Fimmtudagur 28. mars, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Nýr spurningaþáttur á RÚV leysir Útsvar af hólmi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Með vorinu verður spurningaþátturinn Útsvar að öllum líkindum kvaddur og í staðinn hefst þátturinn Kappsmál sem Bragi Valdimar Skúlason og Björg Magnúsdóttir munu leiða ásamt glás af góðu fólki. Við spurðum Braga út í nýja þáttinn.

„Þetta eru í raun orðaleikir af ýmsum gerðum. Við ætlum eiginlega bara að leika okkur að málinu með öllum tiltækum ráðum,“ segir Bragi Valdimar sem hefur sannarlega mörg starfsheiti og er tónlistar-, auglýsinga-, orðaleikja-, þátta- og textagerðarmaður. „Við ætlum að fá allskonar fólk til að taka þátt. Héðan og þaðan af öllum mögulegum stærðum og gerðum. Skilyrðið er að hafa gaman af málinu og vera óhrædd við að takast á við það.“

Er það rétt að Útsvarið sé að hætta og þessi þáttur muni koma í hans stað? „Kappsmál fer ekki í loftið fyrr en næsta vor. En ef vel gengur geri ég ráð fyrir að þessi þáttur taki alfarið yfir dagskrá RÚV,“ svarar Bragi og við spyrjum hann þá hvort hann óttist ekki að aðdáendur Úrsvarsins verði brjálaðir við tíðindin. „Það eru hvort eð er allir alltaf brjálaðir. Hvort sem þeir horfa á Útsvar eða ekki,“ segir hann þá og hlær.

Húmor fyrir tungumálinu mikilvægur

Bragi segir að landinn hafi gríðarlegan áhuga á tungumálinu og sterkar skoðanir. „Aðallega held ég að það sé vegna þess að við getum notað það til að hugsa á í friði. Flestir vilja passa vel upp á tunguna og fara vel með hana. En það er auðvitað líka mikilvægt að pota aðeins í hana og teygja í ýmsar áttir.“

Aðspurður segir hann mikilvægt að fjalla um íslenskuna eins og gert var í þáttunum Orðbragð og gert verður í Kappsmáli. „Já, tvímælalaust. Við Brynja og Konni lögðum alltaf áherslu á að skoða málið á skemmtilegan og opinn hátt, forðast predikanir og vera hæfilega forvitin, helst hnýsin. Brynja verður okkur einmitt til ráðgjafar í þessum þáttum, en hún er að sprengmennta sig í útlandinu þessi misserin.“

- Auglýsing -

Má gera grín að móðurmálinu og er það kannski mikilvægt til að ná til fólks? „Það er bráðnauðsynlegt, þetta er okkar eina móðurmál og það væri verra ef okkur færi að finnast það leiðinlegt. Mér hefur reyndar ekki enn þá tekist að finna neitt sérstaklega fyndið við afturbeygðar sagnir.“

Þessa dagana er verið að þróa þáttinn, finna leiki, prófa þá og finna út hvað virkar en framleiðslufyrirtækið Skot vinnur þetta með RÚV. Fram undan er hins vegar jólavertíðin. „Akkúrat núna er jólavertíð Baggalúts að bresta á með tilheyrandi jólahoppi og híi á átján tónleikum í Háskólabíói. Og fyrst spurt er, þá ætlum meðal annars að gefa út nýtt æsispennandi jólalag með Svölu Björgvins, sem dettur í hús á morgun. Það heitir svo mikið sem SEX,“ segir Bragi Valdimar að lokum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -