Fimmtudagur 28. mars, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Eru ekki allir í stuði?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Síðast en ekki síst

Ég reyni að vera stuðmegin í tilverunni. Mér finnst það skemmtilegra. Ég heyrði lýsingu á íþróttaleik á dögunum. Þar var talað um að leikmaður væri í feiknastuði og það væri góð stemning á vellinum. Þessar lýsingar nægðu til að ég vissi að það væri gaman og gengi vel hjá okkar mönnum. Stuð og stemning, það er aldeilis eitthvað ofan á brauð. Þegar við erum hamingjusöm verða bíómyndir frábærar, fjöllin verða fallegri þegar maður er á ferð og uppáhaldslagið kemur í útvarpið. Mesta bull verður að heimspekilegum sannleik þegar það hrýtur af vörum ástvina og félaga.

Um helgina fór ég í hjólatúr og stoppaði við trjálund sem bókstaflega iðaði af stuði. Í alvöru talað. Ég hef aldrei heyrt jafnháværan fuglasöng. Þarna inni í trjánum var auðheyrilega krökkt af smáfuglum í svaka stuði. Þeir eru að halda upp á þetta góða sumar og kveðjast áður en þeir flögra hver í sína áttina hugsaði ég. Ég bókstaflega heyrði ekki í sjálfum mér hugsa fyrir fuglasöng. Þetta voru eiginlega öskur. Það var eins og það væri eitthvað að.

Kannski voru þeir að syrgja fallna félaga eða voru logandi hræddir við mink, uglu eða þriðja orkupakkann. Stemningin gjörbreyttist, ég hætti að brosa og sólin hvarf á bakvið ský. En samt ekki. Þetta gerðist allt í hausnum á mér. Fuglarnir voru bara í sínum fíling. Ég ákvað að þeir væru hressir og þá varð söngurinn aftur fallegur og enginn dó.

Stemningin, stuðið og sannleikurinn er ansi oft bara í hausnum á okkur. Við getum talað okkur niður eða peppað upp stuðið. Það er margt að í þessum heimi en margt er líka býsna gott. Við getum haft áhrif á heiminn út frá því hvernig við lítum á hlutina og hvaða stemningu við kveikjum. Það er töluverð ábyrgð en líka heilmikið vald. Eru ekki allir í stuði?

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -