Fimmtudagur 18. apríl, 2024
3.1 C
Reykjavik

Skipun dómara í nýrri stjórnarskrá

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Skoðun Fyrr í vikunni skrifaði ég harðorðan pistil um ferlið við skipun dómara í Landsrétt. Einkum um vinnubrögð dómsmálaráðherra. Eftir að ég las dóm Mannréttindadómstóls Evrópu komst ég hins vegar að því að dómurinn segði allt sem segja þarf sem og sú staða að heilt dómstig er í uppnámi vegna vinnubragða við skipan þess. Mínum skrifum er því betur varið í uppbyggilegra efni eins og um mikilvægi þess að læra af mistökunum og girða fyrir slík vinnubrögð eins og unnt verður til framtíðar.

„Það er grundvallarforsenda í lýðræðisþjóðfélagi að sjálfstæði handhafa dómsvalds sé tryggt eins og kostur er.“

Í nýrri stjórnarskrá er ákvæði sem lýtur að skipun dómara og ríkissaksóknara. Ráðherra skipar dómara en þarf að leggja tillögu sína undir forseta til samþykktar eða synjunar. Synji forseti er skipuninni skotið til Alþingis sem þarf að samþykkja tillöguna með auknum meirihluta þ.e. 2/3 hluta þings. Þetta hlutverk forseta er nýmæli og hluti af heildarsýn Stjórnlagaráðs á hlutverki forseta sem öryggisventils við meðferð opinbers valds. Samkvæmt þessu hefur hann sjálfstæðan málskotsrétt til Alþingis. Í greinargerð er tekið fram að gert sé ráð fyrir að faglegt og hlutlaust hæfnismat fari fram í samræmi við dómstólalög. Þá er sérstaklega tekið fram í ákvæðinu að hæfni og málefnaleg sjónarmið skuli ráða för við skipan í embætti.

Þetta er ein leið til að tryggja sjálfstæði dómstóla. Ákvæðið á sér forsögu enda er það ekki nýmæli á Íslandi að vinnubrögð við skipan dómara hafi verið ámælisverð og/eða ólögleg. Ráðherrar hafa áður átt við niðurstöðu hæfnisnefnda án þess að gætt sé að meginreglum stjórnsýsluréttar. Annað ákvæði í nýrri stjórnarskrá sem er þýðingarmikið hér varðar upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra. Upplýsingar sem ráðherra gefur Alþingi þurfa að vera réttar, viðeigandi og fullnægjandi. Annað varðar ábyrgð ráðherra. Í finnsku, sænsku og norsku stjórnarskránni má finna sambærileg ákvæði.

Traust þarf að ríkja til starfa dómstóla. Það er grundvallarforsenda í lýðræðisþjóðfélagi að sjálfstæði handhafa dómsvalds sé tryggt eins og kostur er. Í dómi Mannréttindadómstólsins er m.a. vitnað til eins dóms EFTA-dómstólsins en þar segir, í lauslegri þýðingu: „… meginreglan um sjálfstæði dómsvalds er ein af grundvallarreglum við framfylgd réttlætis … Það er brýnt að dómarar séu ekki aðeins sjálfstæðir og sanngjarnir, heldur jafnframt að þeir líti út fyrir að vera það.“

Þetta mál, eins og mörg önnur mál sem hafa komið upp á undanförnum árum og varða íslenska stjórnskipun, sýna fram á brýna nauðsyn þess að við samþykkjum nýja stjórnarskrá. Hér má nefna óljós ákvæði um þingrof, hlutverk forseta við stjórnarmyndun, úrelt ákvæði um Landsdóm, skort á ákvæði um auðlindir í þjóðareigu og náttúru og um þjóðaratkvæðagreiðslur og svona má lengi telja. Á meðan munurinn á réttu og röngu vefst fyrir okkur við jafnþýðingarmiklar ákvarðanir og um skipan dómara er betra að setja lágmarksreglur í stjórnarskrá. Lærum af þessum málum. Gerum nýja stjórnarskrá að forgangsmáli.

Höfundur er lögfræðingur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -