Þriðjudagur 19. mars, 2024
1.8 C
Reykjavik

„Er fljót að gleyma því slæma“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það er vissulega samdráttur en veitingastaðir sem eru orðnir tólf og sjö ára standa auðvitað mun betur að vígi en þeir sem eru nýir. Þeir eru orðnir rótgrónir og hafa tryggari rekstrargrundvöll,“ segir Hrefna Sætran, matreiðslumeistari, í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Hér talar Hrefna af eigin reynslu því nýjasta staðnum sem hún var meðeigandi að, Skelfiskmarkaðnum sem komst í fréttir í fyrra vegna tilfellis af matareitrun gesta, var lokað fyrir skömmu. Hún viðurkennir fúslega að það hafi verið áfall.

„Það voru auðvitað margar ástæður fyrir því að hann gekk ekki,“ segir hún. „Matareitrunin var stærsta ástæðan og ýmislegt annað sem við höfðum ekki stjórn á. Janúar var einn versti mánuður í ferðamannaiðnaðinum síðastliðin tíu ár og fyrir svona nýtt fyrirtæki var það mjög erfitt. Það var ekki næg innkoma til að borga niður skuldir og þótt við reyndum að létta undir með því að setja inn í hann peninga frá Fiskmarkaðinum og Grillmarkaðinum, þá gekk það auðvitað ekki til lengdar og við neyddumst til þess að loka staðnum.“

Eigendur Skelfiskmarkaðarins voru fimm og spurð hvort sá hópur hafi einhver áform um að stofna nýjan stað segir Hrefna það ekki inni í myndinni.

„Við þrjú sem eigum Grillmarkaðinn vorum öll eigendur að Skelfiskmarkaðinum og tveir aðrir með okkur sem ekki tengjast neinu öðru hjá okkur og þegar þetta gekk ekki upp hurfu þeir bara til annarra starfa en við þrjú stöndum eiginlega sterkari eftir þessa reynslu,“ segir hún. „Við höfum alltaf verið dálítið sólarmegin í lífinu og það er auðvitað öðruvísi samstarf þegar allt gengur vel heldur en þegar hlutirnir verða erfiðir þannig að það var í rauninni ótrúlega gott fyrir okkar samstarf að ganga í gegnum þessa reynslu og finna hvað við stöndum vel saman. Það tekur auðvitað smátíma að vinna sig út úr svona áfalli en ég myndi segja að það hafi gert okkur að enn nánari vinum en áður.“

Hrefna kýs að líta á jákvæðar hliðar lífsins þrátt fyrir þennan mótbyr.

„Það var áfall hvernig fór með Skelfiskmarkaðinn, ég viðurkenni það, og tekur tíma að jafna sig á því,“ segir hún. „En ég er ofboðslega jákvæð manneskja þannig að ég man eiginlega bara það góða úr lífinu og er fljót að gleyma því slæma. Auðvitað gerist margt í lífinu, hjá mér eins og öllum öðrum, mér fannst til dæmis óskaplega erfitt þegar afi og amma, sem ég hafði verið svo mikið hjá, dóu þegar ég var tólf og þrettán ára og hin amma mín þegar ég var sautján ára, það var erfið reynsla, sérstaklega á þessum aldri að missa fólkið sem var stoð manns og stytta. En það er bara hluti af því að lifa, er það ekki? Ég vann um tíma þegar ég var unglingur í býtibúri á hjartadeild og gjörgæslu Landspítalans og það var mjög þroskandi og gefandi að fá að upplifa að vera með í því. Það breytir svolítið áherslunum hjá manni.“

- Auglýsing -

Sjá einnig: Tekur tíma að jafna sig á áfallinu

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -