Stór bílaframleiðandi í samstarf við íslenska aðila

Nissan hefur hafið framleiðslu og sölu á bifreiðum með breytingum frá Arctic Trucks í öllum löndum Evrópu. Þetta er fyrsta sinn sem bílaframleiðandi tekur inn í framleiðsluferli sitt breytingar frá íslensku fyrirtæki fyrir jafnstóran markað.

Nissan Navara með breytingum frá íslenska fyrirtækinu Arctic Trucks.

„Hingað til höfum við verið í samstarfi við erlenda bílaframleiðendur um breytingar á bifreiðum í einstaka löndum en þetta í fyrsta sinn sem bílaframleiðandi notar okkar merki og lausnir og selur í heilli heimsálfu. Það að jafn virtur aðili skuli vilja okkar merki á sína vöru til að auka sölugildi hennar og styrkja sína ímynd eru stór tíðindi og sýnir einfaldlega í hvaða stöðu við erum,“ segir Emil Grímsson, stjórnarformaður Arctic Trucks (sjá mynd að ofan), en einn risanna í bílaiðnaðinum, japanski bílaframleiðandinn Nissan, ætlar að hefja sölu á Nissan Navara með breytingum frá íslenska fyrirtækinu í öllum löndum Evrópu.

Að sögn Emils fela umræddar breytingar í sér öflugri, lengri og stífari fjöðrun, nýja brettakanta og nýjar felgur og stærri dekk, sem gera Nissan Navara meðal annars sportlegri útlits og bæta eiginleika bílsins til að keyra í torfæru og erfiða vegi. Þá verður hægt að velja um sérstaka aukahluti eins og læsingar, „snorkel“ og fleira, sem gerir Nissan Navara enn hæfari til að takast á við erfiðar aðstæður. Hann segir að þessi útgáfa bílsins, sem kallast Off-Roader AT32 (Arctic Trucks 32 tommu dekk), verði í boði hjá söluumboðum Nissan um alla Evrópu, með sömu ábyrgðarskilmálum og þjónustu sem fylgja Nissan Navara almennt. En innan bæði Arctic Trucks og Nissan ríki mikil eftirvænting vegna verkefnisins. „Við erum mjög spennt fyrir þessu samstarfi og Nissan er það auðheyrilega líka,“ segir hann.

„… þessi samningur á eftir að opna enn fleiri dyr þegar fram líða stundir.“

Spurður hvernig samstarfið hafi komið til segir Emil að þar hafi ýmislegt haft áhrif, svo sem góð samvinna við Nissan á Íslandi, merki Arctic Trucks og þekking og reynsla stjórnunarteymis Arctic Trucks í Bretlandi af umsjón viðamikilla verkefna. Það séu helstu ástæður þess að samningar hafi náðst.

AUGLÝSING


En nákvæmlega hvaða þýðingu hefur samstarfið fyrir Arctic Trucks? „Þetta sýnir bara að stórir framleiðendur eru í auknum mæli farnir að leita til okkar eftir lausnum. Og ekki bara það heldur eru þeir að leitast eftir því að fá okkar merki á sína vöru þar sem Arctic Trucks hefur skapað sér trúverðugleika á alþjóðavísu,“ svarar hann. „Nissan í enn stærri heimsálfum, Asíu og í Mið-Austurlöndum, eru til dæmis í þessum töluðum orðum að skoða þann möguleika að taka til sölu þessa útgáfu af Nissan Navara sem við gerðum fyrir Nissan í Evrópu og fleiri framleiðendur hafa áhuga á samstarfi. Þannig að þessi samningur á eftir að opna enn fleiri dyr þegar fram líða stundir.“

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is