Clicky

 

Öllu er afmörkuð stund

Leiðari úr 23. tölublaði Vikunnar

 

Í predikaranum í Biblíunni er afskaplega fallegur texti um að allt í lífinu eigi sér sína afmörkuðu stund. Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma, að gróðursetja sinn tíma og að rífa það upp, sem gróðursett hefur verið og að gráta hefur sinn tíma og sömuleiðis að hlæja. Við þekkjum þetta en þótt stundin sé afmörkuð er ekki þar með sagt að hún verði eingöngu að vera helguð einhverju einu. Það er mögulegt að syrgja og gleðjast á sama tíma, elska og sakna í senn og sá um leið og maður uppsker.

Þegar ég las viðtalið við Brynju Andreassen Sigurðardóttur fann ég einmitt svo sterkt fyrir því hvernig svo margvíslegar tilfinningar og aðstæður geta skapast í lífi fólks, allt á sama tíma. Brynja missti fyrri mann sinn, aðeins 28 ára, úr krabbameini. Þau áttu unga dóttur og þeirra mæðgna beið það verkefni að vinna úr sorginni. Það kom Brynju gersamlega í opna skjöldu þegar vinur manns hennar og samnemandi í flugvirkjanámi bankaði upp á og bauð aðstoð að þau urðu fljótlega ástfangin. Enn í dag saknar Brynja Nonna og hugsar til hans með ástúð og hlýju. Á sama tíma hefur ást þeirra Sverris vaxið og styrkst þótt margir hafi talið þau bindast hvort öðru alltof snemma. Að sorginni hafi ekki verið gefinn sinn tími og því ávísun á einhvers konar erfiðleika.

Það gekk ekki eftir, enda var raunin sú að þau syrgðu bæði Nonna, hann góðan vin og félaga en hún maka og vin. Þau gátu þess vegna styrkt hvort annað og unnið úr mörgu saman. Þetta segir okkur að þótt öllu kunni að vera afmörkuð stund er hvert einstakt tilvik einmitt það, einstakt. Hver og einn finnur sína leið til að lifa með og vinna úr hlutunum. Það er mönnum eðlislægt að flokka og reyna að koma skipulagi á alla hluti í umhverfinu. Ef við gerðum það ekki yrði glundroðinn líklega of yfirþyrmandi en í raun er vonlaust að koma böndum á óreiðuna. Þess vegna er kannski best að lofa öllu að hafa sinn gang, marka því stund með því móti að leyfa því að gerast og fagna því sem að höndum ber.

AUGLÝSING


Þetta er einmitt boðskapur Brynju. Hún segir að veikindi og andlát Nonna hafi kennt sér að lífinu ber að lifa núna en ekki að bíða þess stöðugt að réttu aðstæðurnar skapist fyrir að láta draumana rætast.

„Það kom Brynju gersamlega í opna skjöldu þegar vinur manns hennar og samnemandi í flugvirkjanámi bankaði upp á og bauð aðstoð að þau urðu fljótlega ástfangin.“

Sjá einnig: „Mörgum fannst þetta óviðeigandi“

Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

Ekki missa af þessum

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is