Föstudagur 29. mars, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Svona eru þeir?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kári Stefánsson skrifar,

Álagspróf eru meðal tækja læknisfræðinnar sem geta reynst mjög gagnleg við að leita að veikleika manns sem finnst ekki við einfalda skoðun. Áreynsluprófið er eitt þeirra. Sú sem prófið tekur er látin hjóla eða ganga rösklega meðan hún er tengd við alls konar mæla eins og hjartalínurit, öndunarmæli, mæli sem nemur súrefnismettun og svo mætti lengi telja. Síðan er fylgst með því hvernig mælingarniðurstöður breytast við það álag á allan líkamann sem skapast við hreyfinguna. Ef þær eru af ákveðnum toga geta breytingarnar meðal annars bent til kransæðasjúkdóms.

Sykurþolsprófið er annars konar álagspróf þar sem álagið er eingöngu lagt á eina frumutegund í einu líffæri. Þátttakandanum er gefið mikið magn af sykri sem þröngvar beta-frumur í Langerhanseyjum brissins til þess að senda frá sér insúlín út í blóðið. Breytingar á styrk glúkósa og insúlíns í blóði geta gefið vísbendingu um það hvort þátttakandinn sé með sykursýki eða sé í hættu á að þróa hana.

Síðan eru auðvitað til alls konar aðrar tegundir álagsprófa utan læknisfræðinnar sem segja okkur ýmislegt um mannlegt eðli. Eitt af þeim heitir fjárlagafrumvarp sem er sett saman einu sinni á ári og lagt fyrir Alþingi. Hegðun alþingismanna við umræður um frumvarpið er álagspróf sem laðar fram ýmislegt hjá stjórnmálamönnum sem finnst ekki við einfalda skoðun frambjóðanda fyrir kosningar. Sumt af því er ekki bara athyglisvert heldur líka ótrúlegt.

Tökum sem dæmi hvernig alþingismenn sýna örlæti með því að veita sjálfum sér  sautján (fjöldi jólasveina x 2-1) nýja aðstoðarmenn á sama tíma og þeir draga til baka stóran hluta hækkunar á framlögum til öryrkja og skera niður víðast hvar annars staðar í velferðarkerfinu. Þessir sautján hjálparkokkar alþingismanna bætast við tuttugu og fimm aðstoðarmenn ráðherra. Frá því 2012 hefur kostnaður skattgreiðenda af aðstoðarmönnum ráðherra vaxið um tvö hundruð og átta milljónir króna og bætast nú við aðrar tvö hundruð milljónir í nýju aðstoðarmennina. Ein skoðun á þessu er að það endurspegli óásættanlega, sjálfhverfa forgangsröðun alþingismanna, önnur að sú staðreynd að þeir haldi að það sé ásættanlegt að veita sjálfum sér sautján aðstoðarmenn meðan þeir skera niður annars staðar bendi til þess að þeir þurfi á aðstoð að halda og þess vegna aðstoðarmönnum. Sem sagt að eina réttlætingin fyrir því að þeir fái aðstoðarmennina sé sú staðreynd að það sé óréttlætanlegt að þeir veiti sér þá.

Svarið við seinni skoðuninni er að það eina sem hlytist af aðstoð sautjánmenninganna væri að alþingismenn yrðu afkastameiri við að hlúa að sjálfum sér. Einn myndi sjálfsagt keyra fyrir Ásmund Friðriksson af því hann þarf alltaf að ferðast svo langt. Að þessu sögðu þá reynist fjárlagafrumvarpið það álagspróf sem á ári hverju laðar fram smæðina í eðli alþingismanna sem þeir fela svo vel rétt fyrir kosningar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -