Föstudagur 29. mars, 2024
2.8 C
Reykjavik

Sjálfsákvörðunarréttur kvenna eða óskoraður réttur til lífs

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eitt af umdeildari málum vorþings er frumvarp heilbrigðisráðherra um þungunarrof, eða fóstureyðingar eins og talað hefur verið um fram til þessa. Verði frumvarpið samþykkt yrði fóstureyðingarlöggjöfin á Íslandi ein af þeim frjálslyndustu í heiminum. Af þeim umsögnum sem borist hafa þinginu má greina tvö meginþemu. Annars vegar eru þeir sem styðja frumvarpið og gera það í nafni kvenfrelsis og hins vegar þeir sem eru á móti frumvarpinu af siðferðislegum eða trúarlegum ástæðum.

Veigamestu og umdeildustu breytingarnar snúa að tímamörkum til fóstureyðingar. Samkvæmt núgildandi lögum skal fóstureyðing aldrei framkvæmd eftir 16. viku meðgöngutímans, nema að það séu ótvíræðilegar læknisfræðilegar ástæður fyrir hendi. Undanþága frá þessu eru ef miklar líkur eru á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs. Með nýja frumvarpinu er lagt til að konu verði veitt fullt ákvörðunarvald um það hvort hún elur barn fram að lokum 22. viku þungunar, óháð því hvaða aðstæður liggja að baki þeim vilja konunnar. Með öðrum orðum verður ákvörðun um fóstureyðingu alfarið ákvörðun barnshafandi konu fram að lokum 22. viku og þarf ekkert samþykki utanaðkomandi aðila til.

Tveir skólar

Það er til marks um hversu umdeilt málið er að það var gagnrýnt þegar velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögnum um málið að leitað hafi verið til trúar- og lífsskoðunarfélaga. Formaður nefndarinnar, Halldóra Mogensen, var því mótfallin þar sem hún telur slík félög ekki sem fagaðila en nokkrir nefndarmenn fóru fram á að það yrði gert og var það niðurstaðan. Sé litið til þeirra umsagna sem borist hafa velferðarnefnd, sem nú eru orðnar á sjötta tug talsins, kemur í ljós að umsagnaraðilar skiptast í tvo hópa.

Annars vegar eru það sérfræðingar á heilbrigðisvísindasviði og talsmenn kvenfrelsis sem eru fylgjandi frumvarpinu. Segir í umsögnum þeirra að frumvarpið feli í sér gríðarlega réttarbót fyrir konur, bæði hvað varðar tímamörkin og þá staðreynd að ekki þurfi leyfi heilbrigðisstarfsmanna til að gangast undir aðgerðina. Segir í einni umsögninni að um sé að ræða stærsta framfaramálið fyrir konur síðan feðraorlof var tekið upp.

Agnes bendir á að dæmi séu um að börn hafi fæðst eftir 22 vikna meðgöngu, braggast og lifað.

Hins vegar eru það svo trúar- og lífsskoðunarfélög sem leggjast gegn breytingunum, þótt missterkt sé tekið til orða. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, segist til að mynda styðja þann hluta frumvarpsins um að konur taki sjálfar „hina erfiðu ákvörðun“ um fóstureyðingu. Hins vegar gerir biskup athugasemd við tímarammann. Bendir hún á að dæmi séu um að börn hafi fæðst eftir 22 vikna meðgöngu, braggast og lifað. Hinar nýju tillögur raski því jafnvægi sem ríkt hafi um málið og veki upp grundvallarspurningar um mannhelgi og framgang lífs. Aðrir trúarhópar taka sterkar til orða og sumir þeirra leggjast alfarið gegn fóstureyðingum. Öryrkjabandalag Íslands gagnrýnir tímarammann þó á öðrum forsendum, það er að þau telja að með því að lengja tímarammann upp í 22 vikur sé verið að gefa fólki rými til að bregðast við komi upp frávik – til að mynda fötlun – í 20 vikna skoðun.

Lögin breyti ekki landslaginu

- Auglýsing -

Í umsögn Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna (FÍFK) kemur fram að lífvænleiki fóstra miðist við 22 vikur en í umsögn Landlæknis er hins vegar talað um 23 og hálfa viku. Hins vegar eru dæmi um fyrirbura sem hafa fæðst fyrir þann tíma og lifað og fæddist yngsti fyrirburinn eftir 21 viku og 4 daga. Þótt frumvarpið verði að lögum er ljóst að hvorki löggjafinn né heilbrigðisyfirvöld búast við að fóstureyðingum komi til með að fjölga. Þannig bendir FÍFK á að 94,4% fóstureyðinga á Íslandi fari fram fyrir 12 vikur, en 4,1% á tímbilinu 13-16 vikur. Á síðarnefnda tímabilinu voru flestar aðgerðirnar í kjölfar skimunar. Áfram er búist við að langstærsti hluti fóstureyðinga muni eftir sem áður fara fram í upphafi meðgöngu verði frumvarpið að lögum. Er bæði litið til þróunarinnar hérlendis undanfarin ár sem og reynslunnar frá öðrum löndum.

Fóstureyðing eða þungunarrof?

Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að í stað fóstureyðinga, eins og ferlið hefur verið kallað fram til þessa og notast er við í núgildandi lögum, skuli talað um þungunarrof. Segir í greinargerð frumvarpsins að hugtakið fóstureyðing sé gildishlaðið og samsvarandi orð sé ekki að finna í nágrannalöndum okkar. Ætlunin með þessu sé að færa áhersluna yfir á konuna en ekki fóstrið. Um þetta er einnig deilt, samanber umsögn biskups þar sem segir að orðið þungunarrof vísi „á engan hátt til þess lífs sem sannarlega er undir belti og er vísir að nýrri mannveru“. Orðið þungunarrof sé þess vegna misvísandi.

- Auglýsing -

Fleiri með leg en konur og stúlkur

Í öðrum umsögnum, svo sem frá Þóru Kristínu Þórsdóttur sem titluð er forynja Kvennahreyfingarinnar og mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, eru gerðar athugasemdir við að eingöngu sé fjallað um rétt kvenna og stúlkna til þungunarrofs. Hins vegar sé ákveðinn hópur fólks sem er með leg en kýs að skilgreina sig ekki sem konur. Það að eingöngu sé fjallað um réttindi kvenna og stúlkna er því takmarkandi. Leggur Þóra Kristín til að í stað stúlkna og kvenna verði notuð hugtök eins og manneskjur, fólk og einstaklingar, svo lengi sem tekið er sérstaklega fram að rétturinn til þungunarrofs nái ekki til þess aðila sem sæðið framleiddi, það er föður. Einnig mætti nota nýyrði á borð við legbera eða barnsbera.

Ummæli þeirra sem eru fylgjandi

„Þetta frumvarp er stórt skref í að tryggja kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama. Víðtæk samfélagssátt ríkir á Íslandi um nauðsyn þess að tryggja að konur geti rofið þungun að eigin ósk.“
Kvenréttindafélag Íslands

„Það er skoðun landlæknis að ákvörðun um rof þungunar svo seint á meðgöngu sé gríðarlega erfið og þungbær ákvörðun sem kona taki einungis að vandlega athuguðu máli og af illri nauðsyn. Mikilvægt er að skilja og virða að aðstæður kvenna geta verið margvíslegar og á stundum erfiðari og flóknari en hægt er að gera sér í hugarlund. Um þær aðstæður er enginn hæfari til að dæma og taka ákvörðun en konan sjálf.“
Landlæknisembættið

„Engar rannsóknir benda til þess að konur iðrist þess til lengri tíma að binda endi á þungun. Þvert á móti lýsa konur, í okkar rannsókn á Íslandi og í sambærilegum rannsóknum erlendis, létti og fullvissu um að hafa tekið rétta ákvörðun.“
Silja Bára Ómarsdóttir og Steinunn Rögnvaldsdóttir

„Frumvarpið er mikilvægt skref til að tryggja öllum konum rétt yfir líkama sínum enda er sá réttur grundvallarmannréttindi og núgildandi lög tryggja hann. Rétturinn yfir eigin líkama er ekki síst mikilvægt þeim konum sem höllum fæti standa í samfélaginu, eiga við vímuefna- og/eða geðrænan vanda að etja …“
Rótin, félag um málefni kvenna

„Sjálfsákvörðunarréttur kvenna er grundvallarmannréttindi og því rökrétt breyting að þess sé ekki krafist, skv. frumvarpinu, að utanaðkomandi aðilar þurfi að samþykkja þungunarrof.“
Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar

Ummæli þeirra sem eru andvíg

„Er ekki kominn tími tími til að stöðva þennan heimsfaraldur sem hefur á síðustu 20 árum eytt um það bil jafnmörgum á Íslandi og þeim sem búa á Akureyri og nærsveitum?“
David B. Tencer, biskup kaþólsku kirkjunnar

„Ég legg til að heiti frumvarpsins og inntak taki verulegum breytingum og verði þannig: Frumvarp til laga um algjört bann við drápum barna í móðurkviði.“
Guðmundur Ragnarsson, forstöðumaður Samfélags trúaðra

„Réttindabarátta kvenna heldur áfram og vil ég taka þátt í henni og leggja henni lið, enn eigum við konur langt í land. Ég efast stórlega um að þetta frumvarp hafi eitthvert vægi í þeirri baráttu.“
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands

„Ef þetta frumvarp um fóstureyðingar verður að lögum, sem ég ætla að vona að ekki verði, þá er verið að lögleiða morð.“
Hvítasunnukirkjan í Keflavík

„Þær tillögur að rýmka heimildir til þungunarrofs fram yfir 20 vikna fósturskimun eru augljóslega ætlaðar til þess að hægt sé að bregðast við þeim frávikum sem þar kynnu að greinast og eru aðför að rétti fatlaðs fólks til lífs.“
Öryrkjabandalag Íslands

„Ef móðirin er ekki reiðubúin að eiga barnið (sem er auðvitað hennar eign þótt ófætt sé) fær hún blessun heilbrigðisyfirvalda til að ýta á Ctrl+Alt+Del, og skorast þannig snyrtilega undan því stórkostlega hlutverki sem bíður hennar. Mér þykir reyndar hálfkaldhæðnislegt að yfirvöld sem kenna sig við heilbrigði skuli deyða líf, í stað þess að gera allt sem á þeirra valdi stendur til að varðveita heilbrigði þess.“
Ívar Halldórsson

Lög í öðrum löndum

Danmörk

Fram að 12. viku án skýringa. Eftir það þarf til sérstök félagsleg og læknisfræðileg skilyrði og er leyfi háð samþykki úrskurðarnefndar.

Noregur

Fram að 12. viku án skýringa. Eftir það þarf til félagsleg og læknisfræðileg skilyrði og er leyfi háð samþykki úrskurðarnefndar. Óheimilt eftir 18. viku nema veigamiklar ástæður eru fyrir hendi.

Svíþjóð

Fram að 18. viku án skýringa nema læknisfræðilegar ástæður mæli gegn því. Eftir það þarf ríkar ástæður og leyfi heilbrigðis- og félagsmálastofnunar. Leyfilegt á öllum stigum ef líf eða heilsa konu er í hættu.

Finnland

Einungis eftir lok 12. viku ef lífi og heilsu konu er stefnt í hættu. Heilbrigðisráðuneytið má, ef kona er ekki orðin 17 ára þegar hún verður þunguð, veita heimild til þungunarrofs fram að lokum 20. viku meðgöngu og þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Þá er heimilt allt undir lok 24. viku að rjúfa þungun ef fóstur er haldið alvarlegum sjúkdómi eða er líkamlega fatlað.

Bretland

Engin tímalengd er tiltekin en þungunarrof er refsilaust þegar þungun er ekki komin lengra en 24 vikur og ákveðin læknisfræðileg og félagsleg skilyrði eru uppfyllt.

Holland

Heimilt fram að því tímamarki þegar fóstur telst hafa náð lífvænlegum þroska, eða fram að 24. viku. Skilyrði er sett um fimm daga umþóttunartíma eftir að beiðni er lögð fram um þungunarrof.

Belgía

Heimilt að beiðni konu fram að 12. viku þungunar. Eftir það einungins ef þungun stofnar heilsu konu í hættu eða ef fóstur telst með mjög alvarlegan og ólæknandi sjúkdóm.

Frakkland

Fram að 12. viku þungunar en eftir það einungis ef heilsu konu er stefnt í hættu með áframhaldandi þungun eða ef fóstur telst haldið alvarlegum ólæknandi sjúkdómi.

Kanada

Engin takmarkandi löggjöf er í gildi um þungunarrof eftir að hæstiréttur landsins úrskurðaði að slík lög brytu í bága við stjórnarskrá landsins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -