„Þessu laug hún að mér, hágrátandi barninu“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, segir frá því í forsíðuviðtali Mannlífs að hún hafi átt erfitt með að fóta sig í grunnskóla eftir að fjölskylda hennar fluttist til landsins frá Þýskalandi og segist hún hafa upplifað höfnun frá samnemendum sínum. Í fyrstu var hún skilin út undan en þegar hún fluttist í Mosfellsbæ varð hún fyrir grimmu einelti.

„Það var frekar brútalt og ég endaði á því að flýja því þetta var ekki hægt lengur. Ég veit ekki hvort það sé rétt upplifun en mér leið þá eins og allur skólinn hataði mig og léti mér líða þannig“. Endaði Þórhildur Sunna með að fara í Laugalækjarskóla þar sem hún féll vel inn í hópinn. En það var ekki auðsótt mál.

„Það sem situr hvað mest í mér enn þá er að reglulega fór ég inn á skrifstofu aðstoðarskólastjórans á þessum tíma og grátbað hana um að fá að skipta um skóla. Þessi kona sagði mér endurtekið að það væri ekki hægt, það væri allt of dýrt, vissi ég hvað það þyrfti að borga með mér ef ég færi í annan skóla, þetta væri bara ómögulegt og ég þyrfti bara að herða mig. Þessu laug hún að mér, hágrátandi barninu. Svo þegar ég loksins trúði foreldrum mínum fyrir því hvað mér leið ömurlega í skólanum þá fóru þau formlega fram á að ég skipti um skóla og það var ekkert mál. Það var ekki einhver peningalegur ómöguleiki eins og aðstoðarskólastjórinn hafði endurtekið logið að mér. Það var það ljótasta í þessu öllu saman.“

Það var á þessum tíma sem Þórhildur Sunna ákvað að leggja fyrir sig mannréttindalögfræði. „Ég ætlaði alltaf að verða leikkona en þessi höfnun hjá jafnöldrum mínum dró mikið úr mér máttinn. Ég las mikið þegar ég var ein í skólanum og las gríðarlega mikið af sjálfævisögum kvenna frá Miðausturlöndum sem höfðu lent í alls konar ofbeldi fyrir það eitt að vera konur. Þetta ræktaði með mér ákveðið þakklæti fyrir að vera þó sú manneskja sem ég var, að vera kona á Íslandi og geta farið í skóla og geta valið að giftast eða ekki. Ég afréð það að ég myndi fara í að hjálpa þessum konum í Miðausturlöndum. Svo reyndar þroskaðist það af mér og ég áttaði mig á því að þær væru alveg fullfærar um að berjast fyrir sínum réttindum sjálfar. En þessi áhugi á mannréttindum kviknaði í kringum þetta.“

Allt viðtalið má lesa hér.

Ekki missa af þessum

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is