Fimmtudagur 28. mars, 2024
3.8 C
Reykjavik

Kerfið duglegra að verja sig en borgarana

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þöggun, samtrygging og afskiptaleysi eru nokkur orð sem hafa verið notuð til að lýsa réttarkerfinu þegar kemur að meðferð kynferðisbrota í umfjöllun Mannlífs síðustu vikur. Kveikja umfjöllunarinnar er mál þriggja stúlkna sem sökuðu lögreglumann um kynferðisbrot. Mannlíf náði tali af þremur þingmönnum sem segja ýmsar brotalamir í kerfinu.

„Frásagnirnar eru sláandi. Í umfjölluninni kemur einnig fram misræmi í sjónarmiðum yfirvalda til málsins og hvernig eigi að bregðast við og standa að rannsókn og stöðu þess ásakaða. Það er auðvitað óviðunandi,“ segir Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, um mál kvennanna þriggja.

„Kynferðislegt ofbeldi, ekki síst gegn börnum og unglingum, er svo alvarlegt að það verður alltaf að bregðast við af festu og öryggi. Öll málsmeðferð verður að vera fumlaus og fallin til þess að vekja traust bæði að efni og formi, hvað þá þegar ásakanir beinast að þeim sem eiga að halda uppi lögum og reglu.“

„Réttarkerfið á Íslandi er til háborinnar skammar“

Vantar upp á skilning fyrir réttindum þolenda

Þórhildur Sunna.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, segist áhyggjufull yfir stöðu þolenda innan réttarvörslukerfisins í ljósi ýmissa mála sem hafa komið upp síðustu misseri. „Það virðist vera að þessi réttindi barna til að njóta alltaf vafans og að allt sé gert til að þeirra hagsmunir séu í forgrunni hafi ekki náð kjölfestu í réttarkerfinu eins og það leggur sig á Íslandi. Þetta sjáum við víðtæk dæmi um hjá lögreglunni, hjá dómstólum og hjá sýslumannsembættum. Það veldur mér miklum áhyggjum að staðan sé ekki betri en raun ber vitni,“ segir Þórhildur Sunna. Hún bætir við að þó að mikil vakning hafi orðið í samfélaginu varðandi kynferðisbrot í kjölfar herferða eins og #metoo sé enn ýmsu ábótavant.

„Það vantar upp á skilning innan kerfisins fyrir réttindum þolenda í kynferðisbrotamálum. Réttindi geranda og/eða sakborninga eru að sjálfsögðu mjög mikilvæg; að þeir fái sanngjarna málsmeðferð og að aðilar séu saklausir uns sekt er sönnuð. En þolendar eiga líka rétt á sanngjarnri málsmeðferð og þeir eiga rétt á vernd gegn ofbeldi. Þeir eiga rétt á því að réttarkerfið sinni þeim af virðingu, kostgæfni og af miklum metnaði.“

Mætti mikilli andstöðu innan réttarkerfisins

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði fram tillögu um afnám fyrningar í kynferðisbrotum gegn börnum árið 2003 og segist hafa mætt mikilli andstöðu innan réttarkerfisins áður en lagabreytingum var náð fram í þessum efnum fjórum árum síðar.

- Auglýsing -

„Mörgum lögfræðingum fannst þessi tillaga allt of róttæk og þar sem dönsku lögin gerðu ráð fyrir að þessi brot væru fyrnanleg ættu íslensk lög að gera ráð fyrir hinu sama. Mér fannst slík röksemdarfærsla vera út í hött og ég vildi að við tækjum þetta eðlilega skref. Við eigum ekki að vera feimin að taka refsipólitískar ákvarðanir. Með því að hafa þessi brot fyrnanleg högnuðust gerendurnir á lögunum þar sem þolendur leita sér oft ásjár kerfisins mörgum árum eftir að brotin voru framin,“ segir Ágúst, en í kjölfar lagabreytinganna varð Ísland eitt fyrsta land í heiminum sem gerði alvarleg kynferðisbrot gegn börnum ófyrnanleg.

Tveir starfshópar, svipaðar niðurstöður

Ágúst Ólafur.

