Föstudagur 29. mars, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Fegurðin kemur innan frá

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 37. tölublaði Vikunnar

Þótt við reynum að neita því er það engu að síður staðreynd að útlit annarra hefur mikil áhrif á það hvernig við komum fram við þá. Margar rannsóknir hafa sýnt að laglegt fólk kemst upp með fleira og nær oft lengra í krafti fríðleikans. Fegurðin ein dugir hins vegar sjaldnast til að viðhalda stöðunni ef engir fleiri kostir eða hæfileikar búa með manneskjunni.

Til eru mörg orðtök sem vara við að dæma út frá útlitinu einu saman og eitt þeirra er yfirskrift þessa pistils. Nefna má líka málsháttinn, oft er flagð undir fögru skinni og fallvölt reynist fegurðin. Og vissulega er þetta allt rétt. Hin hliðin á peningnum er hins vegar sú að oft vanmetum við fallega einstaklinga, gerum einfaldlega ráð fyrir að þeir séu ekki annað en fögur framhlið en fyrir innan, ekki neitt.

Mér hefur alltaf fundist yfirborðskennt að halda keppni i í fegurð vegna þess að enginn ræður erfðum sínum. Það er ekki hægt að þjálfa upp aukið samræmi í andliti eða fegurri varir. Vissulega er margt fleira lagt til grundvallar í fegurðarsamkeppnum nútímans og einstaklingarnar þurfa að sýna að innra með þeim sé einnig að finna eitthvað verðmætt. Ég get heldur ekki fyllilega sætt mig við í ljósi sögunnar að konur séu vegnar og metnar á þennan hátt og raðað í röð eftir því hver fellur best að útlitskröfum hvers tíma.

Um langt skeið í mannkynssögunni hafa þær nefnilega verið eins og hver önnur vara, verðmætari ef þær uppfylla fegurðarstaðlana en útskúfaðar geri þær það ekki. Þetta er eitthvað sem ég vil svo gjarnan sjá breytast. En þrátt fyrir þetta vilja konur taka þátt í þessum keppnum og ef ég á að vera trú þeirri hugsjón minni að allar konur eigi val og það sé ekki mitt að fordæma þeirra leið þótt ég hefði kosið aðra verð ég að styðja þær sem þetta gera.

Með vissum rökum má líka halda fram að öll keppni manna á milli sé undirseld sömu lögmálum. Er til dæmis sniðugt að keppa í því hver er fljótastur að hlaupa? Erfðir hafa einnig áhrif á hve miklum árangri menn ná þar. Innan íþróttaheimsins þrífst einnig margvísleg spilling.

„Um leið og menn slasast eða fara að eldast er þeim sparkað út. Þeir eru ekki lengur verðmæt vara.“

- Auglýsing -

Ungt fólk gengur þar kaupum og sölum og á þeim lifa umboðsmenn, þjálfarar og ríkir eigendur íþróttafélaga. Um leið og menn slasast eða fara að eldast er þeim sparkað út. Þeir eru ekki lengur verðmæt vara. Hver er sjálfsmynd þessa fólks þegar líkamlegi styrkurinn er frá því tekinn? Ríkir þar ekki sama hugsun og gagnvart fegurðinni, nefnilega að dást að hæfninni meðan hún endist en meta manneskjuna að baki einskis.

Að því sögðu og hvað sem því líður þekki ég ekki heim fegurðarsamkeppna nægilega til að dæma og ég veit að þær stúlkur sem skreyta forsíðu Vikunnar núna eru magnaðar hver á sinn hátt. Ég óska þeim öllum velgengni í komandi keppnum og alls hins besta í framtíðinni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -