Sýnir ófreskjur í Sotheby‘s

Listamaðurinn Arngrímur Sigurðsson vinnur að höggmyndum sem verða sýndar í uppboðshúsinu Sotheby‘s í New York. Höggmyndirnar eru af ófreskjum sem eiga rætur að rekja til íslenskra þjóðsagna.

Arngrímur Sigurðsson sem hefur vakið athygli fyrir málverk af verum úr íslenskum þjóðsögum, vinnur nú að höggmyndum úr marmara sem verða sýndar í Sotheby‘s. Hér er hann með eitt sköpunarverkana sinna sem hann sýndi í New York.

„Ég fór að ímynda mér möguleika erfðafræðinnar og svokallaðrar svartrar líffræði og hvernig það kynni að líta út ef okkur tækist að búa til samblöndu af mannskepnunni og verkfærum mannsins, sérstaklega hvernig stökkbreyttar útgáfur af mönnum og vopnum gætu litið út. Eftir svolitla hugmyndavinnu varð þetta útkoman,“ segir myndlistamaðurinn Arngrímur Sigurðsson um höggmyndir sem hann er að vinna að um þessar mundir á vinnustofu í bænum Carrara á Ítalíu, en þær verða sýndar í apríl á næsta ári í einu elsta og virtasta uppboðshúsi heims, Sotheby‘s í New York.

Höggmyndirnar eru af skrímslum sem Arngrímur byrjaði að þróa meðan hann var við meistaranám í myndlist við New York Academy of Arts og eru hluti af lokaverkefni hans við skólann síðastliðið vor. „Þar bjó ég til samskonar skrímsli úr sílikoni, hreindýrafeldi og hrosshári en erfðafræðilegar tilraunir og allar þessar framfarir sem eru að verða í erfðavísindum urðu kveikjan að þeim,“ útskýrir hann. „Hvernig hægt er að forrita erfðaefni mannsins nánast upp á nýtt. Til dæmis skeyta saman ólíku erfðaefni til að búa til næstum hvað sem er.“

„Að sýna á vegum ABC Stone og í Sotheby‘s á svipuðum tíma, það á eftir að verða mjög skemmtilegt.“

Arngrímur segir að skrímslin séu ákveðið framhald af olíumyndum sem hann málaði fyrir nokkrum árum af íslenskum þjóðsagnaverum út frá lýsingum á fyrirbærum og duldýrum úr þjóðsögum og öðrum fornritum. Myndir af verkunum rötuðu í bók, Duldýrasafnið, sem kom út fyrir fjórum árum og vakti athygli, ekki síst ný og endurbætt útgáfa hennar á ensku sem ferðamenn hafa keypt í bílförmum.

AUGLÝSING


Spurður hvað það sé eiginlega við skrímsli sem heilli hugsar hann sig um og segir: „Mér finnst bara svo áhugavert hvernig þau endurspegla til dæmis alls konar náttúrufyrirbrigði eða samfélagslegar hræringar og hvað þau geta verið skemmtilega margræð.“ Hann segir það vera með ólíkindum að íslenskir listamenn skuli ekki hafa sótt meira í þennan menningararf því hann sé ótrúlega spennandi.

En Sotheby´s, er ekki viss upphefð að sýna í þessu gamla og virta uppboðshúsi? „Algjörlega,“ svarar hann og flýtir sér að bæta við að skúlptúrarnir verði þó ekki eingöngu sýndir þar. Þeir verði líka til sýnis í ABC Stone í Williamsburg. „ABC Stone er fyrirtæki sem er leiðandi í innflutningi og vinnslu á ítölskum marmara í Bandaríkjunum. Ég er einmitt hérna á Ítalíu í boði þess, en þeir bjóða tveimur nemendum frá New York Academy of Art til að nema steinhögg í Carrara á hverju ári. Þannig að sýna bæði á vegum þess og í Sotheby‘s á svipuðum tíma, það á eftir að verða mjög skemmtilegt.“

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is