Föstudagur 19. apríl, 2024
0.1 C
Reykjavik

Logi um Gunnar Braga: Líklega hefur hann séð mig í pilsi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Logi Einarsson telur að ekki muni fenna yfir Klausturmálið.

Þing kemur saman að nýju eftir jólaleyfi í næstu viku. Síðustu þingfundirnir í fyrra voru þingmönnum þungbærir enda fóru þeir fram í skugga Klaustursmálsins þar sem sex þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins fóru ófögrum orðum um tiltekna kollega sína á þingi. Forsætisnefnd þingsins hugðist vísa málinu til siðanefndar Alþingis en þangað komst málið aldrei þar sem allir nefndarmenn lýstu sig vanhæfa, að kröfu Miðflokksins. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, kveðst ekki geta sagt til um hvert framhald málsins verði.

„Það bíða okkar mjög mörg mál sem tengjast kjarasamningum, veggjöldum, þriðja orkupakkanum og ýmislegt annað og við verðum að vera starfhæft þing. Ég mun auðvitað bara mæta í vinnuna og vinna að þeim málum sem ég er kjörinn til að gera. En umræðan um hvernig okkur miði áfram í átt að betra samfélagi, meira jafnrétti, þar sem minnihlutahópar og fatlaðir eru virtir, sú umræða og sú vinna verður að halda áfram á öllum sviðum samfélagsins. Ég held að það fenni ekki yfir þetta. Á endanum er starfið sérstakt vegna þess að þú ert kjörinn af þjóðinni til þess að gegna því í tiltekinn tíma og það er þjóðin sem getur hafnað þér. Ég er sannfærður um að þetta mál er ekki búið. Við eigum öll eftir að fara í kosningar þar sem við erum dæmd af okkar verkum og orðum.“

„Það voru önnur ummæli sem voru miklu verri, sársaukafyllri, fordómafyllri.“

Sjálfur var Logi á meðal þeirra sem komu við sögu í Klaustursupptökunum er Gunnar Bragi Sveinsson vitnaði til Loga sem mannsins í strápilsinu „sem dansaði nánast á typpinu með Skriðjöklum“. Logi segist ekki taka slíkar blammeringar nærri sér. „Eitt er hvort þú fellir einhverja pólitíska sleggjudóma um andstæðinga þína sem meiða ekkert. Svo eru aðrir hlutir sem voru grófari og niðrandi um kyn og jafnvel hópa sem eru veikir fyrir. Það er greinamunur þar á. Ég tók því frekar léttvægt að vera kallaður trúður sem dansar á strápilsum næstum því á typpinu, það truflar mig ekki neitt. Ég hef talað við Gunnar Braga um þau orð sem hann lét falla í minn garð. Ég tek þeim ummælum ekkert alvarlega. Það voru önnur ummæli sem voru miklu verri, sársaukafyllri, fordómafyllri.“

Logi var meðlimur í hinni goðsagnakenndu gleðihljómsveit Skriðjöklum á 9. áratugnum og fékk það hlutverki að vera dansari en það er einmitt þar sem Gunnar Bragi sótti umrædda tilvitnun á Klaustursbarnum. „Við vorum náttúrlega fjörugur félagsskapur ungra manna og virkilega í baldnari kantinum í árgangnum og höfðum vit á að virkja það í hljómsveitarbras í staðinn fyrir eitthvað verra. Við vorum átta eða níu saman og þessi hljómsveit var stofnuð þótt þetta hafi meira verið eins og ungmennafélag. Það var ekkert inni í myndinni að það yrðu bara teknir fjórir bestu hljóðfæraleikararnir og hinir skildir út undan. Þannig að það var fyllt upp í hlutverk eftir getu hvers og eins og af því að ég var ekki bestur og ekki næst bestur á gítar, þá þurfti að finna annað hlutverk fyrir mig og ég var bara dansari.“

Varstu látinn dansa í strápilsi?
„Til að krydda sjóvið gekk ekkert upp að koma fram í venjulegum fötum heldur þurftum við að klæða okkur upp á og ég man að ég var töluvert oft í pilsum og einhverjum gærum. Líklega hefur Gunnar Bragi einhvern tíma komið í Miðgarð og ég þá verið í pilsi. Ég efast samt um að það hafi verið það stutt að það hafi verið ósiðlegt. Þessu fylgdi auðvitað töluvert fjör og kannski ekki allt sem borgar sig að segja. Þetta var töluverð útgerð og hljómsveitin átti töluvert af vinsælum lögum en það er gallinn að dansinn sést ekki á hljómplötunum.“

Logi er í forsíðuviðtali í nýjasta tölublaði Mannlífs. Hér er hægt að lesa það í heild sinni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -