Verða ekki öll í eins göllum eins og Abba og Westlife

Fókus hópurinn, sem Eiríkur Þór Hafdal, Karitas Harpa Davíðsdóttir, Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir, Rósa Björg Ómarsdóttir og Sigurjón Örn Böðvarsson skipa, komst áfram í úrslit í Söngvakeppninni eftir flutning sinn á laginu Aldrei gefast upp í fyrri undankeppninni síðustu helgi.

Klæðaburður hópsins vakti talsvert umtal á samfélagsmiðlum og virtist fólki finnast það miður að hópurinn hafi ekki verið klæddur í stíl. Fókusliðinn Karitas Harpa segir að hópurinn hafi ekki orðið var við gagnrýni á fötin sem þau klæddust. Þau voru sátt með sína frammistöðu, bæði flutning og klæðnað, en ætla að breyta atriðinu fyrir úrslitakvöldið, þar á meðal klæðaburðinum.

„Planið er að taka atriðið upp á næsta stig, í klæðum sem og öllu umfangi, enda stærra svið, meira í boði og meira af fólki. Við getum svo sem ekki gefið of mikið upp eins og staðan er núna, enda allt á vinnslustigi en það sem við getum sagt er að við viljum birta aðeins yfir atriðinu. Við höfum veirð að leika okkur með útsetninguna og það er spurning hve miklu má breyta fyrir stóra sviðið, en vissulega verður atriðið ekki eins og það var í Háskólabíói,“ segir söngkonan knáa.

AUGLÝSING


En verða liðsmenn Fókus hópsins í stíl á stóra kvöldinu?

„Við verðum ekki í eins galla öllsömul. Það er svolítið ABBA og Westlife. En við ætlum að reyna að tóna meira en í undankeppninni.“

Hér fyrir neðan má sjá viðbrögð við klæðaburði hópsins, en viðtal við Karitas Hörpu heldur áfram þar fyrir neðan.

Skora á Robin Bengtsson í langhlaup

Það ríkir mikill spenningur innan Fókus hópsins fyrir úrslitakvöldinu, ekki síst vegna þess að sænski hjartaknúsarinn Robin Bengtsson, sem tók þátt í Eurovision í fyrra með lagið I Can’t Go On, treður upp á kvöldinu.

„Við erum öll mjög spennt að hitta hann, enda öll búin að æfa okkur vel á hlaupabrettum síðasta mánuðinn. Við erum spennt að skora á hann í langhlaupi og vonandi fær að minnsta kosti eitt okkar koss,“ segir Karitas Harpa hlæjandi, en Robin vakti mikla athygli í keppninni í fyrra vegna notkunar sinnar á hlaupabretti á sviðinu.

Fengu hjálp frá björgunarsveitinni

Það er nóg að gera hjá Fókus hópnum fram til 3. mars og nú eru þau á faraldsfæti um landið að kynna sig og lagið. Þau hafa verið að heimsækja grunnskóla landsins og syngja en á Hvammstanga lögðu þau mikið á sig svo allir nemendur fengju að hlíða á þau syngja.

„Við fórum sérstaklega og heimsóttum dreng að nafni Jakob þar sem hann var veðurtepptur heima hjá sér og komst ekki í skólann,“ segir Karitas Harpa. Um kvöldið borðaði hópurinn síðan með öðrum aðdáenda, samfélagsmiðlastjörnunni Binna Glee, á Akureyri.

Fókus hópurinn er á ferð og flugi þessa dagana.

„Við fréttum á snappinu að hann elskaði lagið okkar og okkur langaði bara svo til að hitta hann því okkur þótti svo vænt um það. Okkur þykir svo vænt um hvað fólk er að fíla lagið okkar vel og við áttum yndislega stund með Binna, enda yndislegur strákur,“ segir Karitas Harpa. Þá komust þau einnig í hann krappan á norðvesturlandi í vikunni.

„Björgunarsveitin hjálpaði okkur inn að Hvammstanga þegar það var lokaður vegurinn. Við erum að elska allan stuðninginn sem við erum að fá allstaðar frá. Þetta er bara ótrúlega yndisleg reynsla og við elskum að eiga möguleika á því að fylgja þessu eftir. Við fáum snöpp daglega af krökkum að syngja eða dansa við lagið. Það er svo yndislegt og færir alveg ómælda gleði.“

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is