Fimmtudagur 28. mars, 2024
0.8 C
Reykjavik

Svartir föstudagar?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Skoðun.

Höfundur / Birgir Guðmundsson

Fullyrða má að stór hluti þjóðarinnar hafi í vikunni fylgst grannt með framvindu sölumála hjá WOW air og áhyggjufull örvænting gripið um sig á ný eftir stutt feginsandvarp í kjölfar frétta af kaupum Icelandair á félaginu. Í dag, föstudag, er eins konar D-dagur í málinu, hluthafafundur hjá Icelandair og útborgunardagur hjá WOW og við eigum eftir að sjá hvort við fáum annan svarta föstudaginn í röð, og nú heldur afdrifaríkari, eða hvort lífið heldur áfram með nokkuð eðlilegum hætti.

Hvort heldur sem verður, þá hefur titringurinn í mælakerfi fjármálaheimsins á Íslandi sýnt okkur að undirstöður ferðaþjónustunnar og hagvaxtarins undanfarin ár eru, þegar allt kemur til alls, brothættari en við höfum viljað vera láta. Þegar óvissa í flugmálum kemur í kjölfar óhagstæðrar gengisþróunar, og hægari fjölgunar ferðamanna til landsins, og jafnvel fækkunar ferðamanna víða um land, minnir ástandið dálítið á veiðimannasamfélagið Ísland fyrir fiskveiðistjórnun. Í því samfélagi voru aflakóngar óskabörn þjóðarinnar, jafnvel þótt stór hluti aflans færi á endanum í gúanó. Ferðaþjónusta síðustu ára hefur vissulega gefið góðan afla, en verðmætin til lengri tíma kannski ekki í samræmi við það.

Stefna í ferðaþjónustu

En það hefur mikið verið rætt um nauðsyn skipulags og stefnu í ferðaþjónustu þótt lítið hafi orðið úr verki. Eitt umræðuefnið í þessum dúr hefur verið að dreifa ferðamönnum betur um landið, fjölga áfangastöðum til að fjölga atvinnutækifærum víðar og létta á átroðningi þeirra svæða sem næst eru Keflavíkurflugvelli, sem er nánast eina mögulega innkoman með flugi til landsins.

Nú, þegar hægist í ferðaþjónustunni sem virðist ætla gerast hvort sem dagurinn í dag verður svartur eða bara grár föstudagur, þá hefði verið eðlilegt að stökkva til og opna kranann enn meira með fleiri mögulegum leiðum inn í landið. Freista þess að halda uppi rennsli ferðamanna. Akureyrarflugvöllur er í því samhengi augljós valkostur, en þar hefur hins vegar áralöng togstreita og óskýrleiki milli ríkisins og ISAVIA um ábyrgð á vellinum leitt til þess að aðstaðan er ófullnægjandi.

- Auglýsing -

Þannig að þeir vetrarferðamenn sem tekist hefur að laða norður í stórum stíl með fyrst breskri og nú einnig hollenskri ferðaskrifstofu í beinu flugi þurfa að hírast tímunum saman í strætisvögnum í kuldanum utan við flugstöðina á meðan verið er að taka á móti farangri og afgreiða fólk í gegnum komuhlið. Og sagan endurtekur sig síðan þegar þessir farþegar ætla svo í burtu. Að sjálfsögðu truflar þetta í leiðinni allt innanlandsflug.

Afgangsstærð

Stefnan um að dreifa ferðamönnum um landið með því að fjölga áfangastöðum birtist síðan í því að hafa flugvöllinn á Akureyri sem afgangsstærð á samgönguáætlun. Heimamenn hafa sýnt fram á að það er leikur einn að kippa þessu aðstöðuleysi í liðinn, a.m.k. til bráðabigða, fyrir, til þess að gera, lágar fjárhæðir. En verði það ekki gert er beinlínis verið að bregða fæti fyrir þróun ferðaþjónustu á Norðurlandi og neita henni um möuleika á að takast á við erfiða stöðu. Verði það raunin væri slíkt ekki bara einhver grár föstudagur, heldur kolsvartur.

- Auglýsing -

Höfundur er dósent hjá Háskólanum á Akureyri.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -