Svefnleysi og koffíndrykkja hafa slæm áhrif á sambandið

Það getur valdið miklu álagi á fjölskyldu þegar börn glíma við svefnörðugleika. Þetta veit Kristín Björg Kristjánsdóttir vel, en hún á þrjú börn, Dag Frey, 7 ára, Emilíu Mist, 5 ára og Kristófer Pétur, 7 mánaða, sem öll hafa átt erfitt með svefn.

„Elsti strákurinn minn var mikið magakveisu- og eyrnabólgubarn nærri því frá fæðingu og upp að sirka eins árs aldri. Þá tóku við night terrors, sem lýsti sér þannig að alltaf stuttu áður en hann átti að fara í djúpan svefn eða var mjög þreyttur fyrir svefn, öskraði hann úr sér lungun og það eina sem við gátum gert var að sussa og vera til staðar þar til þetta gekk yfir. Það var alltaf jafnmikið sjokk að heyra þessi öskur og fengum við foreldrarnir lítinn svefn,“ segir Kristín.

Vel valdar hreyfingar virkuðu

Kristín ásamt unnusta sínum, Tómasi Martin.

Dagur Freyr fékk þessar martraðir sem hann vaknaði ekki af fram að þriggja ára aldri. Þegar hann var tæplega tveggja ára eignaðist hann systur, Emilíu Mist, sem átti einnig erfitt með svefn, þó hún glímdi ekki við night terrors.

AUGLÝSING


„Það eina sem virkaði þessa sirku fjóru tíma sem þau grétu og grétu á meðan magakveisukasti var á kvöldin voru vel valdar hreyfingar sem virkilega létu mann líða eins og það væri verið að slíta af manni útlimina,“ segir Kristín og hlær.

Gengur brösulega að skipta nóttunum á milli

Kristín á eldri börnin tvö með fyrrverandi manni sínum, en þau skildu árið 2015. Hún segir mikið álag hafa verið sett á sambandið vegna svefnörðugleika barnanna. Kristófer litla á hún með unnusta sínum í dag, Tómasi Martin, en Kristófer byrjaði að sofa illa þegar hann var nokkurra mánaða gamall.

„Ég þakka innilega fyrir að hann tók ekki upp á því fyrr að sofa illa því maðurinn minn var virkilega stressaður að eignast sitt fyrsta barn. Hann var hræddur um að gera eitthvað vitlaust og kenndi sjálfum sér um ef hann náði ekki að róa hann. Svo kemur tanntaka á sama tíma og líka vaxtakippir. Við reynum að skipta nóttunum á milli okkar en það gengur brösulega,“ segir Kristín.

Sjá stundum ekki framtíð í sambandinu

Hún segir þetta ástand hafa haft slæm áhrif á samband þeirra.

„Það er svefnleysið og koffíndrykkjan á móti sem hefur slæm áhrif á sambandið okkar. Það hafa komið tímar þar sem við sjáum ekki framtíð í sambandinu, að við myndum ekki gera neitt nema rífast og vera ósammála um hlutina,“ segir Kristín en bætir við að hve þakklát hún er að eiga góðan stuðningsaðila í sínum manni.

„Við erum bæði í 100% vinnu til að ná endum saman og það bætir ekki úr skák. Við vinnum þó á sama stað og erum í sama teymi. Ég er svo þakklát fyrir það því ef eitthvað kemur uppá í vinnunni höfum við hvort annað til að leita til og gerum gott úr öllu saman.“

Þunglynd og þorði ekki að sækja sér hjálp

Kristín segist ekki hafa áttað sig á því að leita sér nægilegrar hjálpar í heilbrigðiskerfinu.

„Ég fékk enga læknishjálp varðandi svefnvandamálin og kveisurnar. Eldri tvö börnin fóru í rör og nefkirtlatökur um tveggja ára aldurinn og fengu líka bakflæðislyf þegar þau voru yngri. Þau lyf hjálpuðu aðeins, en ekki það mikið. Ég var orðin svo þunglynd að ég þorði ekki að sækja mér neina hjálp og tæklaði þetta bara, sem er alls ekki það sem ég hefði átt að gera,“ segir Kristín.

Samvinna mikilvæg á erfiðum tímum

En hvaða ráð hefur hún til foreldra í sömu stöðu?

Hér eru Emilía Mist, Kristófer Pétur og Dagur Freyr um síðustu jól.

„Telja upp á 10, 20, 30, alveg sama hve margar tölur þarf þá er það svo góð byrjun til að ná að anda aðeins og hugsa rökrétt. Þetta gengur yfir. Ekki festa sig á þeirri hugsun um hvenær þetta „ætti“ að ganga yfir. Svo lengi sem maður hefur trú á því að þetta gangi einhvern tímann yfir er maður kominn í betra hugarfar. Með pör skiptir gríðarlega miklu máli að vinna saman, samvinna er svo mikilvæg á erfiðum tímum. Ég og maðurinn minn náðum margfalt betur saman þegar við fórum að vinna betur saman. Munið að engin spurning er asnaleg og verið virkilega dugleg að tala saman og samstilla ykkur í hugsunum og verkum,“ segir Kristín og bætir við að það sé nauðsynlegt að hlusta á þarfir og líðan barnsins.

„Ég veit að samfélagið stílar svo mikið inná að börn þurfi að vera í rútínu en það má eiga sig fyrir mitt leiti þegar barninu líður illa. Þá þarf það auka knús og meðhöndlun og maður á tvímælalaust að veita því það. Því meira öryggi sem barnið finnur fyrir, því betra. Ég get alveg fullyrt að það hjálpar líka með að ná nánd við barnið og það mun alltaf innst inni vera þakklátt fyrir allt sem mömmurnar og pabbarnir gerðu,“ segir Kristín.

Ákall um hjálp er ekki uppgjöf

Hún er þakklát fyrir þann stuðning frá sínum nánustu sem hún fékk og hvetur alla til að þora að biðja um hjálp.

„Alls ekki hugsa að það að fá hjálp sé galli eða uppgjöf. Það er bara stundum nauðsynlegt. Ef sú hjálp býðst, í guðanna bænum nýtið ykkur hana, þó það sé ekki nema bara til að fara í göngutúr, fá tveggja tíma aukalúr yfir daginn eða bara sitja og horfa út um gluggann og hreinsa hugann. Ég hefði aldrei í lífinu komist í gegnum þetta allt saman ef ég hefði ekki nýtt alla þá hjálp sem mér bauðst.“

Svefnvandamál barna eru algeng fyrstu ár ævinnar.

Svefnvandamál hrjá allt að 20% barna

Svefnvandamál barna eru nokkuð algeng, og hrjá allt að 20% barna á fyrstu árunum. Svefnvandamál barna hafa áhrif á svefn foreldranna og þar með hæfni þeirra til að takast á við verkefni og skyldur daglegs lífs og þá jafnframt svefnvanda barnsins. Þetta kemur fram á vefnum Heilsuvera, samstarfsverkefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Embættis landlæknis. Þar er einnig farið yfir einkenni svefnvandamála, en þau geta verið eitt eða fleiri af eftirfarandi:

  • Barn vaknar oft upp á nóttunni og nær ekki að sofna sjálft aftur.
  • Barn á erfitt með að sofna á kvöldin, lengi að sofna eða þarf aðstoð. Börn sem geta farið að sofa sjálf að kvöldi, vekja síður foreldra sína ef þau vakna að nóttu.
  • Vandamál tengd daglúrum, s.s. stuttir og óreglulegir og of nálægt nætursvefninum.

Eldri börn geta haft önnur einkenni svefnvandamála. Algeng einkenni eftir 2-5 ára eru slæmir draumar eða martraðir og að geta ekki sofnað að kvöldi. Önnur einkenni eldri barna eru t.d. að ganga í svefni, pissa undir í svefni eða gnísta tönnum.

Þeir sem vilja lesa meira um svefnvandamál barna geta kíkt inn á vef Heilsuveru með því að smella hér.

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is