Föstudagur 19. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Rannsakaði pólitískt grín á Íslandi: „Viðmælendur mínir voru allir sammála því að allt grín er pólitískt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég hef alltaf haft rosalega gaman að gríni og hvernig það getur verið notað á ýmsan hátt,” segir Fanndís Birna Logadóttir um lokaverkefn sitt í stjórnmálafræði. Fanndís rannsakaði pólitískt grín og áhrif þess. Í verkefnipnu skoðaði hún Áramótaskaupið og Spaugstofuna sérstaklega.

„Ég var sérstaklega að skoða hvernig grín gat haft áhrif á stjórnmál og hegðun stjórnnmálamanna.” Hún tekur það fram að hún stefni sjálf ekki út í stjórnmál. „Báðir þættir hafa mikla sögu” segir Fanndís en fyrsta sería Spaugstofunnar kom út árið 1986. Áramótaskaupið var sett á laggirnar 1966 og er meðal vinsælustu sjónvarpsþátta á Íslandi með meira en 90% uppsafnað áhorf á hverju ári. „Þetta fyrirfinnst ekki í öðrum löndum.”

Allt grín er pólitískt

Fanndís bendir á að margir halda að pólitík snúist bara um flokkapólitík. Það sé hins vegar ekki satt. „Pólitík er í rauninni allt sem við gerum.” Hún segir það að sleppa gríni sé líka pólitískt. „Viðmælendur mínir voru allir sammála því að allt grín er pólitískt.” Fanney tók viðtal við fimm einstaklinga fyrir ritgerðina sína. Ari Eldjárn, Venný Sara Knútsdóttir og Edda Björgvins voru viðmælendur hennar úr Áramótaskaupinu. „Svo talaði ég við Karl Ágúst [Úlfson] og Örn Árnason frá Spaugstofunni.”

„Ég ætlaði fyrst að fara í aðra átt, hvort að það mætti gera grín að stjónmálum” segir Fanndís. Hún spurði viðmælendur hvort það væri eitthvað sem mætti ekki. „Flest voru þau sammála um að það væri ekkert sem má ekki gera grín að, þú verðir bara að finna rétta pólinn á því.”

Grínið snertir stundum viðkvæma punkta

Áramótaskaup 1994: Skjáskot af atriðinu umdeilda

Áður fyrr var staðan þó önnur en í tíð Vigdísar Finnbogadóttur var bannað að gera grín að forsetaembættinu. „Það mátti ekki einu sinni sýna hana í Spaugstofunni og Áramótaskaupinu” segir Fanndís og bætir við; „Þegar Ólafur Ragnar kemur þá breytist það. Það er kannski vegna þess að hann var stjórnmálamaður áður.” Hún rifjar upp viðtalið sitt við Eddu um Skaupið ´94; „Þá sýndu þeir atriði þar sem Vigdís er að panta pítsu á Bessastaði og það varð bara allt vitlaust. Leikstjórinn sjálfur fékk símtal frá Vigdísi.”

- Auglýsing -

Atriðið má sjá hér.

Fanndís segir Áramótaskaupið vera ákveðinn spéspegill. „Það er verið að gera upp árið. Algjörlega fáránlegt að ætlast til þess að pólitísk málefni séu ekki tekin fyrir þar.”

Spaugstofan kærð fyrir guðlast

- Auglýsing -
Skjáskot úr Páskaþætti Spaugstofunnar 1997

Trú var annað málefni sem Fanndís skoðaði í tengslum við grín og nefnir að Spaugstofan var kærð fyrir guðlast árið 1997. Páskaþáttur sem var sýndur um vorið sama ár braut gegn 125. grein almennra hegningarlaga um guðlast:

Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum. Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.

Ólafur Skúlason, þáverandi biskup lýsti yfir óánægju sinni í Morgunblaðinu 2. apríl 1997. „Þetta var hvorki fyndið né viðeigandi, og allra síst á þessum tíma, laugardag fyrir páska, að gera gys að kvöldmáltíðinni, þegar vitað er að fermingarbörnin eru að horfa.“ Karl Ágúst Spaugstofumaður kom skoðun sinni á framfæri í blaðinu. „Við höfum ekki annað en gott af því að hver og einn skoði hug sinn í þessum málum og mín skoðun er sú að guð hafi húmor og fyrir mitt leyti er ég sáttur við þáttinn,“

Fréttin Morgunblaðsins 2. apríl 1997

Spaugstofumenn voru yfirheyrðir hver af öðrum af Ríkissaksóknara fyrir þáttinn líkt og RÚV greindi frá. Rannsóknin stóð yfir tæpa fimm mánuði en í ágúst 1997 ákvað saksóknari að fella niður kæruna. Grein almennra hegningarlaga um guðlast var afnumin í maí 2015.

„Ég spurði þá hvort það væri eitthvað sem þau sæju eftir eða hefðuð viljað gera betur,” segir Fanndís. Svarið var einfalt, það er alltaf hægt að gera betur þau hefðu alltaf gert sitt besta. Hún nefnir að gríninu fylgir stórt og erfitt hlutverk. „Margir sem hafa persónulegar skoðanir. Þetta eru bara manneskjur sem eru að skrifa til dæmis Skaupið, með eigin skoðanir og tilfinningu fyrir hvað megi og hvað megi ekki,” segir hún og bætir við; „það er erfitt að gera öllum til geðs.”

Gríninu fylgir ákveðin hlutverk

„Ég skoðaði líka kynhneigð og kynferðisofbeldi. Fólk er byrjað að taka það fyrir í þessu ljósi.” Hún tekur það fram að ofbeldi er að sjálfsögðu ekkert grín en það fylgi því ákveðin losun að taka þessa hluti fyrir. „Grínið hjálpar okkur að komast í gegnum hlutina.” Aðspurð hvort henni finnist vettvangurinn vera frjálslegri segir hún hann bara vera öðruvísi. „Mörg málefni sem má snerta á núna. Grínistar hafa líka fundið leiðir til að gera grín að hlutum sem áður var ekki gert grín að,” segir Fanndís og bætir við að hlutverk grínista hafi breyst mikið.

„Flest sem ég talaði við hafa alltaf sagt að grínið hafi tilgang.” Grínistar nota til dæmis uppistand sem ákveðinn vettvang til að skýra málefni líðandi stundar. „Þeir nota grínið til að útskýra flókið málefni fyrir almenningi. Mál sem að krefjast kannski að þú þekkir söguna, ná að kjarna það ágætlega svo fólk viti hvað er í gangi.” Spaugstofan og Áramótaskaupið hafi orðið pólitískari fyrir vikið, sérstaklega í kringum hrunið.

„Maður þarf að skilja hvað hefur átt sér stað. Skilja hvað er verið að grínast með,” segir Fanndís og bætir við að margt í Spaugstofunni og Skaupinu hafi hún ekki skilið. „Ég hafði ekki upplifað það sjálf, ég þekkti ekki aðstæðurnar.” Hún nefnir að grínið í eðli sínu eldist ekki vel. „En það á kannski ekki að gera það.”

Grínið er alltaf að breytast

„Ég held að það sé ótrúlega erfitt að vera grínisti. Fólk mun alltaf hafa eitthvað að segja um grínið sem þú gerir,” segir Fanndís og bætir við að samfélagið sé orðið almennt umburðarlyndara. Þá skiptir líka máli að taka réttan pól á málefninu. „Þú mátt gera grín að öllu ef þú finnur rétta pólinn.”

Það vakti athygli Fanndísar hversu mikil ritskoðun var áður fyrr. „Fólk er komið með mikið þykkari skráp. Grínið er stanslaust að þróast með samfélaginu,” segir hún og finnst áhugavert að skoða hvernig grínið getur orðið. Það sé þó erfitt að spá fyrir um það.

Fanndís kemur aðeins inn á íslenskan húmor og líkir honum við Klovn og Office. „Húmorinn er svolítið vandræðalegur.” Íslendingar hlægi að vandræðalegum aðstæðum. „Ég myndi segja að þetta væri einkennandi fyrir íslenskan húmor,” segir hún og kemur inn á smæð Íslands. „Það þekkja allir alla í gegnum einn eða tvo liði. Við erum bara svolítið skrítin.”

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -