Vinnur með þeim stærstu í tískubransanum

Kári Sverrisson ljósmyndari myndar vor- og sumarlínur Marinu Rinaldi og Chanel.

Kári Sverrisson hefur í nógu að snúast. Hann segir ýmislegt spennandi vera á döfinni en þó ekkert sem hann er tilbúinn til að ræða að sinni.

Óhætt er að segja að Kári Sverrisson hafi haft í nógu að snúast frá því að hann útskrifaðist með masters-gráðu í tískuljósmyndun frá London College of Fashion árið 2014, fyrstur Íslendinga. Nýverið var hann fenginn til að mynda vor- og sumarlínu Marinu Rinaldi, sem er stærsta og þekktasta „yfirstærðar“ fatamerkið í heiminum í dag og jafnframt í eigu ítalska tískurisans Max Mara.

„Listrænn stjórnandi Marina Rinaldi hafði samband við mig seint á síðasta ári og lýsti yfir áhuga á samstarfi. Hann var búinn að fylgjast með mér á Instagram í smátíma og sagðist vilja fá mig til að skjóta vor- og sumarlínu fyrirtæksins,“ segir Kári sem sló til og flaug mánuði seinna á vegum fyrirtækisins til Mílanó á Ítalíu þar sem myndatakan fór fram.

Var þetta stórt verkefni? „Við vorum um 15 manns á setti og þarna voru nokkrir sem flugu sérstakleg til Mílanó til að vinna að því, þar á meðal förðunarfræðingur annars staðar frá á Ítalíu, stílisti frá New York, hárstílisti frá London og módel frá London að nafni Ali Tate sem er fyrirsæta í yfirstærð og frekar þekkt nafn innan tískuheimsins. Þannig að já, ég myndi segja það.“

AUGLÝSING


Mannlíf fékk leyfi til að birta myndir úr tískuþættinum sem Kári tók fyrir Marinu Rinaldi, en að hans sögn koma myndirnar til með að birtast í tískutímatímaritum og -blöðum á næstu dögum.

„Hann var búinn að fylgjast með mér á Instagram í smátíma og sagðist vilja fá mig til að skjóta vor- og sumarlínu fyrirtæksins.“

Spurður hvernig tilfinning hafi verið að vinna með svona stóru fyrirtæki viðurkennir Kári að það hafi verið svolítið stressandi til að byrja með. „Þemað í þættinum var safarí þannig að myndirnar áttu að líta út eins og þær væru teknar á heitri sólarströnd og fyrirtækið vildi nota flókna ljósauppstillingu til að fanga það. Lýsingu sem ég er ekki vanur að nota. Í ofanálag mættu háttsettir aðilar frá Marinu Rinaldi mættu á staðinn til að tryggja að allt gengi fyrir sig eins og til var ætlast. Ég fékk því kannski ekki alveg sama frelsi og yfirleitt þegar ég hef verið að mynda tískuþætti fyrir blöð eins og ELLE, Glamour og L’Officiel. En þetta var gaman og sem betur fer gekk allt upp. Þannig að þegar tökum lauk voru allir ánægðir.“

Þetta er ekki eina umfangsmikla verkefnið sem Kári hefur fengist við að undanföru. Nýverið vann hann fyrir Chanel. „Ég tók tvo tískuþætti á tveimur dögum, hvorn á sínum staðnum í London, á þekktum veitingastað og í rosalega flottu húsi í Notting Hill,“ lýsir hann. „Annar þátturinn var samstarfsverkefni með Dior og hinn með Chanel og bæði verkefni mjög skemmtileg enda er allt lagt í tökurnar þegar maður er að vinna með svona vönduð og dýr merki.“

Verkefni af þessu tagi, opna þau ekki alls konar dyr? „Algjörlega og þar að auki lærir maður heilmikið af því sem þeim, hvort sem maður er að mynda föt, fólk, mat og svo framvegis. Þetta er allt saman dýrmæt reynsla.“

Texti / Roald Eyvinsson
Myndir / Kári Sverrisson

 

 

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is