Fyrir fimm árum var Ágúst Ólafur formaður starfshóps sem skilaði tillögum um meðferð kynferðisbrot innan réttarvörslukerfisins til dómsmálaráðuneytis. Samráðshópur skilaði aftur tillögum sama efnis árið 2016. Tillögurnar virðast vera um margt líkar. Í báðum var til að mynda óskað eftir skýrari stefnu stjórnvalda, innspýtingu í forvarnir og að tryggja sálfræðiaðstoð fyrir brotaþola. Ágúst segir að sitthvað úr tillögum síns starfshóp hafi náð í gegn, annað ekki.

Jón Steindór segir margt gott innan réttarvörslukerfisins en að alltaf megi gera betur.

- Auglýsing -

„Eitt af því sem þarf til dæmis að skoða eru samskipti og upplýsingagjöf til fórnarlamba um gang mála, framvindu rannsóknar og forsendur ákvarðana. Sömuleiðis spurning um hvort ekki þurfi að breyta lögum um aðild fórnarlamba að dómsmálum og rannsóknum þannig að þau verði aðilar máls en ekki vitni eins og nú er,“ segir hann og bætir við að honum finnist stefna stjórnvalda í þessum málaflokki ekki skýr. „En ég held að vilji sé til þess að taka þessi mál fastari tökum og því ber að fagna. Sjálfsagt er að styðja þá viðleitni og veita stjórnvöldum virkt aðhald.“

Ákveðin uppskrift að þöggun

Þórhildur Sunna kannast við þá þöggun sem talað hefur verið um í umfjöllun Mannlífs og segir í raun vera mjög skýra uppskrift að henni.

„Þetta virðist vera tækni og þessi tækni heitir þöggun“

„Almennt í þöggunarmálum virðast vera þrír sérstakir þættir. Númer 1: Að gera lítið úr málinu. Ef við tökum Höfum hátt-málið sem dæmi þá gæti þetta verið þegar það kom fyrst upp á yfirborðið og Bjarni Benediktsson sagði þá dæmdu barnaníðinga sem um ræddi hafa fengið eðlilega málsmeðferð þegar þeir sóttu um uppreist æru. Þá talaði Brynjar Níelsson, þáverandi formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, um að það væru til verri brot en þetta gegn börnum. Númer 2: Að kenna öðrum um. Í Höfum hátt-byltingunni lét Bjarni Benediktsson fyrst að því liggja að þetta hefði verið á hans ábyrgð. Þegar það fór að verða óþægilegt var Ólöfu Nordal kennt um og svo lögunum. Lögin gerðu þetta. Númer 3: Að skjóta sendiboðann. Í fyrrnefndu

Jón Steindór.

máli lét Brynjar til dæmis hafa eftir sér að fólk vildi einungis fá upplýsingar um hverjir þessir valinkunnu menn sem veittu barnaníðíngunum meðmæli væru svo hægt væri að ganga í skrokk á þeim, og gerði þannig lítið úr málinu. Þolendur voru einnig rægðir á alþjóðavettvangi. Svo getur þessi hringur byrjað aftur upp á nýtt. Það virðist vera að kerfið sé duglegra að verja sig en borgarana í landinu.“

Jón Steindór segir það kýrskýrt að reynt hafi verið að þagga mál niður eða gera minna úr þeim í gegnum tíðina.

„Gegn þessu þarf að berjast með upplýsingum og fræðslu um hve alvarleg þessi brot eru. Ég vil ekki trúa því að þöggun sé kerfisbundin. Hitt verður að vera alveg skýrt að þöggun er glæpur. Samtímis verður að búa svo um hnúta að fórnarlömb geti treyst því að á þau sé hlustað, mál rannsökuð af hlutlægni og til hlítar,“ segir hann og því er Ágúst Ólafur sammála.

„Þöggun vegna þessara mála má aldrei eiga sér stað í íslensku réttarkerfi eða í samfélaginu í heild sinni. Sem betur fer erum við farin að ræða þessi mál mun opinskár en áður þótt dæmi um þöggun séu einnig til staðar. Kynferðisafbrot eru ein alvarlegustu afbrot samfélagsins og við eigum einfaldlega að stefna á að útrýma þeim. Annað á ekki að vera í boði.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -