Föstudagur 19. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Tekur dauðann í gegn á skemmtilegan hátt

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Charlotte Bøving, leikritahöfundur og leikkona, samdi einleikinn „Ég dey“ sem sýndur er á Nýja sviði Borgarleikhússins. Charlotte skoðar í sýningunni lífið út frá sjónarhóli dauðans og dauðann út frá frá sjónarhóli lífsins og notar ýmis form í sýningunni svo sem tónlist og dans.

Charlotte Bøving segir að í sýningunni sé hún að viðurkenna eigin dauðleika. „Ég leyfi mér að gera hluti sem ég hef aldrei gert áður því ég er hvort sem er að fara að deyja.“

Charlotte Bøving segist hafa verið orðin fimmtug þegar hún fór að velta fyrir sér að hún myndi einhvern tímann deyja og segist hafa furðað sig á því hvernig hún gat komist hjá því í svona langan tíma að horfast í augu við dauðann.
„Ég var svo hissa á að ég hafði ekki tekið meira eftir dauðanum. Ég fór að spá í dauðann og hvers vegna ég hafði ekki velt honum fyrir mér. Ég fór meðal annars að spá í hvernig dauðinn birtist. Það getur til dæmis verið eins og að ganga inn í grafhýsi að fara inn í matvöruverslanir. Þar er allt dautt svo sem kjötið í kjötborðinu og grænmetið. Þetta er allt á fyrsta eða öðru stigi rotnunar. Ég var að reyna að setja köttinn í megrun og þá fór hann að koma heim með dauða fugla og allt í einu birtist dauðinn inni á stofugólfinu hjá mér. Svo er svo margt í tungumálinu sem vísar í dauðann svo sem þegar sagt er að eitthvað sé „drepfyndið“. Við tölum hins vegar sjaldan um dauðann, það er eins og hann sé ekki til.“

Charlotte segir að í sýningunni sé hún að viðurkenna eigin dauðleika. „Ég leyfi mér að gera hluti sem ég hef aldrei gert áður því ég er hvort sem er að fara að deyja,“ heldur hún áfram og bætir við að það sé gott að hugsa um dauðann eins og ákveðna endurfæðingu. „Ég dey en lífið heldur áfram í börnunum. Ég vona að ég deyi á undan þeim.“

Tilgangur lífsins að elska, þroskast og stækka
Charlotte segist í sýningunni skoða lífið út frá sjónarhóli dauðans og dauðann út frá sjónarhóli lífsins. Hver er tilgangur lífsins að hennar mati? „Tilgangurinn er náttúrlega persónubundinn en fyrir mig er hann svo sem að elska en líka að þroskast og stækka. Það er hægt að stækka út á við eða inn á við eða hjálpa öðrum við að stækka. Ég fattaði það fyrir löngu að ég þarf að vera skapandi og fylgja hugmyndum mínum eftir og deila þeim og ég deili þeim í gegnum leiksýningar. Þetta er þriðji einleikurinn minn og ég fjalla alltaf um eitthvað persónulegt og vonandi endurspeglar það annarra manna líf. Fólk fær bara mína sýn eða mínar hugleiðingar og svo getur það búið til sín eigin svör,“ segir hún en hinir einleikir Charlotte eru „Hin smyrjandi jómfrú“ og „Þetta er lífið – og nu er kaffen klar“. Hún var tilnefnd til Grímunnar fyrir báðar sýningarnar.

„Það getur til dæmis verið eins og að ganga inn í grafhýsi að fara inn í matvöruverslanir. Þar er allt dautt svo sem kjötið í kjötborðinu og grænmetið. Þetta er allt á fyrsta eða öðru stigi rotnunar.“

Dauðinn syngur
Þrátt fyrir að dauðinn sé alvarlegt umfjöllunarefni þá getur fólk haft gaman af sýningunni og hlegið en Charlotte notar gjarnan kímnigáfuna í verkum sínum. „Ég syng nokkur lög,“ segir hún og tekur sem dæmi að eitt laganna sé kabarettlag þar sem dauðinn er að sprella. „Þetta er geggjað „show“. Þetta er alls konar – ég leyfi mér að leika mér með alls konar form í sýningunni. Það er líka dans í sýningunni og þar kemur beinagrind við sögu. Ég skoða dauðann í alls konar myndum. Ég segi meðal annars litlar sögur um mína eigin upplifun á dauðanum. Við upplifum öll sömu hluti í lífinu hvort sem það er gleði eða sorg.“

Charlotte segir að með þessari sýningu vilji hún hafa áhrif á fólk. „Ég er engin gúrú en ég vona alltaf að sýningarnar mínar geti haft áhrif á einhvern hátt. Ég held að þetta sé skemmtileg sýning en um leið líka djúp. Ég er ekki að gera grín að dauðanum þannig en það er hægt að segja að ég taki dauðann í gegn á skemmtilegan hátt. Fólk ætti að fara á sýninguna áður en það deyr.“

Myndir / Saga Sig

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -