Fimmtudagur 28. mars, 2024
1.8 C
Reykjavik

Hvaða menn eru þetta?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

LEIÐARI Árið 2009 var gerð breyting á íslenskum hegningarlögum og kaup á vændi gerð ólögleg. Fram að því hafði seljendum verið refsað en þarna varð sú tímamótabreyting á að í stað þess að líta á fólk í vændi sem glæpamenn var hinu ámælisverða snúið upp á þann sem gat hugsað sér að nýta sér neyð þeirra. Þessi leið löggjafans var umdeild og er enn. Þær raddir heyrast enn að vændi sé elsta atvinnugreinin, að fólk eigi að vera frjálst að því að selja líkama sinn, sýnist því svo og mun verra væri fyrir konur að þræla sér út fyrir skítalaun í ömurlegu starfi. Allt ofangreint er hins vegar frámunalega heimskulegt. Í fyrsta lagi eru engar haldbærar sannanir fyrir því að fólk hafi selt aðgang að líkama sínum frá ómunatíð og til eru mörg frumstæð samfélög þar sem vændi er ekki til. Svo er líka undarlegt að telja að vegna þess að eitthvað hafi viðgengist lengi sé það í lagi. Fólki er frjálst að fara með líkama sinn að vild en eftir því sem þekking manna á högum þeirra er stunda vændi eykst því augljósara er að fæstir kjósa þetta. Einhvers konar nauðung er nánast alltaf grundvallarástæða. Sár fátækt býr að baki í mörgum tilfellum, vændi er einnig algeng leið til að fjármagna fíkn og sumir eru gerðir út af samviskulausu fólki sem hirðir stóran hluta ágóðans.

„Fólki er frjálst að fara með líkama sinn að vild en eftir því sem þekking manna á högum þeirra er stunda vændi eykst því augljósara er að fæstir kjósa þetta.“

En hvaða manneskjur eru það sem fara út og geta hugsað sér að kaupa kynlífsþjónustu af niðurbrotnu fólki og horuðum unglingskrökkum með sprautuförin í olnbogabótinni og sársauka í augunum? Ef marka má nýlegar sænskar og bandarískar rannsóknir eru það Jói í næsta húsi sem var svo elskulegar að keyra stelpuna þína á fótboltaæfingu, geðþekki maðurinn í fimmtugsafmæli bestu vinkonu þinnar og hann Nonni sem er alltaf svo hress í vinnunni eða kennari sonar þíns. Einstaklingar sem eiga fjölskyldur, sinna börnunum sínum af kostgæfni, vinna sjálfboðastörf hjá góðgerðafélögum og eru virtir fagmenn. En sjá ekkert athugavert við að draga upp veskið og borga nokkra skitna þúsundkalla fyrir að fá að þröngva sér inn í líkama annarrar manneskju og sumir hverjir telja sig eiga inni að fá að misþyrma þeim í ofanálag.

Líkt og þrælahaldarar fyrri tíma sjá þeir ekkert athugavert við að notfæra sér annað fólk á allan þann máta er hentar þeim. Peningar hafa skipt um hendur og þeim sem lét þá af hendi er þar með veitt frítt spil til að krefjast alls, eira engu og ganga eins langt og honum sýnist. Er eitthvað undarlegt að sjálfsmorð séu algengari meðal kvenna í vændi en nokkurs annars hóps? Er skrýtið að fólk í vændi deyfi sig með vímuefnum? Margar manneskjur ná sér aldrei, hvorki andlega né líkamlega, eftir viðskipti sín við vændiskaupendur. Sama hvað þær reyna þá þeir sitja í tauga- og vöðvaminni líkamans og í sálinni. Þess vegna eru vændiskaup ólögleg á Íslandi, við viljum ekki samfélag þar sem svona ofbeldi líðst.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -