Fimmtudagur 28. mars, 2024
1.8 C
Reykjavik

Mun Björgólfur taka við Eimskip?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskipafélags Íslands, mun láta af starfi um næstu áramót. Eimskip sendi tilkynningu þess efnis til Kauphallarinnar seint á sunnudaginn. Mun Gylfi færa sig til Bandaríkjanna eftir áramót og stýra rekstri Eimskips þar og í Kanada ásamt Eimskip Logistics.

Segja má að markaðurinn hafi tekið þessum fréttum vel. Hækkuðu hlutabréf Eimskips um 4,75% í gær.

Líklega hafa margir verið að bíða eftir að sjá breytingar á stjórn og rekstri Eimskips eftir að Samherji keypti 25,3% hlut bandaríska fjárfestingarsjóðsins Yucaipa í félagínu í júlí á þessu ári. Yucaipa eignaðist sinn hlut árið 2009 og tók þátt í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins ásamt skilanefnd Landsbankans. Er talið að Yucaipa hafi hagnast um átta milljarða króna á þessari fjárfestingu sinni.

Gylfi gengið í gegnum ólgusjó

Gylfi var framkvæmdastjóri Eimskips Logistics í Bandaríkjunum á árunum 2000 til 2006. Frá árinu 2006 til 2008 var hann framkvæmdastjóri Eimskip Logistic sem nær yfir flutningastarfsemi Eimskips í Bandaríkjunum og Kanada. Því má segja að hann sé að taka við sambærilegu starfi aftur.

Gylfi tók við sem forstjóri Eimskips í maí árið 2008 eða á erfiðum tímum. Fyrirtækið hafði tekið þátt í yfirtökum á mörgum félögum erlendis frá árinu 2005 með misjöfnum árangri. Baldur Guðnason hafði stýrt þeim sem forstjóri en Magnús Þorsteinsson yfirtók félagið árið 2005 þegar Avion Group varð til. Árið 2003 eignaðist Björgólfur Guðmundsson Eimskip en hann og tengdir aðilar tóku svo aftur við af Magnúsi Þorsteinssyni í lok árs 2007.

Þrátt fyrir að fyrirtækið hafi ekki farið í þrot á sama tíma og ýmis önnur íslensk fyrirtæki í október 2008 var róður þess þó orðinn mjög erfiður. Í júní árið 2009 óskaði félagið eftir nauðasamningum.

- Auglýsing -

Landsbankinn var og er helsti lánveitandi Eimskips. Árið 2009 skuldaði Eimskip og tengd félög bankanum rúmlega 70 milljarða króna. Straumur Burðarás hafði svo lánað 13 milljarða króna vegna kaupa á kanadíska kæli- og frystigeymslufyrirtækinu Versacold.

Við fjárhagslega endurskipulagningu Eimskips árið 2009 tóku Landsbankinn, Yucaipa og skilanefnd Landsbankans við 77% af hlutafé félagsins. Yucaipa fór með 32% hlut en árið 2012 keypti Lífeyrissjóður verzlunarmanna 7% af þeim hlut. Restina keypti svo Samherji af Yucaipa í sumar.

Gríðarleg ítök Samherja

- Auglýsing -

Í maí árið 2011 keypti Samherji eignir útgerðarfyrirtækisins Brim á Akureyri fyrir 14,5 milljarða króna. Var m.a. um að ræða aflaheimildir upp á sex þúsund þorskígildistonn sem Guðmundur Kristjánsson hafði eignast við kaup á Útgerðarfélagi Akureyrar árið 2004. Samherji lagði fram 3,6 milljarða króna sem eigið fé en Landsbankinn lánaði 10,9 milljarða króna.

Árið 2012 keypti Kaldbakur, fjárfestingafélag Samherja 36% hlut í Jarðborunum. Félagið hafði áður verið í eigu Atorku Group, sem Þorsteinn Vilhelmsson, fyrrum eigandi Samherja stjórnaði. Við fall Atorku Group skuldaði félagið og tengdir aðilar Landsbankanum 43 milljarða króna og Glitni tæplega 7 milljarða króna. Íslandsbanki setti Jarðboranir í söluferli árið 2011. Baldvin Þorsteinsson, sonur Þorsteins Más, tók síðan við sem forstjóri Jarðborana á árunum 2013 til 2016.

Árið 2012 eignuðust Samherji og FISK Seafood, dótturfélag Kaupfélags Skagfirðinga, 75% í Olíuverzlun Íslands (Olís). Stærsti lánveitandi Olís er Landsbankinn. Fyrir kaupin höfðu Einar Benediktsson forstjóri þess og Gísli Baldur Garðarsson, verið aðaleigendur þess í gegnum félagið FAD 1830 ehf. en héldu eftir þetta alls 25% hlut.

Í júlí á þessu ári keypti Samherji svo 25,3% hlut bandaríska fjárfestingarsjóðsins Yucaipa í Eimskip. Ekki liggur ljóst fyrir hvernig þau kaup voru fjármögnuð. Þó verður að teljast líklegt að Landsbankinn hafi lánað fyrir þeim að einhverju leyti. Talið er að Þorsteinn Már og Jakob Bjarnason, starfsmaður LBI eignarhaldsfélags (gamla Landsbankans) séu nánir og ná tengsl þeirra langt aftur. Þó er ljóst að líklega stendur enginn innlendur fjárfestir betur en Samherji. Þannig nam eigið fé fyrirtækisins 90 milljörðum króna í lok árs 2017 og var það með um 70% eiginfjárhlutfall.

Hvað ætlar Samherji sér með Eimskip?

Nú í september var Baldvin Þorsteinsson gerður að stjórnarformanni Eimskips. Hann situr einnig í stjórn Olís. Áhugavert er að velta fyrir sér hvað vakir fyrir Samherja með fjárfestingu sinni í Eimskipi. Félagið hefur ekki staðið undir væntingum líkt og sjá má á gengi hlutabréfa félagsins í Kauphöll. Bréf félagsins fóru hæst í um 340 í nóvember 2016 en hafa frá þeim tíma lækkað um nærri 40%. Við lok markaða í gær var gengi félagsins 209,5.

Gott gengi Samherja í gegnum árin hefur m.a. verið falið í því að Þorsteinn Már er gríðarlega góður rekstrarmaður og nær að halda rekstrarkostnaði og yfirbyggingu í lágmarki. Hins vegar er spurning hvort hægt sé að yfirfara sama stjórnunarstíl yfir á önnur fyrirtæki. Þannig þótti Baldvin Þorsteinsson nokkuð umdeildur sem forstjóri Jarðborana.

Þeir aðilar sem rætt var við á markaði töldu líklegt tækifæri væru í því að skipta út stjórnendum hjá Eimskip, nýta fé þess betur, þróa vöruhótel þess enn frekar svo nokkuð sé nefnt. Hér þarf auðvitað líka að hafa í huga að starfsemi Eimskips í dag er allt önnur en fyrir áratug síðan. Má í því samhengi nefna að árið 2007 námu heildareignir þess um 200 milljörðum króna en nema í dag 65 milljörðum króna. Veltan í dag er þó einungis um 10% minni en þegar best var eða rúmlega 90 milljarðar króna. Markaðurinn telur þó almennt séð að Eimskip sé ekki spennandi fjárfestingakostur. Því verður áhugavert að sjá hvaða breytingar verða með innkomu Samherja.

Beðið eftir nýjum forstjóra

Síðan er auðvitað lykilspurningin hver verður næsti forstjóri fyrirtækisins. Þar eru fjórir kostir taldir líklegir. Í fyrsta lagi að Baldvin Þorsteinsson verði gerður að forstjóra þess.

Björgólfur Jóhannsson

Annað nafn sem hefur verið nefnt er Björgólfur Jóhannsson sem lét af störfum sem forstjóri Icelandair Group fyrr á árinu. Hann þykir náinn Samherja. Hann var framkvæmdastjóri nýsköpunar- og þróunarsviðs Samherja hf. á árunum 1996-1999. Þá var hann forstjóri Síldarvinnslunnar á Neskaupstað frá 1999 til 2006 en Samherji fer með um 45% hlut í Síldarvinnslunni. Frá 2006 til 2008 starfaði hann sem framkvæmdastjóri Icelandic Group en á þeim tíma var Finnbogi Baldvinsson, bróðir Þorstein Más forstjóri fyrirtækisins. Einnig sat Björgólfur í mörg ár í stjórn Landssambands íslenskra útgerðarmanna (LÍÚ) forvera SFS. Björgólfur er orðinn 63 ára gamall og tók nýlega við sem stjórnarformaður Íslandsstofu.

Þriðji valkosturinn sem álitsgjafar Mannlífs hafa nefnt til sögunnar Jón Björnsson fyrrverandi forstjóri Festar en hann lét af því starfi nýlega.  Þá er mögulegt að einn af valkostum stjórnar Eimskips sé að ráða erlendan forstjóra með mikla reynslu af flutninga- og kælistarfsemi.

Eins og áður sagði verður áhugavert að fylgjast með rekstri Eimskips á næstunni.

Mynd / Eimskip

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -