Fimmtudagur 28. mars, 2024
-3.2 C
Reykjavik

Strax sem barn heltekin af dauðanum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ljóðabókin Líkn eftir prestinn og rithöfundinn Hildi Eir Bolladóttur, sem nýlega kom út, fjallar öðru fremur um dauðann og hvernig við mætum honum með tilfinningum okkar og atferli. Hún segir að bókin sé persónuleg en líka myndræn í þeim skilningi að í henni sitji myndir sem Hildur hafi bara í huganum sem áhorfandi en séu ekki bein persónuleg reynsla.

„Sum ljóðin eru gamlar æskumyndir sem hafa fylgt mér alla tíð svo sterkt að ég get enn fundið lykt og bragð af deginum eða stundinni sem þær áttu sér stað, þau ljóð skrifuðu sig nánast sjálf, þau eru eiginlega bara eins og gamlar ljósmyndir í nokkrum orðum,“ segir Hildur.

„Ég hugsa að þessi ljóðabók hafi gengið með mér frá allt frá bernsku. Strax sem barn var ég heltekin af dauðanum, aldrei þannig að hann ylli mér angist heldur fannst mér allt svo áhugavert sem tengdist dauðanum. Ég er alin upp á kirkjustað og faðir minn var prestur og þess vegna var dauðinn mér nálægur frá fyrstu minningu. Mér fannst svo forvitnilegt að fylgjast með atferli fólks í kringum dauðann og öllum siðum og hefðum sem skapast í kringum hann en líka öllum vandræðaganginum og hátíðleikanum sem verður til vegna þess að okkur finnst óþægilegt að lifa í sátt við dauðann, jafnvel þótt hann sé það eina sem ekkert okkar getur flúið. Ljóðin eru þess vegna bæði kómísk en líka hughraust af því að í gegnum starfið mitt sem prestur hef ég lært að umgangast dauðann af fumleysi en líka auðvitað djúpri alvöru.“

Ljóðabókin Líkn fjallar öðru fremur um dauðann, tilfinningum okkar og atferli þegar við mætum honum.

Hún segir að tilgangur bókarinnar sé fyrst og fremst að deila með umheiminum myndum af þessum sammannlega veruleika sem dauðinn er en líka að orða nokkrar æskumyndir upphátt áður en yfir þær fennir.
„Nú lifum við bara í svo miklum hraða og áreiti að fortíð hvers og eins okkar getur farið að skolast til ef við gefum henni ekki viðeigandi gaum og þótt við eigum ekki að lifa í fortíðinni megum við heldur ekki gleyma henni því þá hættum við að þekkja okkur sjálf,“ segir Hildur.

„Ég hef alltaf verið hugfangin af ljóðforminu, allt frá því að ég var þriggja ára gömul og pabbi kenndi mér ljóðið „En hvað það var skrýtið“ eftir Pál Árdal, upp frá því hef ég elskað ljóð og lært þau utan að eins og drekka vatn þótt ég gæti ekki fyrir mitt litla líf munað eina einustu stærðfræðiformúlu alla mína grunn- og framhaldsskólagöngu. Ég get tárast við að lesa ljóð og líka hlegið og fáar bækur hafa veitt mér jafngóðan spegil á lífið og sjálfa mig eins og ljóðabækur. Ég hef alltaf hrifist af knöppum stíl og alltaf fundist miklu merkilegra að lesa stóra hugsun í fáum orðum í staðinn fyrir litla hugsun í mörgum orðum, hið fyrrnefnda getur kallað fram í mér gæsahúð á meðan hitt virkjar enn frekar athyglisbrestinn sem ég lifi við.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -