Fimmtudagur 25. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Leggja mikla ást í hverja flögu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hugmyndin að eigin framleiðslu á kartöfluflögum úr annars flokks kartöflum kviknaði á gulum ökrum í nágrenni Hornafjarðar. Ein helsta sérstaða fyrirtækisins er mikil áhersla á umhverfismál.

Þrátt fyrir nafnið eru Ljótu kartöflurnar afar bragðgóðar enda einu kartöfluflögurnar sem framleiddar eru úr innlendu hráefni. Maðurinn á bakvið fyrirtækið er Viðar Reynisson, þriggja barna fjölskyldufaðir og fyrrum bankastarfsmaður, sem ákvað einfaldlega að láta drauminn rætast og hefja framleiðslu á kartöfluflögum úr íslenskum annars flokks kartöflum sem er að miklu leyti fargað í dag.

Hann segist í gegnum tíðina hafa fengið margar misgóðar viðskiptahumyndir og eiginlega alltaf verið að melta og þróa nokkrar þeirra í kollinum. „Þær hafa þó sjaldan komist af hugmyndastiginu og aldrei áður hef ég þorað að taka stökkið, að láta reyna á hugmyndina og stofna verkefni í kringum hana. Það sem er svo skemmtilegt við svona nýsköpunarverkefni er hvað maður fær útrás fyrir mörg áhugamál. Í mínu tilviki hef ég mikinn áhuga á öllu sem við kemur hönnun, sköpun og matargerð.“

„Við leggjum mikið upp úr gæðum og ætlum auðvitað að gera heimsins bestu flögur hvað varðar rétta þykkt, stökkleika og rétt bragð.“

Aðlagaðist aðstæðum
Viðar stofnaði fyrirtækið fyrir tveimur árum eftir að hafa starfað hjá Arion banka í fjórtán ár. Hugmyndin kviknaði þó miklu fyrr, eða fjórum árum áður. „Þá var ég staddur í sumarhúsi í Hornafirði þar sem við höfðum farið næstum á hverju sumri í áratug. Þetta sumarið voru akrarnir sem voru samliggjandi kartöflugörðunum í sveitinni allt í einu orðnir gulir á lit og í miklum blóma. Þegar ég hitti á bóndann í nágrenninu kom í ljós að hann var að gera tilraunir með að rækta repju til framleiðslu á kaldpressaðri repjuolíu til neyslu. Hugmyndin að kartöfluflögunum kviknaði strax, þarna var komið hráefnið sem þyrfti til framleiðslu á þeim auk þess sem innlend framleiðsla var hafin á salti og öðru kryddi.“
Upphaflega hugmyndin var því að framleiða kartöfluflögur sem væru eingöngu úr innlendu hráefni og nýta til þess þær kartöflur sem bændur ættu erfitt með að koma í verð sökum útlitsstaðla.

Eftir margar prófanir á innlendri repjuolíu og rannsóknarvinnu varð þó Viðar að játa sig sigraðan. „Niðurstaðan varð sú að það gæti aldrei borgað sig að nota hágæða innlenda kaldpressaða olíu og vinna öll góðu innhaldsefnin úr henni til þess að gera hana sambærilega ódýrri og bragðlausri innfluttri repjuolíu. Sú olía er því eina erlenda hráefnið í vörunum okkar utan þess að við notum líka að hluta innflutt krydd.“
Umhverfismál mikilvæg

Ein helsta sérstaða fyrirtækisins er sú mikla áhersla sem lögð er á umhverfismál segir Viðar. „Snakkpokar innihalda mikið loft og eru plássfrekri í pökkun. Kolefnisspor innflutts snakks er því gríðarstórt og hæglega hægt að eyða því með því að velja innlenda framleiðslu. Kartöflusnakk verður því miður að pakka í umbúðir sem eru a.m.k. að hluta úr áli eða plasti til þess að tryggja líftíma vörunnar. Af nokkrum slæmum kostum teljum við réttast að nota umbúðir sem eru aðeins úr einu efni og hægt er að endurvinna endalaust en um er að ræða polypropelene-plast.“

Ljótu kartöflurnar verða eina kartöflusnakkið sem unnið er úr innlendum kartöflum að sögn Viðars. „Þar að auki er varan sannarlega handgerð af mér og Gunnari samstarfsfélaga mínum og við leggjum mikla ást í hverja flögu. Við leggjum mikið upp úr gæðum og ætlum auðvitað að gera heimsins bestu flögur hvað varðar rétta þykkt, stökkleika og rétt bragð. Stefnan er að fara nokkuð óhefðbundnar leiðir varðandi þróun á bragðtegundum, hafa meira bragð og kikk en fólk er kannski vant og reyna líka að nýta það sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða. Hins vegar ætlum við að fara nokkuð hefðbundnar leiðir með 1-2 fyrstu bragðtegundirnar okkar þar sem fyrsta upplifun neytenda er mikilvæg og auðvitað ekki allir með sama smekk.“

- Auglýsing -

Félaginn sér um Excel
Auk Viðars er Gunnar Jóhann Gunnarsson lögfræðingur með honum en þeir hafa verið vinir til 20 ára. „Það hefur ekki mikið reynt á verkaskiptinguna hingað til. Frá því Gunnar kom inn hefur mestur tími farið í að standsetja húsnæði til framleiðslunnar. En það er a.m.k. á hreinu að Gunnar mun sjá meira um fjármálin, verðútreikninga og allt sem unnið er í Excel meðan ég er meira í markaðsmálum og talsmaður félagsins út á við, enda stofnandi þess.“

Áskoranir fram undan
Viðar segir þá félaga aldrei hafa staðið í þeim sporum áður að koma nýrri vöru á markað. „Við stöndum því frammi fyrir mjög mörgum framandi áskorunum og því mikilvægt að vanda til verka. Helstu væntingar okkar til hraðalsins eru að fá t.d. ráðgjöf varðandi mótun stefnu í markaðsmálum, verðlagningu og dreifingarmálum. Ég held að það muni skila okkur gríðarlega dýrmætum upplýsingum að hitta alla þá mentora sem við eigum eftir að hitta og þá sérstaklega þá aðila sem hafa staðið í okkar sporum og náð árangri. Auk þess er starfsfólk Icelandic Startups hokið af reynslu og getur komið á tengslum við fólk sem getur reynst okkur dýrmætt. Stefnan er sett á að vera komin í almenna dreifingu innan tveggja ára. Við höfum trú á að stór hluti neytenda muni kjósa Ljótu kartöflurnar þó þær verði aðeins dýrari en vörur samkeppnisaðilanna enda er fólk að velja gæði og við höfum mikinn meðbyr með þeirri umhverfisvakningu sem á sér nú stað.“

Myndatexti: Viðar Reynisson og Gunnar Jóhann Gunnarsson standa á bakvið Ljótu kartöflurnar.

- Auglýsing -

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Til sjávar og sveita.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -