Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Kondí bílinn!

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Síðast en ekki síst

Ég man að opið á milli trjánna var rétt nógu stórt. Ég leit aftur fyrir mig og sá rústrauða Fordinn niðri á tjaldstæði og pabba stumra yfir gamla A-tjaldinu frá Tjaldborg.

Ég hvarf í gegnum opið þar sem ævintýrin biðu í næstu laut. Ég lagðist í mosavaxinn skógarbotninn, angan af hálfvotu lyngi fyllti vitin og fuglarnir kitluðu eyrun með huggulegum söng. Býflugur suðuðu hjá og geislar sólar dönsuðu á milli skýjamynda fyrir ofan trjátoppana. Það var sumar, andinn var léttur, geðið var milt, áhyggjurnar áttu heima í háloftunum og ábyrgð var hugtak sem ég hafði ekki aldur til að skilja.

„Kondí bílinn,“ heyrði ég berast eftir blaktandi laufblöðum inn leynilundinn minn. Þetta var mamma. Ég rölti rólega úr himneskri sældinni í átt að tjaldstæðinu fullviss þess að þar biði mín sjóðheitt góðgæti beint af prímusnum. Mamma stóð við bílinn, allt var klárt. Nestið var smurt og töskurnar tetris-raðaðar í fimm sæta fólksbílinn. Ég settist södd og sæl í sætið mitt. Allt var í röð og reglu. Brakandi ferskur nýpúffaður koddi lá í aftursætinu og nýr ruslapoki hékk árvökull á gírstönginni. Ég veitti því ekki athygli þá en man það núna, að mamma var örlítið rjóð í framan, örlítið pirruð en brosti samt. Pabbi fór úr peysunni og dæsti þegar hann settist undir stýri. Svo þögðu þau dágóða stund.

Ég man þetta núna, 30 árum síðar, af því að í dag á ég fjögur börn. Ég skil núna. Ég er í sumarfríi, komin úr peysunni, örlítið rjóð í framan, örlítið pirruð en brosandi samt. Ég sé börnin njóta og ég sé ykkur líka, kæru foreldrar, í sumarfríi. Gangi ykkur rosalega vel og munið að fara öðru hvoru snemma að sofa.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -