Þriðjudagur 16. apríl, 2024
0.1 C
Reykjavik

Róandi að hnýta eftir amstur dagsins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mágkonurnar Ninna Stefánsdóttir og Íris Dögg Einarsdóttir sameinuðu krafta sína og gáfu út bók um hnýtingu macramé. Bókin er ekki aðeins handavinnubók heldur einnig falleg ljósmyndabók sem gaman er að hafa á sófaborðinu.

Bókin Macramé, hnútar og hengi eftir Ninnu Stefánsdóttur og Írisi Dögg Einarsdóttur er nýkomin í verslanir. Í þeirri bók er farið yfir undirstöðuhnúta í macramé og sýnt skref fyrir skref hvernig hægt er að hnýta glæsileg vegghengi og dásamleg blómahengi. Í bókinni er einnig hugmyndakafli sem veitir innblástur.

Ninna er stofnandi MARR. Hún hefur undanfarin ár vakið athygli fyrir handgerðar macramé-vörur sem hún gerir og vinsæl námskeið sem hún heldur í Litlu Hönnunar Búðinni.

Í bókinni er að finna skýrar leiðbeiningar, teikningarnar eru eftir Rakeli Tómasdóttur.

Fyrir nokkrum mánuðum ákvað hún og mágkona hennar, ljósmyndarinn Íris, að sameina krafta sína og gefa út bók. „Okkur langaði til að búa til bók sem væri ekki bara handavinnubók heldur líka falleg ljósmyndabók sem kæmi vel út á sófaborðinu.“ Þess má geta að til viðbótar við fallegar ljósmyndir eftir Írisi má einnig finna útskýringateikningar eftir Rakel Tómasdóttur í bókinni.

Skemmtilegast að gera tilraunir

„Með bókinni kennum við fólki grunnhnútana og svo gefum við fjórar uppskriftir til viðbótar við hugmyndakafla. Að mínu mati er mikilvægt að veita fólki innblástur líka því það er óþarfi að fara nákvæmlega eftir uppskrift, það er nefnilega skemmtilegast að gera tilraunir og prófa sig áfram. Fólk getur alltaf aðeins meira en það heldur,“ útskýrir Ninna sem hefur kennt fólki á öllum aldri að hnýta macramé. Hún segir alla geta náð tökum á macramé.

Að mínu mati er mikilvægt að veita fólki innblástur líka því það er óþarfi að fara nákvæmlega eftir uppskrift.

- Auglýsing -

„Fólk er kannski svolítið vantrúað í upphafi en svo fer það af stað, nær tökum á grunnhnútunum og þá kviknar á hugmyndafluginu. Það er gaman að sjá það. Ég hef allavega aldrei hitt manneskju sem ekki getur hnýtt. Og þegar ég hef verið að kenna á námskeiðum þá er skemmtilegast að sjá að í lok námskeiðsins er enginn einn nemandi með eins stykki.“

Áhugamál sem vatt upp á sig

Í bókinni er að finna fallegar ljósmyndir eftir Írisi.

Aðspurð hvernig hún sjálf byrjaði að stunda hnýtingu macramé segir Ninna: „Fyrir um tveimur árum byrjaði þetta sem lítið áhugamál hjá mér. Mér þykir þetta róandi og það er gott að dunda sér við macramé eftir amstur dagsins. En þetta litla áhugamál vatt upp á sig,“ segir Ninna. Hún bætir við að hún hafi ekki stundað mikla handavinnu í gegnum tíðina.

- Auglýsing -

„Þetta byrjaði í raun þannig að mig langaði í fallegt vegghengi fyrir ofan rúmið. Ég fór þá á YouTube og horfði á kennslumyndbönd og prófaði mig svo áfram. Þá var ekki aftur snúið og ég er enn þá að læra nýjar aðferðir og hnúta,“ segir Ninna sem er himinlifandi með að vera komin með bók í hendurnar, aðeins tveimur árum eftir að hún byrjaði að fikra sig áfram með macramé.

Ég fór þá á YouTube og horfði á kennslumyndbönd og prófaði mig svo áfram. Þá var ekki aftur snúið.

„Það er svolítið skrýtið að fara frá því að sitja ein uppi í sófa að hnýta yfir í það að vera búin að gefa út bók, tveimur árum síðar. Það er skrýtið en alveg rosalega gaman. Og með Írisi með mér í þessu þá vissi ég að þetta gæti ekki klikkað,“ segir Ninna glöð.

Myndir / Íris Dögg Einarsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -