Áramóta hope

Flest okkar hafa líklega einhvern tímann á ævinni keypt sér árskort í líkamsrækt. Gaman væri að sjá meðaltalsnotkun á slíkum kortum. Líklega kæmi það okkur verulega á óvart hvað þessi kort eru í raun lítið notuð.

Eru ekki örugglega allir búnir að setja sér áramótaheit sem hafa alltaf klikkað hingað til? Hvaða rugl er þetta alltaf í okkur að telja okkur trú um að við séum eitthvað að fara að breytast af því að búið er að hækka ártalið um einn staf. Og hvernig stendur á því að okkur gengur svona illa að ná þessum markmiðum okkar?

Þegar ég var barn og unglingur var maður alltaf á fullu í allskonar íþróttum þar sem yfirleitt var um að ræða hópstarf með jafnöldrum sínum. Þá var ógeðslega gaman að stunda íþróttir og sérstaklega þegar maður var jafnvel að keppa með bestu vinum sínum.

Og hvernig stendur á því að við hættum að æfa hópíþróttir með vinum okkar og veljum í staðinn að gera samning við kölska sjálfan því erfitt er að finna aðra samlíkingu yfir það helvíti sem árskort í líkamstækt eru. Um hver mánaðamót sér fólk á færsluyfirlitinu rukkun fyrir árskortinu og fær enn þá meira samviskubit yfir að vera ekki að mæta í ræktina. Svona skömm sem bitnar á þér andlega, líkamlega og fjárhagslega og gerir ekkert annað en að brjóta okkur niður.

AUGLÝSING


Eftir að hafa sjálfur margoft lent á þessum stað með honum kölska vini mínum verð ég að segja að það eina sem hefur virkað fyrir mig undanfarin ár eru einhvers konar hópar sem hittast nokkrum sinnum í viku og stunda saman íþróttir. Þá er maður með fyrir fram ákveðin tíma sem á að hittast á og þegar þú mætir ekki hringir einhver í þig eða skilur eftir skammarorð á veggnum hjá þér á Facebook. Undanfarin áratug hef ég náð að festa mig í þremur mismunandi hópum.

Fyrsta var Bootcamp sem var einhvers konar forveri að því Crossfitæði sem hefur verið í gangi á Íslandi undanfarin ár. Þar mætti maður þrisvar í viku í klukkutíma í senn og lét þjálfara öskra yfir sig að hunskast í 100 armbeygjur í viðbót. Annars fengi maður enn frekari refsingu. Þetta virkar mjög vel. Maður slekkur bara á heilanum í klukkustund og gerir nákvæmlega það sem manni er sagt að gera. Og kemst fljótlega í geggjað form. Mæli samt ekki með þessum öskrum neins staðar annars staðar. Sérstaklega ekki á vinnustöðum.

Þegar ég flutti til Þýskalands í fimm ár þurfti ég að hætta í Bootcamp. Þá fór ég að hugsa hvernig ég gæti komið mér sem best inn í þýskt samfélag. Á unglingsaldri hafði ég æft skíði. Þegar snjóflóð eyðilagði hins vegar allar skíðalyfturnar fórum við nokkrir vinirnir að æfa handbolta. Líklega vorum við ekki þeir flinkustu en flest allar hópíþróttir með vinum sínum eru skemmtilegar. Hvort sem maður er sá besti eða versti á Íslandi.

Ég fór því að spila handbolta í neðri deildum í Þýskalandi. Varð meira segja svo frægur að spila fyrir Werder Bremen. Var reyndar ekkert að minnast á það við vini mína á Íslandi að við værum í 7. deild. Í Þýskalandi eru 1000 sinnum fleiri iðkendur í handbolta en á Íslandi og allir pabbar með bumbu fá að æfa og spila með sínu liði. Og Þjóðverjar eru auðvitað skipulagðari en allt sem þekkist. Því fékk maður excelskjal í hendurnar í upphafi tímabils hvenær ætti að mæta með bjórkassa. Slíkt þurftu allir leikmenn að gera einu sinni yfir tímabilið. Ef þú gleymdir því þá voru öskrin í Bootcamp himnasæla í samanburði við þýsku blótsyrðin.

Eftir að hafa flutt heim frá Þýskalandi hef ég aðallega reynt að festa mig í hlaupahópi. Það er frábær afþreying og þó hlauparar séu ekki alltaf geðveikt töff í þessum neongulu vestum sínum þá er þetta besta fólk. Hlauparar setja sér einmitt oft markmið í upphafi árs um hvaða maraþon eigi að hlaupa. Svo tala þau út í hið óendanlega um hvaða tíma þau ætli að ná í maraþoninu. Það er frægur brandari sem segir. Hvernig þekkir þú maraþonhlaupara? Það er auðvelt. Þau tala ekki um neitt annað en hlaup. Líklega er þetta að einhverju leyti rétt. Það virkar hins vegar mun betur fyrir mig að vera í hlaupahóp í stað þess að vera að gaufa í þessu sjálfur.

Því segi ég einfaldlega. Farið og finnið ykkur einhvern hóp. Hringið í vini og vinkonur ykkar og fáið þau til að slást í för með ykkur. Hættið að reyna að gera þetta ein. Hópstarfið virkar miklu betur og er auk þess miklu skemmtilegra. Gleðilegt nýtt ár!

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni