisins. Þar stendur orðrétt:

AUGLÝSING


„Útbúa þarf samræmdar leiðbeiningar sem lýsa verklagi hjá lögreglu, þar með talið á fyrstu stigum máls og við framhaldsrannsókn. Meðal annars verði tekið mið af leiðbeiningum um rannsókn nauðgunarmála sem fram koma í skýrslu starfshóps ríkissaksóknara um meðferð nauðgunarmála hjá lögreglu og ákæruvaldi (2007). Þannig verði hægt að tryggja betur gæði rannsóknar frá því rannsókn hefst uns henni lýkur. Með gátlistum og verkferlum verði meðal annars leitast við að tryggja að skýrslutökur uppfylli gerðar kröfur. T.d að bera skuli framburð sakbornings undir brotaþola að jafnaði. Þannig skipti ekki höfuðmáli hvaða lögreglumaður taki fyrstu skýrslu eða komi að rannsókn máls í upphafi. Með samræmdum gátlista verði leitast við að girða fyrir mistök við rannsókn og tryggja öflun sönnunargagna. Að auki þarf að samræma verkferla á milli lögregluembætta, meðal annars til að tryggja samræmi í öflun og greiningu beinna og óbeinna sönnunargagna, t.d. tölvu- og símagagna.“

„Réttarkerfið á Íslandi er til háborinnar skammar“

Mikil vonbrigði

Niðurstaða nefndarinnar er fjölskyldunni mikil vonbrigði.

„Það voru okkur, fjölskyldu Helgu Elínar, mikil vonbrigði að lesa ákvörðun nefndarinnar um að vísa frá þeim hluta erindis okkar sem snýr beint að óvandaðri rannsókn lögreglu. Veigamiklum athugasemdum um að rannsóknarheimildir lögreglu hafi ekki verið nýttar, tilteknar kærur hafi ekki verið rannsakaðar saman og að ummæli sakbornings hafi ekki verið borin undir brotaþola er vísað frá á grunni þess að athugasemdirnar lúti að rannsókn máls og það sé ekki hlutverk nefndarinnar að endurskoða rannsókn mála hjá lögreglu. Þeim lið kvörtunar minnar er lýtur að grundvelli niðurfellingar málsins (ósannreynt tímavinnuskjal, framburður minnislausra vitna o.fl.) hjá ríkissaksóknara er vísað frá á grunni þess að nefndin hafi heldur ekki það hlutverk að endurskoða ákvörðun handhafa ákæruvalds um hvort ákæra er gefin út í einstaka málum,“ stendur meðal annars í yfirlýsingu sem fjölskyldan sendi Mannlífi fyrir stundu.

Skora á dómsmálaráðherra

Í yfirlýsingunni skorar fjölskyldan einnig á dómsmálaráðherra, Sigríði Á. Andersen, að beita sér fyrir því að lögum sé fylgt þegar kemur að málum þar sem embættismaður er sakfelldur um brot í starfi eða kærður fyrir alvarleg brot, líkt og kynferðisbrot.

„Við fjölskylda Helgu Elínar, viljum skora á dómsmálaráðherra, Sigríði Á. Andersen, sem er yfirmaður lögreglumála í landinu, að beita sér fyrir því að innan lögreglunnar starfi eingöngu þeir sem uppfylli skilyrði lögreglulaga nr. 90/1996 en í lið 28a. gr. laganna um hæfi segir að: „Engan má skipa, setja eða ráða til starfa hjá lögreglu sem hefur gerst sekur um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti eða sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem starfsmenn lögreglu verða almennt að njóta“.

Við teljum að viðkomandi lögreglumaður sem varð uppvís að því að segja ósatt í dómsmáli gegn honum árið 2005 og hafi eftir það verið kærður í þrígang fyrir kynferðisbrot gegn börnum geti ekki uppfyllt þessi skilyrði lögreglulaganna. Lögreglumaðurinn nýtur einfaldlega ekki traust og virðingar í samfélaginu.“

„Við krefjumst breytinga“

Nefnd um eftirlit með lögreglu fer ekki með ákæruvald, en fjölskylda Helgu skorar á Sigríði Á. Andersen að bæta úr því.

„Ef nefndina skortir lagaheimildir til að geta beitt sér af fullri í hörku málum er varða öryggi almennings gagnvart lögreglu og eftirliti með lögreglu, þá skorum við á dómsmálaráðherra að bæta úr því,“ stendur í yfirlýsingunni. Jafnframt krefst fjölskyldan breytinga er varðar meðferð kynferðisbrotamála innan réttarkerfisins.

„Við viljum að tími afskiptaleysis, áhugaleysis, samtryggingar og þöggunar í meðferð kynferðisbrotamála sé liðinn. Við krefjumst viðurkenningar á þeim mistökum sem gerð voru við rannsókn kynferðisbrotamálanna sem viðkomandi lögreglumaður var kærður fyrir. Við krefjumst breytinga.“

„Þetta virðist vera tækni og þessi tækni heitir þöggun“

Tók fjóran og hálfan mánuð að fá niðurstöðu

Í reglum um Nefnd um eftirlit með lögreglu kemur fram að nefndin skuli hraða meðferð máls eftir því sem kostur er og að jafnaði ljúka meðferð þess innan mánaðar frá móttöku tilkynningar. Samkvæmt skriflegum svörum frá Drífu Kristínu Sigurðardóttur, lögfræðingi hjá nefndinni, til Mannlífs hafa á árinu 2018 að meðaltali liðið 67 dagar frá því að nefndin hefur tekið á móti erindi og þar til hún hefur lagt mat á það og komið því til meðferðar réttum stað.

Halldóra Baldursdóttir, móðir Helgu Elínar, sendi erindi til nefndarinnar þann 14. febrúar síðastliðinn. Málsnúmer barst henni þann 6. apríl. Halldóra fékk niðurstöðu nefndarinnar í gær, mánudaginn 25. júní. Það liðu því fjórir og hálfur mánuður síðan hún sendi erindið. Aðspurð um þann langa tíma sem Halldóra og dóttir hennar hafa þurft að bíða eftir afgreiðslu segir Drífa ekki geta tjáð sig við fjölmiðla um einstaka mál.

Lesa má niðurstöðu nefndarinnar með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan:

NEL 18020004_ákvörðun 31.2018, dags. 25.6.2018

„Tími þagnar og afvegaleiðinga er liðinn. Við krefjumst breytinga“

Yfirlýsingu Halldóru Baldursdóttur og fjölskyldu hennar má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:

Mosfellsbæ 26.06.2018
Yfirlýsing vegna ákvörðunar NEL og áskorun til dómsmálaráðherra

Í gær barst okkur ákvörðun NEL, nefndar um eftirlit með lögreglu vegna kvörtunar okkar frá 14. febrúar 2018. Í erindinu var óskað eftir að nefndin tæki til skoðunar málsmeðferð kynferðisbrotakæru á hendur starfandi lögreglumanni og farið fram á úrbætur.

Það voru okkur, fjölskyldu Helgu Elínar, mikil vonbrigði að lesa ákvörðun nefndarinnar um að vísa frá þeim hluta erindis okkar sem snýr beint að óvandaðri rannsókn lögreglu. Veigamiklum athugasemdum um að rannsóknarheimildir lögreglu hafi ekki verið nýttar, tilteknar kærur hafi ekki verið rannsakaðar saman og að ummæli sakbornings hafi ekki verið borin undir brotaþola er vísað frá á grunni þess að athugasemdirnar lúti að rannsókn máls og það sé ekki hlutverk nefndarinnar að endurskoða rannsókn mála hjá lögreglu. Þeim lið kvörtunar minnar er lýtur að grundvelli niðurfellingar málsins (ósannreynt tímavinnuskjal, framburður minnislausra vitna o.fl.) hjá ríkissaksóknara er vísað frá á grunni þess að nefndin hafi heldur ekki það hlutverk að endurskoða ákvörðun handhafa ákæruvalds um hvort ákæra er gefin út í einstaka málum.

Nefnd um eftirlit með lögreglu tekur heldur ekki afstöðu til athugasemda um að sakborningur hafi farið með á rannsóknarvettvang, þar sem brotið átti sér stað og að vitnaskýrslur hafi verið teknar á vinnustað vinar sakbornings. Þessum athugasemdum vísar nefndin til Lögreglustjórans á Vesturlandi til meðferðar. Vísað er til þess að viðkomandi kvörtun á starfsaðferðum lögreglu heyri undir viðkomandi lögreglustjóra en ekki nefndina. Fram sé komin fullnægjandi kvörtun í skilningi lögreglulaga sem lögreglustjóra ber að taka afstöðu til í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í þessu samhengi er vert að benda á að lögreglumaðurinn sem um ræðir starfar í dag undir yfirstjórn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Í erindinu gerðum við m.a. athugasemdir við það að lögreglumaðurinn sem við kærðum hafi ekki verið leystur undan vinnuskyldu á meðan rannsókn málsins fór fram og hafi haft útkallsskyldu í okkar hverfi og þar með hafi Helga Elín, sem þá var barn að aldri verið sett í þá stöðu að geta ekki með nokkru móti kallað eftir aðstoð lögreglu ef á þyrfti að halda. Nefndin telur þessa ábendingu mikilvæga, og hefur ákveðið að taka til athugunar verklag og verkferla er varða ákvarðanir innan lögreglunnar um störf og starfsskyldur þeirra starfsmanna lögreglunnar sem sakaðir eru um refsiverð afbrot. Jafnframt hefur nefndin ákveðið að samhliða verði kallað eftir nánari upplýsingum og gögnum um ákvarðanir að þessu leyti sem teknar voru við meðferð þessa máls. Það er okkar mat að þessi staða megi aldrei koma upp aftur, að barn verði aldrei sett í þessa óviðunandi stöðu sem Helga Elín var sett í.

Við fjölskylda Helgu Elínar, viljum skora á dómsmálaráðherra, Sigríði Á. Andersen, sem er yfirmaður lögreglumála í landinu, að beita sér fyrir því að innan lögreglunnar starfi eingöngu þeir sem uppfylli skilyrði lögreglulaga nr. 90/1996 en í lið 28a. gr. laganna um hæfi segir að: „Engan má skipa, setja eða ráða til starfa hjá lögreglu sem hefur gerst sekur um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti eða sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem starfsmenn lögreglu verða almennt að njóta„.

Við teljum að viðkomandi lögreglumaður sem varð uppvís að því að segja ósatt í dómsmáli gegn honum árið 2005 og hafi eftir það verið kærður í þrígang fyrir kynferðisbrot gegn börnum geti ekki uppfyllt þessi skilyrði lögreglulaganna. Lögreglumaðurinn nýtur einfaldlega ekki traust og virðingar í samfélaginu.

Einnig krefjumst við afstöðu dómsmálaráðherra sem yfirvalds lögreglumála til þeirra athugasemda sem fram hafa komið um óvandaða rannsókn lögreglu sem nefnd um eftirlit með lögreglu vísar frá en vísar ekki til úrlausnar.
Við væntum þess að dómsmálaráðherra beiti sér fyrir því samhliða nefnd um eftirlit með lögreglu að lögreglustjórar þeirra embætta sem málið varðar sannarlega í þessu tilviki, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórinn á Vesturlandi ræki þá skyldu sína að taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að leysa viðkomandi starfsmann lögreglu frá embætti eða hvort gera þurfi breytingu á vinnuskyldum eða verkefnum viðkomandi starfsmanns lögreglu í samræmi við upp komin kynferðisbrotamál þar sem sakborningur er starfsmaður lögreglu. Við treystum því einnig að hið sama gildi í öðrum málum eftir atvikum þar sem grunur vaknar um refsiverð afbrot þar sem sakborningur er starfsmaður lögreglu.

Ef nefndina skortir lagaheimildir til að geta beitt sér af fullri í hörku málum er varða öryggi almennings gagnvart lögreglu og eftirliti með lögreglu, þá skorum við á dómsmálaráðherra að bæta úr því.

Við viljum að tími afskiptaleysis, áhugaleysis, samtryggingar og þöggunar í meðferð kynferðisbrotamála sé liðinn. Við krefjumst viðurkenningar á þeim mistökum sem gerð voru við rannsókn kynferðisbrotamálanna sem viðkomandi lögreglumaður var kærður fyrir. Við krefjumst breytinga.

Halldóra Baldursdóttir

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is