Miðvikudagur 24. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Íslensku barnaefni vel tekið um allan heim

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fín aðsókn var á íslenskar kvikmyndir í fyrra samkvæmt tölum sem FRÍSK, Félag rétthafa í sjónvarpi og kvikmyndum hefur tekið saman. Athygli vekur að barna- og fjölskyldumyndir verma annað og þriðja sætið á lista yfir aðsóknarmestu íslensku myndirnar en sömu myndir hafa átt láni að fagna erlendis.

Hilmar Sigurðsson, forstjóri Sagafilm.

Íslenskar barna- og fjölskyldumyndirnar gerðu það gott á síðasta ári þegar litið er til þeirra mynda sem mesta aðsóknin var á. Þannig eru Víti í Vestmannaeyjum og Lói – þú flýgur aldrei einn, í öðru og þriðja sætinu yfir aðsóknarmestu myndirnar en sú fyrri var sýnd 315 sinnum árið 2018 og þénaði 47,7 milljónir króna á 35.465 gestum, á meðan sú seinni var sýnd 522 sinnum og þénaði 29,9 milljónir á 24.185 gestum. Hilmar Sigurðsson, forstjóri Sagafilm, sem framleiðir myndirnar er ánægður með þetta góða gengi og segir það vera ótvíræða vísbendingu um aukna eftirspurn eftir barna- og fjölskylduefni á íslensku.

„Það að tvær af þremur aðsóknarmestu íslensku myndum 2018 skuli vera barna- og fjölskyldumyndir er eftirtektarvert. Það sýnir að íslenskar fjölskyldur vilja sjá svona myndir.“

„Það að tvær af þremur aðsóknarmestu íslensku myndum 2018 skuli vera barna- og fjölskyldumyndir er eftirtektarvert. Það sýnir að íslenskar fjölskyldur vilja sjá svona myndir, sem við kvikmyndagerðarfólkið getum verið stolt af. Að þær eiga klárlega upp á pallborðið á Íslandi, sem er mikið gleðiefni,“ segir hann.

Með betri árangri hérlendis
Hilmar segist ekki vera frá því að þetta sé með betri árangri sem íslenskar barna- og fjölskyldumyndir hafi náð hérlendis. Auk þess hafi báðar myndirnar átt góðu gengi að fagna erlendis. Sem dæmi hafi Víti í Vestmannaeyjum verið verðlaunuð á kvikmyndahátíðum ytra og sýningarrétturinn að Lóa nú þegar seldur til yfir 60 landa. „Þessi alþjóðlega velgengni er auðvitað frábær. Samkvæmt Box Office Mojo er Lói til dæmis önnur aðsóknarmesta íslenska myndin erlendis. Samt á enn eftir að frumsýna hana í Danmörku og Noregi og á stórum mörkuðum í Suður-Evrópu og víðar. Víti í Vestmannaeyjum hefur líka hlotið verðlaun og góðar umsagnir erlendis sem er ánægjulegt m.a. í ljósi þess að hún var fyrst og fremst gerð fyrir innlendan markað.“

Þá séu þetta jafnframt góð tíðindi þar sem framleiðslukostnaður myndanna tveggja hafi verið hár. Víti í Vestmannaeyjum hafi kostað í kringum 300 milljónir og Lói 986 milljónir eða nærri milljarð í framleiðslu. „Það kostar bara oft meira að gera svona myndir þar sem önnur aðferðafræði ræður ríkjum þegar börn eru á tökustað,“ útskýrir hann. „Til dæmis eru tökudagar styttri til að hlífa þeim, það þarf sérstakan stuðning við börnin og svo framvegis. Þannig að svona framleiðsla er dýrari og það þarf mikið til að hún gangi upp. Það að aðsókn skili sér er því mjög gott.“

Mikilvægt upp á framtíðina
Hilmar segir að á Íslandi gangi oft brösuglega að koma kvikmynduðu barna- og fjölskylduefni á koppinn. Hann vonar að árangur þessara mynda verði til þess að meira fé verði varið í gerð þess. „Við erum eftirbátar hinna Norðurlandanna hvað þessu viðvíkur. Hér hefur á góðum dögum verið talað voða fallega um barna- og fjölskylduefni, en þegar til kastanna kemur vantar upp á að styrkja slíkt efni í þeim mæli sem raunverulega þarf. Það hefur verið erfiðara að fá fjármuni í það en í „fullorðinsefni“, það er bara staðreynd. Það er eins og það sé ekki tekið nógu alvarlega, svipað og bent hefur verið á með íslenskar barna- og unglingabækur. Sem er synd því ég held að það sé fátt eins gott fyrir íslensk börn og að hafa aðgang að vönduðu íslensku efni sem þau geta speglað sig í. Það gegnir svo mikilvægu samfélags- og menningarlegu hlutverki. Skiptir máli upp á kvikmyndalæsi, uppeldi og bara framhaldið. Íslenskir kvikmyndagerðarmenn og sjóðir mættu því vel gefa því meiri gaum, því fyrir utan þetta þá er greinileg eftirspurn eftir svona efni ef marka má þessar góðu viðtökur.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -