Miðvikudagur 27. mars, 2024
4.8 C
Reykjavik

Það sem býr á bak við brosið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég er ekki hræddur. Ég er samt ekki óhræddur. Ég er mjög spenntur og með mikinn fiðring í maganum yfir þessari ferð. Þessi spennutilfinning er sambland af gleði og óvissu því þessi keppni er óútreiknanleg. Það eina sem ég get gert er að gera mitt besta,“ segir söngvarinn Ari Ólafsson.

Það ætti að vera flestum Íslendingum kunnugt að Ari er fulltrúi Íslands í Eurovision-keppninni í ár. Ari kom, sá og sigraði með laginu Heim, sem síðar varð Our Choice á ensku, og flytur það á stóra sviðinu í Lissabon í Portúgal á fyrra undanúrslitakvöldinu þann 8. maí næstkomandi. Ef allt gengur að óskum fær Ari að flytja það í annað sinn í úrslitunum sem fara fram laugardagskvöldið 12. maí.

Hrakfallabálkur sem barn

Ari er Reykvíkingur í húð og hár, en ólst einnig að hluta til upp í Orlando á Flórída hjá afa sínum.

„Ég ólst í raun upp á þremur stöðum. Ég átti heima niðri í bæ, á Laufásveginum, þar til ég var sex ára. Ég eyddi líka mjög miklum tíma úti í Bandaríkjunum hjá afa mínum og síðan fluttum við fjölskyldan á Kvisthaga þegar ég byrjaði í grunnskóla svo ég gæti gengið í Melaskóla. Og líka svo ég gæti gerst KR-ingur,“ segir Ari og hlær. „Pabbi minn er mikill KR-ingur og ég æfði fótbolta frá sex ára aldri. Ætli ég verði ekki KR-ingur fram í rauðan dauðann. Ég kemst ekki upp með neitt annað,“ bætir hann við.

Ari á einn yngri bróður og býr með honum og foreldrum sínum í grennd við JL-húsið í Reykjavík. Hann segir það fljótt hafa komið í ljós að hann væri með ADHD þar sem hann var oft frekar utan við sig sem krakki.

Brosið hans Ara hefur heillað fólk út um alla Evrópu.

„Ég var mjög glaður krakki. Ég var alltaf hlæjandi og brosandi,“ segir Ari, en þetta skæra og einlæga bros hans vann ekki aðeins hug og hjörtu Íslendinga heldur hefur það vakið athygli út fyrir landsteinana í aðdraganda Eurovision. „Það var rosalétt að vera með mig. Það var hægt að setja mig niður fyrir framan hvað sem er og ég bjó til eitthvað úr engu. En ég var alltaf að slasa mig. Ég er frekar óheppinn þegar kemur að meiðslum. Ég hef brotið handlegginn á mér um það bil sex til sjö sinnum,“ segir Ari og byrjar að telja upp öll brotin, sem hafa verið allt frá knjúkum og upp að öxl. „Þetta er líka alltaf sama höndin. Alltaf vinstri,“ segir Ari og brosir. „Líklegast tengist þetta eitthvað því hvað ég var utan við mig sem barn. Ég var ekki alveg að fylgjast með umhverfinu alltaf. Ég klifraði mikið og prílaði og gerði ýmislegt sem önnur börn myndu kannski ekki gera.“

- Auglýsing -

Kallaður illum nöfnum í grunnskóla

Þótt Ari sé aðeins nítján ára gamall hefur hann talsverða reynslu af því að koma fram. Hann lék Oliver Twist í samnefndum söngleik í Þjóðleikhúsinu þegar hann var ellefu ára gamall og tveimur árum síðar spreytti hann sig í verkinu Galdrakarlinum í Oz í Borgarleikhúsinu. Nokkru síðar söng hann með norsku stórstjörnunni Sissel Kyrkjebø á tónleikum í Eldborg á 60 ára afmælistónleikum söngkennarans síns, Bergþórs Pálssonar. Ara segist líða best á sviði, en hins vegar fékk hann að líða fyrir þessa velgengni í grunnskóla.

„Ég var rosaóöruggur með mig þegar ég var yngri en það tengist því að ég lenti í einelti í skóla út af því að ég var í söngleikjum. Ég veit ekki hvort fólk öfundaði mig en það kallaði mig illum nöfnum og ég skar mig alltaf úr,“ segir Ari. Hann segir það líka miður að skólakerfið hafi ekki verðlaunað hann fyrir að standa sig vel í listrænum greinum og telur að íslensk menntayfirvöld megi gera betur í þeim efnum.

Ari lenti í einelti í grunnskóla.

„Ef krakkar hafa markmið sem þeir eru verðlaunaðir fyrir að ná, hvort sem það er í bóklegum fögum, listgreinum eða íþróttum, þá munu þeir sjálfkrafa standa sig betur og blómstra í því sem þeir eru góðir.“

- Auglýsing -

Eftir grunnskóla lá leiðin í Menntaskólann við Hamrahlíð þar sem Ari fékk útrás fyrir sína listrænu hæfileika.

„Ég fann mig rosalega mikið í tónlistinni þá. Ég held að þessi seinustu ár hafi verið þau bestu fyrir mig. Ég hef alltaf haft sjálfstraust en þegar ég hugsa til baka þá hefur ekki alltaf verið mikið innistæða fyrir þessu sjálfstrausti. Nú, hins vegar, er ég farinn að taka meira eftir því hvað ég er lánsamur og heppinn í lífinu og ég tek engu sem sjálfsögðum hlut. Ég vil vinna við tónlist og það að stíga upp á svið gerir mig ekki kvíðinn heldur spenntan. Þetta er akkúrat það sem ég vil gera. Ég vil vera uppi á þessu sviði. Það er um að gera að nýta hverja einustu sekúndu því þetta er búið áður en maður veit af,“ segir Ari

Nauðsynlegt að sýna tilfinningar

Ara hefur verið spáð í alls konar sæti í Eurovision, allt frá því fyrsta niður í það neðsta. Þá tvístraðist þjóðin yfir framlaginu þegar hann bar sigur úr býtum í Söngvakeppninni og hlaut lagið slæma dóma í sjónvarpsþættinum Alla leið á RÚV fyrir stuttu. Ari segir vissulega erfitt að finna fyrir mótlæti en hefur tileinkað sér að nýta jákvæðni sem vopn gegn neikvæðni.

„Ég held að það sé mestallt mömmu og pabba að þakka. Mamma er sálfræðingur og pabbi er giftur sálfræðingi,“ segir Ari og hlær. „Ég fékk frekar flott uppeldi en auðvitað er alltaf erfitt að finna fyrir mótlæti. Í söng og leiklist er ég að tjá tilfinningar mínar. Ég er berskjaldaður. Ég er veikastur en einnig glaðastur og mitt besta sjálf þegar ég er uppi á sviðinu. Þegar fólk bregst illa við þá er það alltaf erfitt, en það er skemmtilegt að það jákvæða vegur alltaf meira en það neikvæða. Hins vegar virðist fólk alltaf einblína meira á það neikvæða, sem er algjörlega ekki það sem maður á að pæla í,“ segir Ari og við rifjum upp þá umræðu sem skapaðist þegar Ari grét af gleði í beinni útsendingu vegna velgengni í Söngvakeppninni.

„Þá komu neikvæðar raddir upp á yfirborðið en þær jákvæðu voru svo margar að þær þögguðu niður í leiðindaskapnum. Það er það sem skiptir máli, að fólk standi saman og líti á það jákvæða. Ég er alltaf að átta mig meira og meira á því að það jákvæða í lífinu skiptir meira máli en það neikvæða. En ég er ánægður með að þessi umræða spratt upp og ég vil tala um þetta. Fólk á ekki að vera hrætt við að sýna tilfinningar og vera það sjálft. Maður á að hlæja þegar mann langar til að hlæja og vera leiður þegar mann langar að vera leiður. Sumt fólk er svo hrætt við að vera leitt að það er alltaf glatt, en það er ekkert á bak við gleðina. Það er hollt að finna fyrir reiði, pirringi og leiða en ekki leyfa þessum tilfinningum að stjórna sér. Maður þarf að finna fyrir þeim, átta sig á þeim og stjórna þeim. Þetta er það sem móðir mín hefur kennt mér allt mitt líf út af öllu sem ég hef gengið í gegnum. Maður getur nefnilega ekki stjórnað öðru fólki, maður getur bara stjórnað sjálfum sér,“ segir Ari, en þessi neikvæðni um tárin sem láku niður kinnar hans virtist vera beintengd við gamaldags hugmyndir um karlmennsku, úrelt gildi sem enn lifa góðu lífi.

„Fyrir mér er ekkert til sem heitir karlmennska eða kvenmennska. Þetta eru bara einhver hugtök, einhverjar ranghugmyndir sem fólk er með. Snýst lífið ekki frekar um hvernig manneskjur við viljum vera? Viljum við vera umburðarlynd, hjálpa öðrum og taka á móti lífinu af jákvæðni, eða viljum við vera sjálfselsk og leiðinleg? Á endanum verður hver að velja fyrir sig og ég ætla að velja rétt.“

Spenntur að hitta Rybak

Síðan Ari fór með sigur af hólmi í Söngvakeppninni hefur hann haft í nægu að snúast. Þegar hann lítur til baka og rifjar upp augnablikið þegar sigurvegarinn var tilkynntur kemur fallegt blik í augu söngvarans.

Ari heillaði þjóðina í Söngvakeppninni. Mynd / RÚV

„Það var ólýsanleg tilfinning sem skaust inn í hjartað mitt. Ég fékk svona sigurtilfinningu, eins og ég hefði sigrast á heiminum. Eins og ég hefði sigrast á sjálfum mér. Því mig langaði sjúklega mikið til að vinna og fara út með þennan boðskap og þetta lag. Þegar ég fattaði að ég væri búinn að vinna þá gerði ég mér grein fyrir því hvað ég er lánsamur og hvað þetta yrði gaman. Ég gat ekki beðið eftir að byrja undirbúninginn þannig að við byrjuðum strax daginn eftir. Ég er ekki búinn að fá einn frídag og ég nýt þess í botn. En vissulega kom sú hugsun yfir mig daginn eftir hve mikil ábyrgð hvílir á herðum mínum að vera fulltrúi Íslands í þessari keppni en ég er bara svo glaður að þetta sé að gerast.“

Ari er næstyngstur í Eurovision í ár, en hin spænska Amaia Romero er nokkrum mánuðum yngri en okkar maður. Hann segir aldurinn bæði geta verið ógnandi fyrir aðra en líka geta skapað efa í hans eigin brjósti.

„Ég held samt að það skipti minna máli en meira hvað ég er gamall,“ segir Ari. Eins og áður segir er hann spenntur fyrir keppninni og tilbúinn til að stíga á svið. Það er líka önnur ástæða fyrir því að Ari er fullur tilhlökkunar. Það er nefnilega út af því að eitt af átrúnaðargoðunum hans úr Eurovision-keppninni, Norðmaðurinn Alexander Rybak, er meðal keppanda í ár en hann sigraði eftirminnilega með laginu Fairytale í Moskvu árið 2009 þegar Jóhanna Guðrún vermdi annað sætið með Is it True?

„Ég er ofboðslega spenntur að hitta hann. Það er eiginlega skrýtið hvað ég er rosalega mikill aðdáandi og ég trúi því ekki að ég fái að hitta hann og tjilla með honum,“ segir Ari sem er það spenntur að hann er búinn að ákveða hvað hann ætlar að segja við þetta fiðluspilandi sjarmabúnt. „Ég veit ekki alveg hvernig ég á að koma orðum að þessu, en ég verð að segja honum að ég var ellefu ára þegar ég sá hann keppa og vinna og síðan þá hefur hann verið átrúnaðargoðið mitt. Ég vil samt koma þessu frá mér án þess að honum líði eins og hann sé fjörgamall,“ segir Ari og hlær sínum smitandi hlátri. Þá rifjast einmitt upp eitt handleggsbrotið sem gerðist akkúrat þegar Jóhanna Guðrún og Alexander Rybak kepptust um að komast upp úr undanúrslitariðlinum í Rússlandi um árið.

„Ég var í miðri stúdentsveislu hjá frænda mínum og við ákváðum nokkur að fara út að leika. Við vorum ofan á neti á marki sem slitnaði og markið hrundi. Ég datt ofan á markið og frændi minn datt hinum megin við höndina á mér. Það var járnplata á milli og ég heyrði handlegginn brotna. Þannig að ég missti af undanúrslitunum en ég horfði síðan á úrslitin í sumarbústað í fatla.“

Bankar á dyr hjá Universal Studios

Ari er klassískt menntaður söngvari og fékk að vita það stuttu fyrir Söngvakeppnina að hann væri kominn inn í fimm ára söngnám í hinum virta skóla The Royal Academy of Music í London. Hann flytur utan í haust, úr foreldrahúsum og inn á leigumarkaðinn með tveimur æskuvinum sínum. Saman skipa þeir hljómsveit og sér Ari dvölina í London með rómantískum blæ þar sem þeir vinirnir ætla að einbeita sér 150% að því að búa til tónlist.

„Við eigum fullt af lögum og erum með stúdíó hér heima sem við bjuggum til sjálfir en við höfum aldrei gefið neitt út. Það má segja að við spilum tónlist í ætt við Ed Sheeran og Coldplay, en við notum líka röddina sem hljóðfæri og sumt sem við semjum er í anda Sigur Rósar. Ég held allavega að það séu fáir að flytja svipaða tónlist og við. Við ætlum að búa saman þrír í London og það er eiginlega það sem ég hlakka mest til. Að sofa allir þrír saman í einu herbergi og breyta restinni af íbúðinni í stúdíó,“ segir Ari og bætir við að með þátttöku hans í Eurovision hafi opnast ýmsar dyr fyrir tríóið.

„Ég er að skapa mjög góðan vettvang fyrir okkur núna. Um daginn komst ég til dæmis í samband við yfirmann hjá útgáfufyrirtækinu Universal Studios og var beðinn um að senda efnið okkar á hann. Ef allt gengur að óskum þá gætum við hugsanlega komist á samning, þannig að það er aldrei að vita hvað kemur út úr því. Ég finn allavega að Eurovision opnar ýmsar dyr og þetta snýst um að grípa þau tækifæri sem gefast.“

En er ekki litið niður á Eurovision í hinum klassíska söngheimi?

„Nei, alls ekki. Það gleymist oft að Eurovision snýst mikið um fallegar og einlægar ballöður, sem oft týnast í poppinu því það er fyrirferðarmeira. En við sáum hvað gerðist í fyrra. Salvador Sobral steig á svið með afar fallega ballöðu og náði að tengjast öllum heiminum í gegnum tónlistina. Það er þessi tenging sem er svo falleg og hún skiptir ofboðslega miklu máli.“

Hér eru þau Ari og Þórunn í Eurovision-fyrirpartíi í Ísrael fyrir stuttu. Mynd / Stijn Smulders

Eurovision-gallinn á eftir að vekja athygli

Ari hefur ferðast um Evrópu síðustu daga, ásamt lagahöfundinum Þórunni Ernu Clausen, til að kynna sig og lagið áður en kemur að stóru stundinni í Portúgal.

„Við Þórunn erum búin að fara um allt og skemmta í svokölluðum fyrirpartíum fyrir Eurovision. Ég var úti í tólf daga samfleytt, fór fyrst til London, síðan til Ísrael, svo til Portúgal að taka upp póstkortið fyrir keppnina og endaði í Amsterdam. Þá fór ég heim í tvo daga og hélt síðan út til Madríd. Ég er nýkominn heim og á morgun flýg ég til London að syngja á tónleikum með finnsku Eurovision-stjörnunni Söru Aalto,“ segir Ari, en þegar þetta viðtal er tekið er þriðjudagur. Ari stoppar síðan örstutt á Íslandi þegar hann kemur heim frá London því á laugardaginn flýgur hann rakleiðis til Portúgal þar sem stífar æfingar hefjast.

„Auðvitað er ég þreyttur en þetta er góð þreyta. Ég er sáttur yfir því að hafa svona mikið að gera þannig að þetta er mjög þægileg þreyta. Það er mjög mikilvægt að fara í þessi partí því þegar ég svo kem út til Lissabon þá vita margir blaðamenn hver ég er, sem og hörðustu aðdáendur keppninnar. Þetta skiptir máli upp á það að gera að fólk skrifi um mig og ég komist í viðtöl,“ segir Ari.

Ari nýtur hverrar mínútu í Eurovision-ævintýrinu.

En hverju megum við búast við af atriði Ara úti í Portúgal?

„Atriðið verður ekki alveg eins og það hefur verið, við erum búin að gera nokkrar breytingar. En ég get sagt að ég verð mjög vel klæddur. Ég er mjög spenntur fyrir því að ganga á rauða dreglinum,“ segir Ari sposkur á svipinn. „Við skulum segja að klæðnaður minn verði í anda íslensku þjóðarinnar og ég held að hann eigi eftir að vekja mikla athygli.“

Hugsar um ástvini á sviðinu

Óskabarnið okkar stígur annað á svið í fyrri undanúrslitunum þann 8. maí og er það mál Eurovision-spekinga að riðillinn okkar sé ansi strembinn, svokallaður dauðariðill.

„Já, við erum í dauðasta dauðariðli sem hefur sést í Eurovision. Allir bloggarar eru með þvílíkt skiptar skoðanir um hvernig þessi riðill eigi eftir að fara og margir eru á því að lögin sem endi í tíu efstu sætunum í aðalkeppninni séu í þessum riðli. Ég veit ekkert hvernig þetta mun fara, bara engan veginn,“ segir Ari, sem stefnir að sjálfsögðu að sigri.

Sjá einnig: Þetta eru lögin sem Ari keppir við í Lissabon

„Markmiðið er að vinna. Það hefur alltaf verið markmiðið. Hins vegar er aðalmarkmiðið að ná til fólksins með laginu og að fólkið heima í sófa finni fyrir tengingu við lagið. Ef ég næ bara til einnar manneskju þá hef ég staðið mig vel,“ segir Ari. Það örlar ekki á efa í huga söngvarans þar sem hann trúir á lagið Our Choice alla leið.

„Ég tengi svo mikið við þetta lag og það getur átt við svo margt. Það getur átt við að við séum ekki að tjá tilfinningar okkar og að við séum ekki að leyfa fólki að vera eins og það er. Það tengist femínisma, ofbeldi, einelti og öllu sem við getum bætt í heiminum. Þetta snýst um þetta val að vera partur af lausninni en ekki vandamálinu. Við vitum aldrei hvað næsta manneskja er búin að ganga í gegnum og það er mikilvægt að búa til traust, gagnkvæma virðingu og jákvæðni á milli okkar,“ segir Ari. Hann getur að sjálfsögðu ekki tekið allan heiminn með sér upp á svið þannig að mér leikur forvitni á að vita um hvað hann hugsi þegar hann flytji lagið.

„Ég hugsa um fólkið sem mér þykir vænt um. Ég hugsa um mínar ákvarðanir í lífinu. Sumar hafa ekki verið réttar en sumar hafa verið góðar. Ég hugsa líka um manneskjuna sem ég er að reyna að sannfæra. Ég er að reyna að fá hana til að ganga áfram og inn í ljósið en ekki bælast inni í svartnættinu. Þessi eina manneskja táknar auðvitað allt samfélagið.“

Heldur einkalífinu fyrir sig

Talið berst að ástvinum Ara en hann er mjög náinn fjölskyldu sinni og hefur átt sömu tvo bestu vinina síðan í fyrsta bekk. Hann segist umkringdur góðu fólki og eins og staðan er núna eru sautján fjölskyldumeðlimir og vinir á leiðinni til Portúgal með Ara og sá hópur gæti stækkað á næstu dögum.

„Ég og bróðir minn og foreldrar erum mjög náin og við náum að halda góðum tengslum við aðra í fjölskyldunni. Það er mjög mikilvægt. Þau koma með mér út en einnig kærasta mín og fleiri fjölskyldumeðlimir. Svo koma Bergþór og Albert líka með út, það er ekkert annað í boði,“ segir Ari og vísar í Bergþór Pálsson, söngkennara sinn, og Albert Eiríksson, eiginmann hans. „Bergþór og Albert eru eins og hin hjónin sem eiga mig. Það er rosanæs.“

Ég staldra við og spyr Ara um kærustuna, en söngvarinn hefur lítið tjáð sig um sitt einkalíf í fjölmiðlum.

„Við erum búin að vera saman í rúmlega ár og það er bara æðislegt. Ég tala ekki mikið um það í viðtölum því fólk þarf ekkert að vita um mitt einkalíf. Við viljum bara halda því fyrir okkur.“

Ari lætur ekki mótlætið buga sig.

Gefst aldrei upp

Stuttu eftir að Ari snýr aftur heim frá Portúgal kemur að öðrum stórum áfanga í lífi hans. Hann verður nefnilega tvítugur þann 21. maí næstkomandi.

„Þá verður partí. Ég ætla að halda tvítugsafmælið mitt uppi í bústað með vel völdu fólki og bara hafa gaman,“ segir Ari. Á slíkum tímamótum grípur fólk oft sú löngun að líta yfir farinn veg og Ari er þar engin undantekning.

„Það sem stendur upp úr og það sem ég er stoltastur af er að hafa tekist á við tilfinningar mínar og leyft mér að þora að fara í þetta ævintýri. Ég er ánægðastur með að hafa verið jákvæður og leyft mér að stefna hátt og að vera nógu duglegur til að ná mínum markmiðum. Það er ekki til í mér að gefast upp. Þó að mótlætið sé mikið gefst ég aldrei upp.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -