Fimmtudagur 25. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Nýta kartöfluhýði til bjórgerðar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kartöfluhýði er lykilhráefni í bjórnum frá brugghúsinu Álfi en helmingur þurrefnis framleiðslunnar eru kartöflur. Sjálfbærni skiptir teymið miklu máli sem ætlar að festa sig í sessi á hörðum samkeppnismarkaði.

Við fyrstu sýn virðist fátt sameiginlegt með bjór og kartöfluhýði en teymið á bak við brugghúsið Álf bruggar bjór þar sem kartöfluhýði, sem annars færi til spillis, skipar stóran þátt í framleiðslunni. Teymið skipa þau Þórgnýr Thoroddsen yfirbruggari, Haukur Páll Finnsson, stofnandi fyrirtækisins og Bára Hlín Kristjánsdóttir verkefnastjóri.
Á æskuheimili Þórgnýs var bruggað léttvín sem hann segir hafa verið heldur görótt að smekk flestra. „Eitthvað virðist þó hafa setið eftir því ég hef lengi haft áhuga á skemmtilegum brugghugmyndum. Þegar Haukur og Bára komu til mín með þessa pælingu, um að brugga bjór úr kartöfluhýði, gat ég ekki annað en boðið þeim í tilraunamennsku og hún virðist ekkert ætla að enda hjá okkur.“

Þórgnýr segir að faðir Hauks sé einn af eigendum Þykkvabæjar og hafi stungið því að honum einn daginn að hann hefði lesið einhvers staðar að hægt væri að nýta kartöflur í bjórgerð. „Þá kom upp sú hugmynd hvort ekki væri hægt að nota það sem fellur til við gerð vara úr kartöflum til þess hins sama. Haukur er afskaplega drífandi einstaklingur og bara fór beint í málið.“

Hugmyndafræðin á bak við Álf er að framleiða góðan bjór úr eins íslensku hágæða hráefni og völ er á.

Íslenskasti bjórinn
Fyrsta tilraunin til að brugga bjór úr kartöflum leit ekki vel út í byrjun segir Þórgnýr sem upplýsir að þau hafi verið hæfilega bjartsýn með árangurinn. „En niðurstaðan kom skemmtilega á óvart og gaf algerlega tilefni fyrir okkur til að kafa dýpra í þessar pælingar. Vinnan hefur mikið til snúist um að kynnast kartöflunum sem hráefni og skoða hvað gengur og hvað gengur ekki. Hún á það til að vera svolítið dyntótt í meðförum og það þarf að kunna á henni lagið til að brugga bjór úr henni.“

Hugmyndafræðin á bak við Álf er að framleiða góðan bjór úr eins íslensku hágæða hráefni og völ er á segir Þórgnýr. „Vegna þess hve mikið hráefni í bjórnum okkar er ræktað hér á Íslandi má með góðu móti segja að þetta sé hreinlega íslenskasti bjór í heimi, en helmingur þurrefnisins eru kartöflur. Sterkjan úr kartöflunum hefur þó engin bragðáhrif á bjórinn og því er hann mjög léttur fyrir bragðlaukana og ætti að henta flestum sem kunna að meta góðan bjór.“

Í dag er bjórinn til sölu á nokkrum ölhúsum og veitingastöðum og teymið er langt komin með að koma bjórnum í sölu í Vínbúðinni.

Teymið skipa þau Þórgnýr Thoroddsen yfirbruggari, Bára Hlín Kristjánsdóttir verkefnastjóri og Haukur Páll Finnsson, stofnandi fyrirtækisins. Mynd / Marino Thorlacius

Mörg tæki í hendurnar
Þórgnýr segir það hafa verið ótrúlega merkilega upplifun fyrir hann að komast inn í viðskiptahraðalinn. „Fyrir fram gerði ég mér enga grein fyrir hverju þetta myndi breyta fyrir mig og framgang hugmyndarinnar. Hraðallinn er bara nýbyrjaður en við erum samt komin með svo mörg tæki til að vinna með. Okkur hefur auk þess verið ýtt út í ýmsar pælingar og verkefni sem að við hefðum hugsanlega aldrei farið út í og krafin um ýmis svör við spurningum sem við höfðum ekki hugsað út í. Það er hollt að láta grilla sig svolítið en það er hæglega stærsta áskorunin.“

- Auglýsing -

Umhverfið skiptir máli
Sjálfbærni skiptir teymið miklu máli því eins og hann orðar það, þá er enginn gróði ef það er engin framtíð. „Við brennum öll fyrir því að reksturinn verði sem vænstur fyrir umhverfið. Í stað þess að framleiða meira, gerum við meira úr því sem framleitt er og vonum að það verði hvati fyrir aðra framleiðendur.“

Engin vandamál til
Ein stór spurning sem teymið veltir fyrir sér þessa dagana snýr að mögulegum viðskiptavinum. „Viðskiptavinir Álfs eru þeir sem kunna að meta góðan bjór en snertifletirnir við viðskiptavinina eru oft snúnir, sér í lagi í umhverfi sem er jafnbundið af ströngu regluverki og raun ber vitni. Þá kemur sér vel hjá okkur að eiga frasann „Það eru engin vandamál, bara lausnir“. Samkeppnin er mjög hörð á áfengismarkaðinum en litlu brugghúsin standa engu að síður mjög vel saman og hjálpast að þegar þörf er á. Það er mjög gaman að vinna í þannig umhverfi,“ segir Þórgnýr.

„Vegna þess hve mikið hráefni í bjórnum okkar er ræktað hér á Íslandi má með góðu segja að þetta sé hreinlega íslenskasti bjór í heimi …“

Metnaður og eldmóður
Þórgnýr hrósar íslenska frumkvöðlaumhverfinu og segir þar ríkja mikinn velvilja, metnað, þekkingu og eldmóð. „Það er gjörsamlega æðislegt að vinna með þessu góða fólki. Aðgangur að smærri styrkjum til nýsköpunarfyrirtækja mætti þó vera auðveldari. Síðan má líka nefna almennt regluverk og þann kostnað og óþarfa flækjustig því tengdu sem getur verið mjög íþyngjandi. Það virðist stundum vera munur á reglum, eftir því hvern talað er við, auk þess sem það er talsvert ógagnsæi til staðar í kerfinu þegar maður leggur af stað á nýja vegferð sem gerir þetta svolítið erfitt.“

- Auglýsing -

Vilja festa sig í sessi
Fram undan eru spennandi tímar en höfuðmarkmið teymisins er að vera komin með fasta tilvist á íslenskum bjórmarkaði á næstu 2-3 árum. „Um leið þurfum við að ná að skala okkur talsvert upp. Í dag er framleiðslugeta okkar takmörkuð vegna tækja og rýmis. Því er mjög gerlegt og raunar talsvert æskilegt fyrir okkur að stækka við framleiðsluna sem fyrst. Það væri ekkert verra fyrir okkur í stöðunni en að geta selt umfram framleiðslugetu. Þannig að það eru mörg krefjandi verkefni fram undan sem krefjast mikillar vinnu af okkur en hey, hver sagði að þetta ætti að vera auðvelt?“

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Til sjávar og sveita. 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -