„Við munum berjast eins og ljónynjur“

Íslenska A-landsliðið í kvennaknattspyrnunni leikur einn mikilvægasta leik sinn nokkru sinni á morgun þegar þær mæta þýska landsliðinu í undankeppni HM 2019 á Laugardalsvelli. Íslensku stelpurnar unnu fyrri leik liðanna í undankeppninni 3-2 og Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði liðsins, er hörð á því að þær eigi alla möguleika á að sigra þær aftur, þrátt fyrir að þýska liðið sé eitt það besta í heimi.

Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins.

Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins sem mætir Þýskalandi á morgun, er baráttuglöð og vongóð og segir liðið mæta til leiks með því hugarfari að vinna og tryggja sér þar með sæti á HM á næsta ári. Liðið hafi sýnt það með sigri á þýska liðinu síðastliðið haust að það sé fullfært um að sigra í leiknum og í huga liðskvenna komi ekki annað til greina. Þær muni leggja allt undir.

Ég byrja á að spyrja Söru Björk hvort liðið sé vel undirbúið fyrir leikinn. „Já, ég held það,“ svarar hún. „Við spilum margar erlendis, í Evrópu eða Bandaríkjunum, og höfum verið með hugann við að spila með okkar liðum þar í sumar, en það kemur í ljós á æfingunni á eftir hvernig liðið hristist saman. Ég á ekki von á öðru en að það gangi vel.“

Eruð þið stressaðar fyrir þessum leik?
„Nei, en spenntar,“ svarar Sara Björk hress. „Þetta verður einn stærsti leikur sem við höfum spilað, gegn einu besta liði í heimi, barátta um sæti á HM næsta sumar og væntanlega fyrir fullsetnum áhorfendastúkum þannig að þetta er mjög spennandi leikur fyrir okkur og við teljum okkur eiga góða möguleika á sigri, þannig að við erum ekkert stressaðar, bara einbeittar.“

AUGLÝSING


Heldurðu að fjarvera lykilleikmanna, eins og Hörpu Þorsteinsdóttur og Dagnýjar Brynjarsdóttur, geti sett strik í reikninginn?
„Auðvitað er mikið högg fyrir liðið að missa svona reynslumikla leikmenn og það verður erfitt að vera án þeirra en það koma aðrir leikmenn í staðinn, ég vona að fjarvera þeirra geri ekki gæfumuninn. Við verðum bara að berjast aðeins harðar.“

„ … við munum gefa allt í hann og berjast eins og ljónynjur, þú mátt treysta því. Það verður ekkert gefið eftir.“

Liðinu gekk ekki vel á Evrópumeistaramótinu síðastliðið sumar, er það betur í stakk búið núna til að sigra jafnerfiða andstæðinga og Þýskaland?
„Nei, það lagðist ekkert með okkur á EM í fyrra, það er rétt,“ segir Sara Björk og það þykknar í henni við spurninguna. „En það var nú í þriðja sinn sem við tókum þátt í Evrópumeistaramóti, svo við erum vanar því að keppa við erfiða andstæðinga. Ég veit ekki hvort liðið núna er betra en þá, en við unnum þýska liðið síðastliðið haust svo ég held við séum búnar að sýna að við eigum alveg erindi í keppni með þeim bestu. Við erum ekki einhverjir byrjendur.“

Eins og kunnugt er, spilar þú með Wolfsburg í Þýskalandi og barst fyrirliðaband Wolfsburg þegar liðið vann 5-0 stórsigur á Werder Bremen í þýsku úrvalsdeildinni fyrr á árinu. Heldurðu að reynsla þín í Þýskalandi eigi eftir að koma að góðum notum í leiknum á laugardaginn?
„Ég veit það nú ekki,“ segir hún og hugsar sig um. „Ég get auðvitað lagt til einhverja punkta um ýmsa leikmenn og við höfum spilað við þetta lið áður og þekkjum þær býsna vel. Ég held samt að reynsla mín úr þýsku úrvalsdeildinni hjálpi heilmikið til.“

Þið eruð með marga unga leikmenn, heldurðu að það komi til með að nýtast vel?
„Já, ég held það. Líka mikilvægt upp á framtíðina að ungu stelpurnar stígi upp og öðlist reynslu í svona stórum leikjum. Þær bæta það sem vantar upp á reynsluna með leikgleði og baráttuvilja og eru mikill styrkur fyrir liðið. Ég held að það sé bara jákvætt að yngja liðið upp.“

Ertu sátt við hópinn?
„Já, ég er það,“ segir Sara Björk ákveðin. „Þetta er gott lið, með marga sterka leikmenn og góðan liðsanda. Og við höfum sýnt það á undanförnum árum að við eigum erindi í hóp þeirra bestu í heiminum.“

Þú segir að þið þekkið þýska liðið vel, hverjir eru helstu styrkleikar þess?
„Þetta er eitt besta lið í heimi, eins og ég sagði áðan,“ segir hún. „Þær eru með marga rosalega sterka leikmenn, spila vel saman og eru mjög skipulagðar og agaðar. Það er alltaf erfitt að mæta þeim, en við erum ekkert hræddar við þær og, eins og ég sagði líka áðan, þá unnum við þær 3-2 í fyrri leiknum í undankeppninni í október í fyrra, og það á útivelli, þannig að ég tel okkur eiga góða möguleika á að sigra í þessum leik.“

Miðarnir á leikinn hafa rokið út og allt bendir til að uppselt verði á leikinn á laugardaginn, hvernig er að finna fyrir þessum áhuga?
„Það er bara frábært og við höfum stefnt að því lengi. Það skiptir máli að hafa sterkan hóp stuðningsmanna á bak við okkur og mjög hvetjandi að finna fyrir auknum áhuga á liðinu og leikjum þess. Við höfum líka sýnt það og sannað að við erum gott lið og það er gleðilegt að áhorfendur séu farnir að sjá það og meta okkur að verðleikum.“

Með hvaða hugarfari farið þið inn í þennan mikilvæga leik?
„Auðvitað með því hugarfari að vinna. Við förum í alla leiki með því hugarfari. Og það er enn meira undir í þessum leik en nokkurn tímann áður þannig að við munum gefa allt í hann og berjast eins og ljónynjur, þú mátt treysta því. Það verður ekkert gefið eftir.“

________________________________________________________________________

Agla María Albertsdóttir.

„Þetta gerist ekki stærra“
„Stemningin fyrir leiknum er mjög góð og maður finnur hvað allir í kringum mann eru spenntir. Það eru mjög margir á leiðinni á völlinn og ég býst við því að stemningin verði frábær,“ segir Agla María Albertsdóttir, spurð að því hvernig leikurinn leggist í hana. „Það væri auðvitað ótrúlegt afrek fyrir okkur að komast á HM og kvennafótboltann í heild sinni þar sem íslenska kvennalandsliðið hefur aldrei komist á HM. Það væri frábært að komast á stærsta sviðið í fótboltanum. Þetta gerist ekki stærra.“

Glódís Perla Viggósdóttir

Reynslunni ríkari eftir EM
„Á EM fengum við tækifæri til að spila þrjá stórleiki á stórum völlum fyrir framan fullt af fólki og sú reynsla hefur nýst okkur,“ segir Glódís Perla Viggósdóttir, innt eftir því hvort hún telji að liðið komi til með að geta nýtt sér reynsluna af EM í leiknum á morgun. „Til dæmis kunnum við betur að undirbúa okkur fyrir leiki, aðallega andlega og líka að stýra betur fókusnum og orkunni. Núna erum við bara spenntar að fara út á völlinn okkar og gefa allt í þessa tvo seinustu leiki í riðlinum!“

Svava Rós Guðmundsdóttir.

Hlakkar til að berjast við Þjóðverja
„Það að komast á HM hefði gríðarlega þýðingu fyrir mig og fyrir kvennaboltann á Íslandi. Það myndi klárlega styrkja stöðu kvenna í knattspyrnu á Íslandi og hvetja yngri stelpur til að æfa fótbolta. Sjálfar erum við gríðarlega vel „mótiveraðar”, samheldnin er mjög góð og hópurinn góð blanda af reyndari leikmönnum sem hafa tekið vel á móti þeim yngri og óreyndari. Stemningin í hópnum er mjög góð. Við erum allar mjög spenntar fyrir komandi verkefni og hlökkum til að berjast fyrir sæti á HM,” segir Svava Rós Guðmundsdóttir.

Sigríður Lára Garðarsdóttir

Góður liðsandi
„Mórallinn í liðinu er góður. Við stefnum allar í sömu átt,” segir Sigríður Lára Garðarsdóttir þegar blaðamaður spyr að því hvernig mórallinn sé innan liðsins í aðdraganda leiksins. „Það er kominn spenningur í okkur og við hlökkum til. Við erum reynslunni ríkari eftir EM. Lærðum margt þar sem gæti nýst okkur á HM á næsta ári. Það væri því algjör draumur að komast þangað. Það væri stórt afrek fyrir íslenskan kvennabolta.“

Ingibjörg Sigurðardóttir.

Draumur að komast á HM
Ingibjörgu Sigurðardóttur hefur dreymt um að spila á HM frá því að hún var krakki. „Það hefur alltaf verið stór draumur. Ég hef unnið hörðum höndum að því að komast þangað síðan ég var lítil,“ segir hún og finnst alveg ótrúlegt að hugsa til þess hversu ótrúlega nálægt liðið er að ná takmarkinu. „Sem hvetur maður enn meira til að gera þetta með stæl.“ Hún telur að þátttökuréttur liðsins á HM hefði mikla þýðingu fyrir kvennaboltann á Íslandi. „Ég hugsa að það yrði ungum stelpum hvatning til að æfa vel og fengi fólk almennt til að að sýna kvennaboltanum meiri áhuga.“

 

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is