Föstudagur 29. mars, 2024
-2.2 C
Reykjavik

„Mér finnst eins og ég sé að fræða fólk í gegnum typpabrandara“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það sem knýr sýninguna áfram er hve spaugilegt það var hve týndur ég var í þessum nýja heimi sem ég hafði svo kjánalega mikla vanþekkingu á þegar ég var í sambandi,“ segir ástralski grínistinn Jonathan Duffy, vanalega þekktur sem Jono. Jono sýnir uppistandið I Wouldn’t Date Me Either á hátíðinni Reykjavík Fringe Festival í byrjun júlí, en verkið fjallar um þann tíma þegar Jono varð einhleypur eftir tíu ára samband og þurfti að læra að deita upp á nýtt. Á sama tíma varð hann þrítugur og fluttist á milli landa. Hann segir heim stefnumóta hafa breyst mikið á þessum áratug sem hann var í sambandi.

Skyndibitamenning í stefnumótaheimi

„Sambönd virtust ekki endast eins lengi því það var keimur af skyndibitamenningu þegar kom að stefnumótum. Þú finnur einhvern, sérð til hvort það virkar eða færð það sem þú vilt og heldur áfram. Ég held að það sé gott og slæmt. Annars vegar held ég að það veiti fólki kraft til að vera minna meðvirkt og ekki byggja sjálfsmat sitt á hæfni sinni í að vera í sambandi. Á hinn bóginn hef ég tekið eftir tísku þar sem fólk byrjar í sambandi en endar það um leið og nýjabrumið fer af, í staðinn fyrir að vinna í hlutunum og gera sambandið sterkara,“ segir Jono. Svo kom að því að Jono fann ástina, en hann og kærasti hans hafa búið saman í hartnært ár.

Jono sýnir I Wouldn’t Date Me Either á Fringe Festival.

„Við pössuðum saman á Tinder, á tímabili þar sem ég var ekki að leita að neinu,“ segir Jono. „Ég var hreinskilinn við hann um allt frá byrjun og gerði meira að segja grín að því að ég væri með pabbalíkama og hryti þegar ég drykki,“ segir sprellarinn, en það er einmitt hans besta ráð til fólks á stefnumótabuxunum – að koma hreint fram.

„Verið hreinskilin. Ekki bara við fólkið sem þið deitið heldur líka ykkur sjálf. Maður ætti alltaf að spyrja sig af hverju maður vill vera í sambandi. Ég held að á vissum tímabilum græði maður á því að vera einhleypur. Ég lærði mest um sjálfan mig þegar ég var einn á báti. Þegar ég tók allar ákvarðanir einn og var sá eini sem bar ábyrgð á öllu sem fór úrskeiðis í mínu lífi.“

Endaþarmsgælur og Grindr

Jono sýnir I Wouldn’t Date Me Either í Secret Cellar 4. og 8. júlí og í Tjarnarbíói 5. og 7. júlí. Jono hefur verið búsettur á Íslandi um nokkurt skeið og á að baki sýningarnar Australiana og An Evening With Jono Duffy. Hann segir nýju sýninguna frábrugðna þeim þótt gestir megi treysta á að Jono verði alveg jafnhispurslaus og hans er von og vísa.

„Ég tala opinskátt um hluti eins og kynlíf og aðra hluti sem eru tabú. Mér finnst fólk njóta þess því það heyrir hluti sem það vildi alltaf fræðast um en var of hrætt að spyrja,“ segir Jono, sem er samkynhneigður en segir að flestir gestir á sýningum hans sé gagnkynhneigt fólk. „Mér finnst eins og ég sé að fræða fólk í gegnum typpabrandara,“ segir hann og hlær. „En ef þú vilt ekki að barnið þitt viti neitt um endaþarmsgælur og stefnumótaappið Grindr, ekki koma með það.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -