Miðvikudagur 24. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

„Ólýsanleg tilfinning að sjá regnbogann alls staðar á lofti“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hinsegin dagar fagna 20 ára afmæli í ár. Gunnlaugur Bragi Björnsson, varaborgarfulltrúi og formaður Hinsegin daga, segir að af því tilefni og þess að 50 ár skuli vera liðin frá Stonewall-uppreisninni svokölluðu komi hátíðarhöldin í ár til með að verða umfangsmeiri en áður.

 

„Í ár erum við að fagna 20 ára afmæli Hinsegin daga, þ.e. samfelldri tveggja áratuga sögu hinsegin hátíða í Reykjavík og minnumst einnig þess að 50 ár eru liðin frá Stonewall-uppreisninni í Kristóferstræti í New York, en upphaf Pride-hátíða er gjarnan tengt við þann atburð,“ segir hann og bætir við að vegna þessara tvöföldu tímamóta verði dagskráin lengri. Þannig standi hún í tíu daga, frá 8.-17. ágúst, og fjölbreyttir viðburðir í boði, dragkeppni, tónleikar, uppistand og margt fleira.

Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga.

Gunnlaugur segir að á þessum viðburðum verði Stonewall að sjálfsögðu minnst eins og hægt er og horft til þess árangurs sem náðst hefur á síðustu 50 árum en einnig á þeim 20 árum sem Hinsegin dagar hafa verið haldnir í Reykjavík. „Það hefur gríðarlega margt breyst hvað varðar réttindi og sýnileika hinsegin fólks á undanförnum árum, hvort sem við horfum til þeirra 50 ára sem liðin eru frá Stonewall-uppreisninni, frá því að Samtökin ’78 voru stofnuð árið 1978 eða til þeirra 20 ára sem Hinsegin dagar hafa verið haldnir í Reykjavík. Sýnileiki hinsegin fólks hefur stóraukist, umburðarlyndi og frelsi sömuleiðis. Þá hafa fjölmargar lagalegar úrbætur verið gerðar hér á síðustu árum og áratugum, nú síðast með nýjum lögum um kynrænt sjálfræði sem samþykkt voru fyrr á árinu.“

Stærsta útihátíð landsins

Hann segir að hvað Hinsegin daga varði hafi hátíðin vaxið og dafnað svo um munar. „Árið 1999 var haldin Hinsegin helgi á Ingólfstorgi, ári síðar gengu nokkur þúsund hina fyrstu gleðigöngu en í dag sjáum við margra daga mannréttinda-, menningar- og marbreytileikahátíð sem endar með stærstu útihátíð landsins,“ segir hann glaður í bragði og getur þess að sýnileiki Hinsegin daga og sá mikli gestafjöldi sem hátíðina sæki hafi spurst víða, langt út fyrir landsteinana. Hinsegin dagar séu til að mynda stundum nefndir „the biggest small Pride in the world“ úti í heimi enda þekkist ekki annars staðar að upp undir þriðjungur þjóðar mæti til slíkra hátíðahalda hinsegin fólks.

Einstakt að upplifa alla þessa samstöðu

- Auglýsing -

Sjálfur segist Gunnlaugur hafa séð fyrstu Gleðigönguna árið 2010. Tveimur árum síðar hafi hann gerst sjálfboðaliði á Hinsegin dögum og svo tekið sæti í stjórn Hinsegin daga árið 2013, fyrst sem gjaldkeri til ársins 2018 og formaður eftir það. Það hafi þó ekki verið fyrr en 2015 sem hann gekk sjálfur í fyrsta skipti en það ár tóku fulltrúar stjórnar Hinsegin daga í fyrsta sinn formlega þátt í Gleðigöngunni.

„Stóri dagurinn er svo alltaf ákveðið gæsahúðarmóment en um leið svakalegt spennufall.“

Sú hefð hefur haldist frá þeim tíma og hann því gengið fjórum sinnum hér heima en auk þess í göngunni í Kaupmannahöfn og í New York. Stemningin í Reykjavík í kringum Hinsegin daga og Gleðigönguna sé ansi mögnuð og í raun engu lík.

„Stóri dagurinn er svo alltaf ákveðið gæsahúðarmóment en um leið svakalegt spennufall. Það er bara ólýsanleg tilfinning að ganga um miðborgina, sjá regnbogann á lofti alls staðar og alla þá gleði og samstöðu sem myndast.“

- Auglýsing -

Gleðigangan tímaskekkja?

Gunnlaugur segist reyndar oft vera spurður að því hvort Gleðigangan og Hinsegin dagar skipti enn máli, hvort þetta sé ekki orðið tímaskekkja. Hvort tveggja sé enn mjög mikilvægt því þótt margt hafi áunnist megi margt betur fara. „Í ár ræðum við til dæmis stöðu hinsegin fólks á atvinnumarkaði sem lítið hefur verið rætt hér ólíkt því sem gerist víða í nágrannalöndum okkar. Enn heyrum við af ungu fólki sem fær ekki að vera það sjálft í foreldrahúsum auk þess sem hinsegin ungmenni eru líklegri til sjálfskaða en jafnaldrar þeirra. Enn fáum við fréttir af ofbeldi, mismunun og öráreiti sem hinsegin fólki verður fyrir hérlendis. Það er hlutverk Hinsegin daga og Gleðigöngunnar að benda á það sem betur má fara um leið og við fögnum því sem hefur áunnist.“

Umsjón / Roald Eyvindsson og Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -